Ferill 240. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 893  —  240. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Þórarni Inga Péturssyni um matvælaframleiðslu á Íslandi.


     1.      Hafa verið metin þau áhrif sem tollasamningur Íslands við ESB hefur á innlenda matvælaframleiðslu?
    Á vormánuðum 2011, fjórum árum eftir gildistöku samningsins frá 2007, fóru Landssamtök sláturleyfishafa og Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði þess á leit við stjórnvöld að þau beittu sér fyrir samningum við ESB um stærri tollfrjálsa innflutningskvóta fyrir lambakjöt og skyr á markaði sambandsins. Ástæða þessa var sú að stóraukin viðskipti áttu sér stað með lambakjöt inn til ESB á þessum tíma auk þess sem fljótt kom í ljós að veruleg tækifæri reyndust á markaði ESB fyrir íslenskt skyr. Í viðræðum stjórnvalda við þessa hagsmunaaðila var skýrt tekið fram að ef gengið yrði á ný til viðræðna af þessu tagi við ESB mætti búast við því að gefa yrði frekari ívilnanir á móti. Auk þess var skýrt tekið fram að það væri ekki á vísan að róa með það að slíkar ívilnanir yrðu allar þess eðlis að þær myndu ekki snerta viðkvæma hluta búvöruframleiðslu á Íslandi með einhverjum hætti. Ekki fór fram ítarleg greining á þeim áhrifum sem tollasamningur Íslands við ESB hefur á innlenda matvælaframleiðslu. Þess ber þó að geta að í desember árið 2015 fengu Bændasamtök Íslands Vífil Karlsson hagfræðing til að vinna skýrslu sem nefndist Greinargerð um áhrif nýs samnings Íslands um landbúnaðarafurðir við EU. Í greinargerðinni var unnið út frá fjórum sviðsmyndum, A, B, C og D, og reynt að meta áhrif samningsins á tekjur og markaðshlutdeild bænda í helstu kjötgreinum. Í apríl árið 2016 fékk ráðuneytið Vífil til að bæta við útreikningana sviðsmynd E. Segja má að útkoman á áhrifum samningsins á tekjur og markaðshlutdeild bænda sé margbreytileg, allt eftir því hvaða forsendur liggja til grundvallar.
    Ljóst er að afnám tolla og aukinn innflutningur í gegnum tollkvóta mun skapa áskoranir fyrir innlenda matvælaframleiðslu. Að sama skapi munu tækifæri opnast í kjölfar aukins markaðsaðgangs að ESB, eins og áður hefur komið fram. Þegar horft er til innflutnings undanfarin ár á þeim vörum sem tollkvótar munu aukast á, má sjá að innflutningur hefur til að mynda verið meiri á helstu kjöttegundum en sem nemur tollkvótunum. Vísað er til skýringarmynda á næstu síðu um þetta.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




     2.      Hvernig hyggst ráðherra bregðast við dómi EFTA-dómstólsins í sameinuðum málum E-2/17 og E-3/17 gegn íslenska ríkinu um að takmarkanir á innflutningi á hráu kjöti, ógerilsneyddum mjólkurvörum og eggjum samræmist ekki ákvæðum EES-samningsins?
    Embættismenn utanríkisráðuneytis og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis hafa fundað með fulltrúum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins til að kanna hvort hægt sé að breyta þeim samningi sem íslensk stjórnvöld gerðu við Evrópusambandið árið 2007 þegar tekin var ákvörðun um að innleiða matvælalöggjöf ESB í íslensk lög. Þá ákvörðun má rekja til samþykktar ríkisstjórnarinnar í október árið 2005 um að taka upp viðræður um það efni. Í viðræðunum nú er leitað leiða til að tryggja varnir Íslands gegn salmonellu og kampýlóbakter. Embættismenn hafa jafnframt verið í samskiptum við Eftirlitsstofnun EFTA en stofnunin annast eftirfylgni með dómum EFTA-dómstólsins til að tryggja að ríki bregðist við dómum dómstólsins með viðeigandi hætti. Stofnunin hefur sent íslenska ríkinu bréf til að afla upplýsinga um viðbrögð Íslands. Þá hafa verið haldnir fundir og stofnunin upplýst um stöðu mála, m.a. um fundi Íslands og framkvæmdastjórnar ESB.
    Ráðherra hefur sett á fót fimm manna ráðgjafahóp til að aðstoða við úrlausn málsins og ýmissa verkefna sem því tengjast.