Ferill 581. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 936  —  581. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum (upprunatengdir ostar, móðurmjólk).

Frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.



1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 1. tölul. 1. mgr. 7. gr., sbr. 1. mgr. 192. gr. og ákvæði II. viðauka við samning í formi bréfaskipta milli Evrópusambandsins og Íslands um viðbótarfríðindi í viðskiptum með landbúnaðarafurðir, sem var birtur í þingskjali 1338 í 783. máli á 145. löggjafarþingi og undirritaður hinn 23. mars 2017, skal opna tollkvóta fyrir upprunatengdan ost úr vörulið 0406 þannig að viðbót árið 2018 verði 210 tonn, hlutfallslega í samræmi við dagsetningu gildistöku samnings, og tollkvóti á ári eftir gildistöku samnings verði 230 tonn.

2. gr.

    Við undirlið nr. 0401.20 í tollskrá í viðauka I við lögin bætist nýtt tollskrárnúmer, svohljóðandi:

A
%
A1
kr./kg
E
%
    0401.2008  – – –  Móðurmjólk fyrir hvítvoðunga 0

3. gr.

Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Í því er lagt til að heildaraukning tollkvóta vegna upprunatengdra osta verði heimiluð strax á gildistökuári samnings Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur í stað þess að heildaraukningunni verði náð á fjórum árum. Frumvarpið felur einnig í sér að móðurmjólk sem flutt er inn vegna hvítvoðunga verði tollfrjáls.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Í nefndaráliti meiri hluta atvinnuveganefndar um frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, búnaðarlögum og tollalögum (búvörusamningar, búnaðarlagasamningur), þingskjal 1647, 680. mál 145. löggjafarþings, kom fram að meiri hluti nefndarinnar hefði sammælst um það við ráðherra að hraða innleiðingu á auknum kvótum vegna innflutnings á sérostum (upprunatengdum ostum) þannig að hún komi til framkvæmda á fyrsta ári gildistíma samnings Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur. Umræddir ostar falla undir vörulið 0406 samkvæmt tollskrá í viðauka I við tollalög og eru skráðir í samræmi við reglur um vernd afurðarheita sem vísa til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu.
    Með þingsályktun nr. 59/145 um staðfestingu samnings Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur heimilaði Alþingi ríkisstjórninni að staðfesta samninginn fyrir Íslands hönd. Samkvæmt honum skyldi heildaraukningu tollkvóta fyrir upprunatengda osta náð á fjórum árum.
    Samkvæmt 40. gr. stjórnarskrárinnar má engan skatt leggja á, breyta eða taka af nema með lögum og er það ítrekað í ákvæði 77. gr. sem segir að skattamálum verði eingöngu skipað með lögum og að ekki megi fela stjórnvaldi ákvörðun um að leggja á skatta, breyta þeim eða afnema. Þannig segir í 1. tölul. 1. mgr. 7. gr. tollalaga, nr. 88/2005, að tollar skuli lækka, falla niður eða endurgreiðast í samræmi við ákvæði í fríverslunar- og milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að.
    Af framangreindu leiðir að til þess að heimilt sé að hverfa frá ákvæðum samningsins að þessu leyti, og heimila heildaraukningu tollkvóta vegna upprunatengdra osta strax á gildistökuári samningsins í stað þess að það sé gert í þrepum á fjórum árum, er áðurgreind lagabreyting nauðsynleg.
    Einnig er í frumvarpinu lögð til breyting á viðauka I með tollalögum þar sem bætt er við nýju tollskrárnúmeri fyrir móðurmjólk fyrir hvítvoðunga. Tilefni þessarar breytingar er erindi frá Landspítalanum vegna innflutnings frá Danmörku á móðurmjólk handa fyrirburum. Landspítalinn hefur flutt slíka mjólk inn frosna með hraðpósti, að meðaltali 37 lítra á ári. Þess var farið á leit að felldir væru niður tollar vegna innflutningsins.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Meginefni frumvarpsins er annars vegar að heimilt sé að hverfa frá ákvæðum samnings Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur sem tekur gildi þann 1. maí 2018 og heimila heildaraukningu tollkvóta vegna upprunatengdra osta á gildistökuári samningsins. Hins vegar er lagt til að bætt verði við nýju tollskrárnúmeri við viðauka I með tollalögum vegna innflutnings á móðurmjólk fyrir hvítvoðunga.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins stangast ekki á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Frumvarpið er samið með hliðsjón af fyrrgreindu nefndaráliti meiri hluta atvinnuveganefndar og vegna erindis Landspítalans hvað varðar innflutning á móðurmjólk fyrir hvítvoðunga. Við samningu frumvarpsins var einnig haft samráð við fjármála- og efnahagsráðuneytið.

6. Mat á áhrifum.
    Afleiðingar af samþykkt frumvarpsins eru almenningi til hagsbóta þar sem tryggt verður að heildaraukning tollkvóta vegna upprunatengdra osta, samkvæmt samningi Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur sem tekur gildi þann 1. maí 2018, verður innleidd strax á gildistökuári í stað þess að það sé gert í þrepum á fjórum árum. Einnig verður að telja það til hagsbóta ef móðurmjólk sem flutt er inn vegna hvítvoðunga verður tollfrjáls.
    Ekki er um að ræða fjárhagsleg áhrif af hraðari innleiðingu á tollkvótum vegna upprunatengdra osta þar sem kvótinn ber engan toll og honum er úthlutað eftir hlutkesti, sbr. 1. mgr. 65. gr. B búvörulaga, nr. 99/1993. Hvað varðar innflutning á móðurmjólk handa fyrirburum þá hefur hann síðastliðin ár verið að meðaltali 37 lítrar á ári og námu tolltekjur af móðurmjólk 37.000 kr. á árinu 2017.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum hefur það óveruleg áhrif á tekjur og gjöld ríkissjóðs.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Lagt er til að heimiluð verði heildaraukning tollkvóta vegna upprunatengdra osta á gildistökuári samnings Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur í stað þess að það sé gert í þrepum á fjórum árum, sbr. umfjöllun í 2. kafla greinargerðarinnar.
    Sjá eftirfarandi töflu til nánari skýringar:

Vöruliður Vörulýsing Núgildandi tollkvóti Samtals viðbætur vegna innleiðingar samnings Viðbót 2018 eftir gildistöku samnings Viðbót 2.–4. árs Tollkvóti á ári eftir gildistöku samnings
úr 0406 Ostur (vernduð upprunatáknun VUT eða vernduð, landfræðileg merking VLM) 20 210 210* 0 230
*Viðbót árið 2018 verður hlutfallsleg, þ.e. 8/12 hlutar (140 tonn), í samræmi við dagsetningu gildistöku samningsins 1. maí 2018.

Um 2. gr.

    Bætt er við nýju tollskrárnúmeri í viðauka I með tollalögum fyrir móðurmjólk fyrir hvítvoðunga með það að markmiði að móðurmjólk sem flutt er inn vegna hvítvoðunga verði tollfrjáls.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.