Ferill 406. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 925  —  406. mál.




Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um áhættumat, viðbragðsáætlanir o.fl. vegna eiturefnaflutninga um vatnsverndarsvæði.


     1.      Er til og endurskoðað reglulega áhættumat vegna flutninga eldsneytis, tilbúins áburðar, annarra eiturefna til atvinnurekstrar og annars hættulegs farms um þjóðvegi í grennd við vatnsverndarsvæði, þar á meðal vegna flutninga slíkra efna um Sandskeið og Hellisheiði? Hver er niðurstaða nýjasta slíks mats eftir svæðum?
    Reglur um flutning á hættulegum farmi á landi er að finna í reglugerð nr. 1077/2010. Reglugerðin er sett með stoð í umferðarlögum, nr. 50/1987, á grundvelli tilskipunar Evrópusambandsins, Directive 2008/68/EC of the European Parliament and of the Council of 24 September 2008 on the inland transport of dangerous goods. Markmið reglugerðarinnar er að tryggja að flutningur hættulegs farms á landi fari þannig fram að hætta á líkams- og heilsutjóni, svo og eignatjóni og umhverfisspjöllum, verði sem minnst.
    Hlutverk Samgöngustofu samkvæmt reglugerð nr. 1077/2010 er að viðurkenna og skrá ökutæki sem nota á til flutnings á hættulegum farmi. Þá viðurkennir Samgöngustofa öryggisráðgjafa sem flutningsaðilum er skylt að hafa og ber ábyrgð á námskeiðshaldi og prófum til að öðlast svokölluð ADR-réttindi. Eftirlitshlutverk Samgöngustofu á grundvelli reglugerðarinnar er fólgið í því að staðfesta að búnaður ökutækis uppfylli kröfur ADR-reglna (tilskipun 2008/68/EB) þegar ökutækið er skráð til flutnings á hættulegum farmi, sbr. reglugerð um skráningu ökutækja.
    Ábyrgð á flutningi á hættulegum farmi í nágrenni við vatnsverndarsvæði heyrir samkvæmt framangreindu ekki undir Samgöngustofu og er áhættumat vegna slíkra flutninga þar af leiðandi ekki framkvæmt hjá stofnuninni.
    Vatnsverndarsvæði eru á ábyrgð og umsjón sveitarfélaga og veitustofnana á þeirra vegum. Um vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins gildir samþykkt nr. 555/2015 en markmið samþykktarinnar er að tryggja verndun grunnvatns vatnsverndarsvæða höfuðborgarsvæðisins þannig að gæði neysluvatns á vatnstökustað uppfylli ávallt kröfur sem gerðar eru í löggjöf. Sjá nánar á eftirfarandi slóð:
reykjavik.is/sites/default/files/skjol_thjonustulysingar/b_nr_555_2015_verndarsvaedi_vatnsverndar.pdf
Þá má einnig nefna að vatnsveitur á höfuðborgarsvæðinu, í samvinnu við hlutaðeigandi heilbrigðiseftirlit og Skógræktarfélag Reykjavíkur, hafa tekið saman reglur til að fyrirbyggja óhöpp og/eða draga úr óæskilegum áhrifum af völdum óhappa á vatnsverndarsvæðum Reykjavíkur og nágrennis. Reglurnar gilda um verktaka á vegum vatnsveitnanna sem sinna starfsemi innan vatnsverndarsvæða og aðra sem erindi eiga inn á vatnsverndarsvæði með vélar og/eða farm sem getur spillt grunnvatni. Sjá reglurnar á eftirfarandi slóð:
www.or.is/sites/or.is/files/vidbrogd_vid_mengunarohappi_a_vatnsverndarsvaedum_0.pdf

     2.      Eru til viðbragðsáætlanir sem eru endurskoðaðar reglulega í ljósi áhættumats? Hverjir eru helstu þættir slíkra áætlana, þar á meðal um verkaskiptingu og skiptingu ábyrgðar aðila sem koma að slíkum áætlunum?
    Samkvæmt 7. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 15/2017, fer umhverfis- og auðlindaráðuneyti með mál er varða stjórn vatnamála og ráðgjöf um nýtingu vatns, mengunarvarnir, þar á meðal hljóðvist, mengun hafs og stranda, vatns og jarðvegs, meðhöndlun úrgangs og úrvinnslugjald, þ.m.t. málefni úrvinnslusjóðs og umhverfisábyrgð. Áætlanir um viðbrögð og varnir í umhverfismálum heyra því einkum undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið.

     3.      Hvernig er háttað framkvæmd eftirlits með starfsleyfisskyldum aðilum, sbr. reglugerð nr. 1077/2010, um flutning á hættulegum farmi á landi?
    Eftirlitshlutverk Samgöngustofu á grundvelli reglugerðar nr. 1077/2010 er fólgið í því að gæta þess að búnaður ökutækis sé fullnægjandi samkvæmt kröfum í ADR-reglum (tilskipun 2008/68/EB) þegar ökutækið er skráð til flutnings á hættulegum farmi, sbr. reglugerð um skráningu ökutækja.
    Vinnueftirlitið hefur yfirumsjón með framkvæmd reglugerðarinnar hvað varðar flokkun efna, viðurkenningu umbúða, prófun og viðurkenningar sem krafist er í ADR-reglum, nema að því er varðar geislavirk efni sem Geislavarnir ríkisins hafa yfirumsjón með. Vinnueftirlitið fer einnig með eftirlit með því að fylgt sé reglum um störf öryggisráðgjafa og sér um útgáfu réttindaskírteina (ADR-skírteina).
    Lögreglan (vegaeftirlit lögreglunnar) hefur umsjón með eftirliti á vegum með ökutækjum sem flytja hættulegan farm, sbr. reglur nr. 895/2016, um sérstakt vegaeftirlit lögreglu.

     4.      Hefur verið könnuð hagkvæmni þess að eldsneyti, tilbúnum áburði og öðrum eiturefnum til atvinnurekstrar á Suðurlandi verði ekið um Suðurstrandarveg í stað Suðurlandsvegar eða að slíkum farmi væri landað austan fjalls og dreift þaðan? Hver er niðurstaða slíkrar könnunar, hafi hún verið gerð?
    Vísað er til svars við 2. tölul. fyrirspurnarinnar. Stofnanir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, þ.e. Samgöngustofa og Vegagerðin, hafa ekki komið að könnunum í þessa veru.

     5.      Liggur fyrir áhættumat og viðbragðsáætlun vegna áhrifa saltburðar á Suðurlandsveg í grennd við vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins sem og á Bláfjallaafleggjarann og skíðabrekkur í Bláfjöllum?
    Vísað er til svars við 2. tölul. fyrirspurnarinnar til nánari skýringar. Undantekning er að Vegagerðin metur áhættu af einstökum flutningum eftir því sem óskum um slíkt er beint til stofnunarinnar.
    Í leiðbeiningum og reglum Vegagerðarinnar við gerð útboðslýsinga er kafli um umhverfismál og viðbrögð við umhverfisóhöppum (kafli 1.13). Sjá nánar á eftirfarandi slóð: www.vegagerdin.is/media/almenn-verklysing/leidbein_utb_17-3-201217.pdf
    Þá má einnig finna frekari upplýsingar frá Vegagerðinni á eftirfarandi slóðum:
    Umhverfis- og öryggishandbók fyrir verktaka og þjónustuaðila Vegagerðarinnar:
www.vegagerdin.is/vefur2.nsf/Files/Oryggishandbok_fyrir_verktaka/$file/Oryggishandbok_fyrir_verktaka.pdf     Skýrsla um umhverfisáhrif vegsöltunar:
www.vegagerdin.is/vefur2.nsf/Files/umhverfisahrif_vegsoltunar/$file/Umhverfisáhrif%20vegsöltunar%20forathugun.pdf
    Skýrsla um öryggi vatnasvæða í nágrenni vega:
www.vegagerdin.is/vefur2.nsf/Files/Oryggi_vatnasvaeda_i_nagrenni_vega/$file/Öryggi%20vatnasvæða%20í%20nágrenni%20vega.pdf

     6.      Liggur fyrir áhættumat og viðbragðsáætlun vegna áhrifa gúmmíkurls undan hjólbörðum bifreiða og annarra mengandi efna frá bifreiðaumferð um Suðurland í grennd við vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins?
    Vísað er til svars við 2. tölul. fyrirspurnarinnar.