Ferill 405. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 909  —  405. mál.
Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Lilju Rafneyju Magnúsdóttur um stöðu hafnarsjóða og stefnumörkun í hafnamálum.


     1.      Hver hafa verið áhrif laga nr. 119/2014, um breytingu á hafnalögum, nr. 61/2003, á fjárhag hafnarsjóða og hafa markmið lagasetningarinnar náðst?
    Breytingin sem gerð var á hafnalögum, nr. 61/2003, með lögum nr. 119/2014 tók gildi í árslok 2014. Fjárhagsupplýsingar fyrir árið 2017 liggja ekki fyrir. Því er ekki hægt að svara til um áhrif lagasetningarinnar nema fyrir árin 2015 og 2016.
    Hafnasamband Íslands gefur árlega út greiningu á fjárhagsstöðu íslenskra hafna og eru þær aðgengilegar á vef Hafnasambandsins.
    Í töflunni sem hér fer á eftir er heildarframlegð og rekstrarniðurstaða hafna samkvæmt skýrslum Hafnasambandsins og loks framlög ríkissjóðs vegna hafnarframkvæmda.

Framlegð í millj. kr. Rekstrarniðurstaða í millj. kr. Framlög ríkis í millj. kr.
2014 3.026,2 1.047,5 214,5
2015 3.325,4 1.799,4 167,4
2016 3.424,3 1.568,7 892,1

    Heildarframlegð og rekstrarniðurstaða hafna hefur batnað frá árinu 2014 en staða hafna er mjög mismunandi. Minni hafnir eiga erfitt með að halda við bryggjum og brimvarnargörðum og reiða þær sig á framlag frá ríkissjóði. Ekki hefur því tekist alls staðar að halda í við endurbyggingu hafnarmannvirkja sem skyldi, m.a. þar sem fjárframlög ríkisins til Hafnabótasjóðs voru af skornum skammti árin 2014 og 2015, og reyndar alveg frá árinu 2009. Því má gera ráð fyrir að útgjöld vegna endurbyggingar hafnarmannvirkja hækki á komandi árum.

     2.      Hvernig á að mati ráðherra að bregðast við því að fjárhagsstaða margra hafnarsjóða er svo slök að þeir geta hvorki staðið undir viðhalds- né nýframkvæmdum?
    Það er á ábyrgð þeirra sem eiga og reka viðkomandi höfn að bregðast við fjárhagsstöðu þeirra. Þeir eru ábyrgir fyrir rekstri og fjárfestingu, enda hafa margir þeirra brugðist við með því að draga saman útgjöld og draga úr viðhaldi. Framlög ríkisins í þennan málaflokk hafa aukist umtalsvert, en mættu vera meiri svo að styrkja mætti hafnarsjóði frekar til þess að halda betur við þeim hafnarmannvirkjum sem fyrir eru.
    Veltufé frá rekstri lýsir fjármunamyndun hafnarsjóðanna og er samkvæmt töflum í skýrslu Hafnasambandsins eins og hér má sjá.

Veltufé frá rekstri í millj. kr.
2014 2.638,2
2015 3.188,8
2016 3.240,7

    Veltufé frá rekstri hefur aukist frá árinu 2014 til 2016 sem þýðir að heildarfjármunamyndun hefur aukist á milli ára. Þannig hefur staða hafna almennt batnað. Staða hafna er mjög mismunandi. Bág staða sumra hafnarsjóða er áhyggjuefni.

     3.      Liggur fyrir mat á fjárþörf hafnarsjóða sem eiga kost á fjárframlagi úr ríkissjóði vegna viðhalds- og nýframkvæmda á næstu árum og ef svo er, hvað felur það í sér í aðalatriðum og hvernig er áformað að bregðast við fjárþörfinni?
    Árið 2012 mat Siglingastofnun Íslands fjárþörf hafnarsjóða til að viðhalda hafnarmannvirkjum og til að halda viðunandi dýpi innan hafnar. Það mat hefur ekki verið uppfært en það hljóðaði upp á um 2,5–3 milljarða króna á ári fyrir allar hafnir landsins. Að frádreginni þörf þeirra hafnarsjóða sem ekki njóta framlags ríkisins og að teknu tilliti til þess hversu mikið framlag ríkisins getur verið samkvæmt hafnalögum er talið að framlag ríkisins þyrfti að vera um 1.200–1.500 millj. kr. á ári. Þær hafnir sem ekki njóta framlags ríkisins eru hafnirnar á höfuðborgarsvæðinu og hafnir Fjarðabyggðar. Ætlunin er að uppfæra þetta mat.

     4.      Hver er afstaða ráðherra til hugmynda um opinbera stefnumörkun til langs tíma í hafnamálum og hyggst hann beita sér fyrir slíkri stefnumörkun?
    Það er mikilvægt að mótuð sé heildstæð stefna í hafnamálum þar sem tekið er tillit til samfélagsins og þarfa viðkomandi hafnar. Horfa þarf jafnframt til þess hvort mikilvægt sé að fækka hafnarsjóðum með sameiningu og aukinni samvinnu. Hafnarsjóðir nái þannig að hagræða og samnýta hafnarmannvirkin betur með t.d. sérhæfingu.

     5.      Hafa verið veitt framlög úr ríkissjóði til að auðvelda eiganda hafnar að hætta hefðbundnum hafnarrekstri eða draga úr honum eins og heimilt er samkvæmt hafnalögum?
    Hafnarsjóðir eða eigendur hafna hafa ekki sótt um styrki til að draga úr rekstri eða hætta hefðbundnum hafnarrekstri og ekki hafa verið veitt framlög úr ríkissjóði til að leggja niður hafnarsjóði.

     6.      Hafa verið veitt framlög úr ríkissjóði til að standa straum af kostnaði við niðurrif hafnarmannvirkja eins og heimild er fyrir í hafnalögum og ef svo er, hvert hafa þeir styrkir runnið og hversu háir voru þeir?
    Framlög úr ríkissjóði til að rífa niður hafnarmannvirki hafa ekki verið veitt.

     7.      Hefur skapast þörf fyrir dýpkun í höfnum eða gerð viðlegukanta vegna koma skemmtiferðaskipa til landsins og hefur verið unnt að mæta þeirri þörf?
    Dýpkað hefur verið til að auðvelda skemmtiferðaskipum að leggjast að bryggju í nokkrum höfnum en yfirleitt hefur dýpkunin verið hluti af annarri framkvæmd. Skemmtiferðaskip þurfa svipað og í sumum tilvikum minna dýpi en gámaskip skipafélaganna, frystitogarar og nótaveiðiskip.

     8.      Hvernig er ætlunin að standa að grunnrannsóknum og líkantilraunum vegna hafnarframkvæmda á næstu árum og hver er stefnan varðandi öldufarsrannsóknir og þróun í öflun og miðlun rauntímaupplýsinga til sjófarenda um veður og sjólag og gerð og birtingu ölduspár fyrir íslenskt hafsvæði?
    Ætlunin er að stuðla að grunnrannsóknum og líkantilraunum vegna hafnarframkvæmda eins og fjárlög leyfa og samgönguáætlun gerir ráð fyrir. Framlög til grunnrannsókna og líkantilrauna fyrir hafnir hafa verið af skornum skammti. Hafnir hafa sjálfar að stórum hluta kostað rannsóknir sem miða að bættri hafnaraðstöðu. Vegagerðin hefur enn yfir að ráða aðstöðu fyrir líkantilraunir með hafnir í tilraunasal í Vesturvör í Kópavogi. Þar hafa verið gerðar líkantilraunir með fjölda hafna með mjög góðum árangri. Aðstaðan hefur seinni árin einnig verið notuð fyrir rennslisrannsóknir fyrir virkjanir. Nefna má að nú er í líkanstöðinni unnið að rannsókn á krapaflóðum fyrir ofanflóðasjóð.
    Vegagerðin er tæknilega vel búin til öldufarsrannsókna, þ.e.a.s. hún hefur yfir góðum reiknilíkönum að ráða. Vegagerðin hefur unnið að þróun á upplýsingakerfi stofnunarinnar um veður og sjólag, sem miðar að miðlun rauntímaupplýsinga til sjófarenda. Nú undanfarið hefur hún þróað öldufarsreikninga á aðstæðum upp við ströndina og er m.a. unnið að því að miðla í kerfinu upplýsingum um ný spásvæði á Breiðafirði og um fjörur á Suðurlandi, svo sem Reynisfjöru og Víkurfjöru, þar sem ferðamenn venja komur sínar. Á næstunni er stefnt að því að upplýsingakerfið miðli upplýsingum um ölduspár á suðvesturhorninu þar sem aldan er hæst við landið.
    Haldið verður áfram að nýta tækniframfarir við að afla og miðla rauntímaupplýsingum, m.a. með því að nýta langdrægari senda en eru í notkun í dag. Einnig er í skoðun að nýta fleiri miðla, t.d. smáforrit, app, svo að sjófarendur geti nýtt sér raunupplýsingar um veður og sjólag úr farsíma.