Ferill 605. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 970  —  605. mál.
Fyrirspurn


til utanríkisráðherra um mótmæli gegn hvalveiðum og viðskiptahagsmuni.

Frá Þorgerði K. Gunnarsdóttur.


     1.      Hve mörg ríki hafa mótmælt hvalveiðum við Ísland frá árinu 2006 og hve mörgum sinnum, formlega sem óformlega?
     2.      Er ráðherra kunnugt um hvort fyrir dyrum standi mótmæli ýmissa helstu viðskiptaríkja vegna yfirlýsingar Hvals hf. um að hefja að nýju, eftir tveggja ára hlé, veiðar á langreyðum í meira mæli en dæmi eru um áður á þessari öld?
     3.      Hefur ráðuneytið lagt í vinnu til að fá aflétt hinu svokallaða Pelly Amendment-ákvæði sem felur í sér heimild Bandaríkjanna til að beita Ísland viðskiptaþvingunum vegna hvalveiða, og í hverju hefur sú vinna falist? Hvernig er staðan nú þegar Hvalur hf. hefur lýst yfir að fyrirtækið hyggist standa að veiðum á um 200 langreyðum í sumar?
     4.      Telur ráðherra, í ljósi afgerandi andstöðu Bandaríkjanna við veiðar á langreyðum, að ákvörðun Hvals hf. geti haft áhrif á starf í Norðurheimskautsráðinu sem Ísland tekur senn við formennsku í og þar sem fyrir liggja til umfjöllunar ýmis brýn hagsmunamál fyrir landið?
     5.      Hefur ráðherra lagt mat á það hver áhrifin af ákvörðun Hvals hf. kunna að vera á málaleitanir ráðherra um fríverslunarsamninga við Bandaríkin og Bretlandi sem eru yfirlýstir andstæðingar stórhvalveiða í viðskiptaskyni?
     6.      Styður ráðherra að hvalveiðistefna Íslendinga verði endurmetin?


Skriflegt svar óskast.