Ferill 265. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 896  —  265. mál.
Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Guðmundi Inga Kristinssyni um hleðslustöðvar fyrir rafbíla.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvernig hyggst ráðherra tryggja aðgengi allra, þ.m.t. hreyfihamlaðra, að hleðslustöðvum fyrir rafbíla í ljósi þess að fæstar hleðslustöðvar fyrir rafbíla eru aðgengilegar og engar reglur eru til um aðgengi að slíkum stöðvum?

    Í þingsályktun um aðgerðaáætlun um orkuskipti, sem samþykkt var á Alþingi 31. maí 2017, er að finna aðgerðir sem ætlað er að stuðla að uppbyggingu innviða til að tryggja framgang orkuskipta, m.a. að því er varðar hleðslustöðvar fyrir rafbíla.
    Í þeirri vinnu sem fram undan er og þegar er hafin við innleiðingu aðgerðaáætlunarinnar mun m.a. verða tekið mið af því að tryggt verði eftir því sem kostur er aðgengi allra, þ.m.t. hreyfihamlaðra, að hleðslustöðvum fyrir rafbíla. Slík aðgengismál eru á forræði nokkurra aðila og kalla á samstarf þvert á ráðuneyti, stofnanir og sveitarfélög. Verður slíkt samráð og samstarf tryggt í vinnu við framfylgni aðgerðaáætlunarinnar með það fyrir augum að bæta aðgengi að hleðslustöðvum fyrir rafbíla.
    Benda má á að í nýlegri fréttatilkynningu frá Orku Náttúrunnar kemur fram að fyrirtækið vinni markvisst að því að tryggja gott aðgengi hreyfihamlaðra að hleðslustöðvum þeirra. Þær eru 31 talsins, hringinn í kringum landið, og er yfirlýst markmið fyrirtækisins að fyrir lok sumars 2018 verði búið að tryggja aðgengi hreyfihamlaðra að þeim öllum.