Ferill 577. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 918  —  577. mál.
Fyrirspurn


til félags- og jafnréttismálaráðherra um ábyrgðarmenn og greiðsluaðlögun.

Frá Ólafi Ísleifssyni.


     1.      Með hvaða hætti uppfyllir embætti umboðsmanns skuldara leiðbeiningarskyldu sína samkvæmt stjórnsýslulögum gagnvart ábyrgðarmönnum skuldara í greiðsluaðlögun, umfram það að senda þeim skriflegt bréf, sbr. svar við fyrirspurn á þingskjali 781? Koma í slíkum bréfum fram:
                  a.      upplýsingar um rétt ábyrgðarmanns til að lýsa kröfu fyrir umsjónarmanni og öðlast andmælarétt gagnvart frumvarpi um greiðsluaðlögun,
                  b.      leiðbeiningar um könnun á skuldbindingargildi ábyrgða, ógildingu þeirra og úrræði sem hægt er að leita í því skyni, og hver eru þau úrræði,
                  c.      leiðbeiningar um hvernig ábyrgðarmaður, sem hefur tapað hluta af endurkröfu sinni vegna greiðsluaðlögunar aðalskuldara, getur sótt um lækkun tekjuskattsstofns skv. 65. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003?
     2.      Kemur til greina að upplýsa að öðru leyti um almennt innihald slíkra bréfa, svo sem með því að birta sýnishorn af stöðluðum eða dæmigerðum texta þeirra?
     3.      Gefst ábyrgðarmönnum skuldara í greiðsluaðlögun kostur á aðstoð frá embætti umboðsmanns skuldara við gerð kröfulýsingar og aðra nauðsynlega réttindagæslu í tengslum við greiðsluaðlögun aðalskuldara? Er ábyrgðarmönnum boðin slík aðstoð eða þurfa þeir að sækjast sérstaklega eftir henni og þá hvernig?
     4.      Í hversu mörgum tilvikum hafa ábyrgðarmenn lýst kröfum fyrir umsjónarmönnum vegna ábyrgða sem féllu á þá við greiðsluaðlögun skuldara, samanborið við heildarfjölda tilfella þar sem greiðsluaðlögun hefur virkjað slíkar ábyrgðir, sundurliðað eftir árum?
     5.      Hvernig er ábyrgðarmönnum skuldara sem sjá ekki fram á að geta staðið undir ábyrgðum sem falla á þá vegna greiðsluaðlögunar aðalskuldara leiðbeint um úrræði sem þeir geta leitað vegna þess og hver eru þau úrræði?
     6.      Fulltrúa hverra hefur ráðherra í hyggju að kalla til samráðs við endurskoðun laga um greiðsluaðlögun einstaklinga og setningu reglugerðar á grundvelli þeirra og hvernig hyggst ráðherra tryggja að sjónarmið viðskiptamanna fjármálastofnana komist á framfæri í því starfi?


Skriflegt svar óskast.