Ferill 395. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 933  —  395. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á innheimtulögum, nr. 95/2008 (innheimtustarfsemi félaga í eigu lögmanna).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Heimi Skarphéðinsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og Jón Gunnar Ásbjörnsson frá Lögmannafélagi Íslands. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Lögmannafélaginu, Neytendastofu og Fjármálaeftirlitinu.
    Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að með því sé brugðist við athugasemdum í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 8302/2014 þar sem m.a. var bent á meinbugi á innheimtulögum, nr. 95/2008. Lutu athugasemdir umboðsmanns annars vegar að því að nákvæmar þyrfti að skilgreina hverjir féllu undir hugtakið lögmenn skv. 2. mgr. 3. gr. innheimtulaga, nánar tiltekið hvort lögmannsstofum og félögum í eigu lögmanna væri heimilt að stunda innheimtu án innheimtuleyfis, og hins vegar að því að í raun færi Lögmannafélag Íslands með eftirlit með lögmönnum samkvæmt innheimtulögum en ekki úrskurðarnefnd lögmanna líkt og 2. mgr. 15. gr. laganna kveður á um. Við þessum athugasemdum er brugðist í 1. og 4. gr. frumvarpsins. Auk þessa er með frumvarpinu lagt til að gild starfsábyrgðartrygging bætist við upptalningu skilyrða fyrir innheimtuleyfi í 4. gr. laganna, að tekið verði fram í lögunum að innstæður á vörslufjárreikningi innheimtuaðila séu ekki hans eign og séu því m.a. ekki aðfararhæfar og að við lögin bætist ný grein um niðurfellingu innheimtuleyfis.
    Við umfjöllun um málið átti sér stað nokkur umræða um hvort það fyrirkomulag að eftirlit með lögmönnum væri á hendi félags lögmanna væri heppilegt. Nefndin vekur athygli á því að almennt fari betur á því að hagsmunafélög séu ekki látin hafa eftirlit með eigin félagsmönnum.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Ólafur Ísleifsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.
    Brynjar Níelsson og Oddný G. Harðardóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifa undir álitið samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda.

Alþingi, 8. maí 2018.

Óli Björn Kárason,
form.
Þorsteinn Víglundsson,
frsm.
Brynjar Níelsson.
Bryndís Haraldsdóttir. Helgi Hrafn Gunnarsson. Oddný G. Harðardóttir.
Ólafur Þór Gunnarsson. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Þórunn Egilsdóttir.