Ferill 186. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 910  —  186. mál.
Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Þorgerði K. Gunnarsdóttur um nefnd um framtíð Reykjavíkurflugvallar.


     1.      Hvenær hyggst ráðherra birta niðurstöður nefndar sem skipuð var í september 2017 og var falið að finna ásættanlega lausn á framtíð Reykjavíkurflugvallar?
    Niðurstöður starfshóps sem skipaður var af Jóni Gunnarssyni, fyrrverandi ráðherra, í september 2017 um framtíð Reykjavíkurflugvallar voru birtar á vef Stjórnarráðsins 7. febrúar 2018.

     2.      Hver eru næstu skref ráðherra í málinu?
    Til að fá allar upplýsingar fram svo umræðan geti verið sem faglegust verða eftirtaldir kostir kannaðir:
    Hvað þarf til þess að flugvöllur í Vatnsmýrinni geti gegnt hlutverki sínu sem miðstöð innanlandsflugs og varaflugvöllur fyrir millilandaflug, sinnt sjúkraflugi og gegnt öryggis- og almannavarnahlutverki fyrir höfuðborgina og landsbyggðina. Byggt er á niðurstöðum skýrslu Þorgeirs Pálssonar frá árinu 2017.
    Til samanburðar verður kannað hvað þarf til þess að byggja upp nýja flugvöll í Hvassahrauni fyrir innanlandsflug sem geti sinnt sjúkraflugi, gegnt öryggis- og almannavarnahlutverki fyrir höfuðborgina og landsbyggðina og sem varaflugvöllur fyrir millilandaflug. Byggt verður á niðurstöðum Rögnunefndar frá árinu 2015.
    Til viðbótar er unnið að því að leggja fram tillögur um endurbætur á aðstöðu fyrir flug á Reykjavíkurflugvelli.