Ferill 55. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 891  —  55. mál.
Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Óla Birni Kárasyni um ívilnunarsamninga.


    1.     Hversu marga svokallaða ívilnunarsamninga hafa íslensk stjórnvöld gert frá árinu 2009?
    Frá árinu 2009 hafa verið gerðir 13 fjárfestingarsamningar vegna nýfjárfestinga (ívilnunarsamningar).

    2.     Við hvaða fyrirtæki hafa ívilnunarsamningar verið gerðir og vegna hvaða fjárfestinga?
     1.      Fjárfestingarsamningur, dags. 7. ágúst 2009, við Century Aluminum Company og Norðurál Helguvík ehf. vegna álvers í Helguvík. Verkefnið kom ekki til framkvæmda.
     2.      Fjárfestingarsamningur, dags. 30. desember 2010, við Thorsil ehf., Timminco og Strokk Energy ehf. vegna kísilmálmverksmiðju í Þorlákshöfn. Verkefnið kom ekki til framkvæmda.
     3.      Fjárfestingarsamningur, dags. 30. desember 2010, við Becromal Iceland ehf., Becromal Properties ehf., Strokk Energy ehf. og Becromal S.P.A vegna álþynnuverksmiðju í Eyjafirði.
     4.      Fjárfestingarsamningur, dags. 17. febrúar 2011, við Íslenska kísilfélagið ehf., Tomahawk Development á Íslandi ehf. og GSM Enterprises LLC vegna kísilmálmverksmiðju í Helguvík. Verkefnið kom ekki til framkvæmda.
     5.      Fjárfestingarsamningur, dags. 27. september 2011, við Verne Real Estate II ehf. og Verne Holdings Ltd. vegna gagnavers í Reykjanesbæ.
     6.      Fjárfestingarsamningur, dags. 6. maí 2012, við GMR Endurvinnsluna ehf. vegna stálendurvinnslustöðvar á Grundartanga.
     7.      Fjárfestingarsamningur, dags. 28. janúar 2013, við Marmeti ehf. vegna fiskvinnslu í Sandgerði.
     8.      Fjárfestingarsamningur, dags. 27. september 2013, við PCC SE og PCC BakkaSilicon hf. vegna kísilverksmiðju í landi Bakka í Norðurþingi.
     9.      Fjárfestingarsamningur, dags. 28. janúar 2014, við Algalíf Iceland ehf. vegna smáþörungaframleiðslu við Ásbrú.
     10.      Fjárfestingarsamningur, dags. 10. apríl 2014, við United Silicon hf. vegna kísilvers á Reykjanesi.
     11.      Fjárfestingarsamningur, dags. 30. maí 2014, við Thorsil ehf. vegna kísilvers á Reykjanesi. Verkefnið hefur ekki komið til framkvæmda.
     12.      Fjárfestingarsamningur, dags. 26. september 2014, við Silicor Materials hf. vegna sólarkísilvers í Hvalfjarðarsveit. Verkefnið hefur ekki komið til framkvæmda.
     13.      Fjárfestingarsamningur, dags. 20. maí 2015, við Matorku ehf. vegna fiskeldisstöðvar í Grindavík.

    3.     Hver má áætla að sé heildarupphæð afsláttar, skattalegs hagræðis eða ívilnunar, af opinberum gjöldum frá árinu 2009 til ársloka 2017?
    Heildarfjárhæð afsláttar af gjöldum, skattalegs hagræðis og ívilnana af opinberum gjöldum vegna framangreindra samninga nam samtals 86.692.840 kr. á umræddu árabili. Skiptist sú fjárhæð eftir umræddum fyrirtækjum sem hér segir:
Becromal Iceland ehf. 24.904.000 kr.
Verne Holdings Ltd. 2.865.187 kr.
Algalíf 17.743.070 kr.
Matorka 3.392.635 kr.
United Silicon hf. 30.648.625 kr.
GMR Endurvinnslan ehf. 7.139.323 kr.

    Tekið er fram að endanlegar tölur fyrir árið 2017 liggja ekki fyrir fyrr en síðar á þessu ári.