Ferill 218. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 985  —  218. mál.




Svar


félags- og jafnréttismálaráðherra við fyrirspurn frá Þorsteini Sæmundssyni um sölu fullnustueigna Íbúðalánasjóðs.


     1.      Hversu margar fullnustueignir seldi Íbúðalánasjóður árlega 2008–2017, hvar voru þessar eignir og hvert var heildarsöluverð á hverju ári?
    Í eftirfarandi svari er byggt á gögnum um sölu fasteigna í eigu Íbúðalánasjóðs frá 1. janúar 2008 til 31. desember 2017, en um er að ræða eignir sem sjóðurinn eignaðist í kjölfar fullnustuaðgerða.
    Markaðsverð þeirra eigna sem seldar hafa verið var mjög mismunandi bæði eftir landshlutum, tegund eigna (t.d. fjölbýli, raðhús, parhús, einbýli), ástandi, byggingarstigi, þeim tíma sem eignin seldist á o.s.frv.
    Almennt eru eignir seldar á almennum markaði í gegnum fasteignasölur, en Íbúðalánasjóður er með samning við Félag fasteignasala um sölu eignanna. Rík áhersla er lögð á gangsæi, jafnræði og hagkvæmni við söluna og eignir ávallt seldar á markaðsvirði.
    Með „sala í eignasöfum“ er átt við þegar fjöldi fasteigna var boðinn til sölu í minni eignasöfnum. Um var að ræða opin söluferli sem voru vel kynnt og auglýst í fjölmiðlum. Ítarlegir söluskilmálar voru settir upp um þessi söluferli þar sem fram komu allar helstu upplýsingar um eignirnar og skilmálar söluferlisins, og voru þeir aðgengilegir öllum á vefsíðu sjóðsins. Við val á eignum í einstök eignasöfn sem boðin voru til sölu á þennan hátt var blandað saman eignum í misgóðu ástandi þannig að í hverju eignasafni væri að finna eignir í ágætu ástandi í bland við eignir sem voru í lakara ástandi og þörfnuðust jafnvel verulegs viðhalds, en með þessu var reynt að hámarka endurheimtur sjóðsins. Jafnframt voru eignirnar ýmist í leigu eða tómar þegar þær voru seldar. Kaupendur voru skuldbundnir til að kaupa allar eignir í tilteknu eignasafni og var því ekki hægt að velja tilteknar eignir úr einstökum söfnum. Stjórn Íbúðalánasjóðs heimilaði í tvígang að farið yrði í sölu eignasafna, fyrst á haustmánuðum 2014 og aftur í lok árs 2015. Lögð var rík áhersla á það að með sölunum væri hægt að styrkja almennan leigumarkað um land allt og ekki síst á landsbyggðinni sem og að tryggja húsnæðisöryggi þeirra leigjenda sem bjuggu í þeim eignum sem seldar voru með því að selja þær frekar í áframhaldandi langtímaleigu. Jafnframt væri hægt að losa um eignasafnið með sölu eigna á svæðum þar sem sjóðurinn ætti margar eignir og lítið seldist í almennri stakstæðri sölu. Þá var í síðara söluferlinu reynt að tryggja að eignarhald á eignasöfnunum myndi dreifast en þá var það skilyrði sett að enginn einn aðili gæti keypt meira en þriðjung þeirra eigna sem voru í sölu í því ferli.
    Áður en eignir voru seldar í eignasöfnum var leigutökum sem bjuggu í eignum sem fyrirhugað var að selja boðið að kaupa viðkomandi eign. Sveitarfélögum var jafnframt gefinn kostur á að kaupa eignirnar, til að tryggja aðgang sveitarfélaga að húsnæði fyrir skjólstæðinga sína í félagsþjónustunni.
    Eftirfarandi töflur sýna annars vegar fjölda seldra eigna eftir landshlutum og hins vegar söluverð þeirra:


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



     2.      Hverjir voru kaupendur? Upplýsingar óskast um annars vegar einstaklinga og hins vegar fyrirtæki og eignarhald þeirra.
    Svarið er sett fram fram með hliðsjón af því hvort kaupendur voru lögaðilar eða einstaklingar. Jafnframt er svarið sundurliðað eftir því með hvaða hætti sala eignanna fór fram.
    Í eftirfarandi töflu kemur fram fjöldi seldra eigna hvert ár og hvort lögaðilar eða einstaklingar keyptu.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Í töflunni kemur fram að 2.863 af 3.575 eignum voru seldar í stakstæðri sölu í gegnum fasteignasölur um land allt, eða rúmlega 80% seldra eigna sjóðsins þetta tímabil.
    Varðandi nánari tilgreiningu á kaupendum er nú unnið að því að afla álits Persónuverndar um afhendingu upplýsinga um fasteignakaup einstaklinga en slíkar upplýsingar eru upplýsingar sem varða fjárhagsmálefni einstaklinga og fellur miðlun þeirra þar með undir lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000. Sama gildir um eignarhald einstaklinga á félögum og mun sjóðurinn því að svo stöddu ekki birta upplýsingar þar um fyrr en niðurstaða Persónuverndar liggur fyrir. Ráðuneytið hefur einnig óskað eftir því við sjóðinn að þær upplýsingar sem heimilt verði að birta opinberlega verði gerðar aðgengilegar á heimasíðu sjóðsins þegar niðurstaða liggur fyrir.