Ferill 513. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 986  —  513. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um þarfagreiningu vegna byggingarframkvæmda Landspítalans við Hringbraut.

     1.      Hvaða þarfagreining liggur til grundvallar fyrirhuguðum byggingarframkvæmdum Landspítala við Hringbraut?
    Undirbúningur fyrir byggingarframkvæmdir við Hringbraut nær allt aftur til ársins 2000 þegar stóru sjúkrahúsin í Reykjavík voru sameinuð. Vegna þessa langa undirbúningstíma hefur þurft að rýna og endurskoða þarfagreininguna nokkrum sinnum. Unnin var ítarleg greining af helstu sérfræðingum Landspítala á líklegri þróun sjúkdóma og meðferða við þeim til ársins 2025 fyrir allar sérgreinar lækninga. Með aðstoð danskra sérfræðinga var unnið að þarfagreiningu fyrir nýbygginguna og var henni lokið árið 2006 eftir ítarlega rýni Landspítala og Háskóla Íslands. Á árinu 2010 var alþjóðleg hönnunarsamkeppni og í framhaldi af henni var gengið til samninga við hönnunarhópinn Spital um forhönnun allra bygginga og gerð deiliskipulags. Meðal hönnuða í Spital-hópnum voru norskar verkfræði- og arkitektastofur sem hafa mikla reynslu í hönnun sjúkrahúsa. Hönnunarhópurinn ásamt starfsmönnum Landspítala rýndi og endurskoðaði fyrri þarfagreiningu.
    Á árinu 2014 var fullnaðarhönnun sjúkrahótels boðin út og samið við hönnunarhópinn KOS um hönnun hótelsins.
    Á árinu 2015 var auglýst útboð á hönnun meðferðarkjarna. Hönnunarhópurinn Corpus vinnur nú að fullnaðarhönnun meðferðarkjarnans og er liður í þeirri vinnu að endurskoða og rýna þarfagreininguna. Meðal hönnuða í Corpus-hópnum eru hollenskir spítalahönnuðir og bresk verkfræðistofa. Þannig hefur þarfagreining meðferðarkjarnans verið rýnd á árunum 2015–2018, m.a. með aðstoð sérfræðinga frá Bandaríkjunum, svo sem John Huddy, sem er sérfræðingur í hönnun bráðamóttöku sjúkrahúsa, og sérfræðingum frá Virginia Mason Medical Center í Seattle en þeir búa yfir mikilli þekkingu á Lean-aðferðafræðinni í hönnun sjúkrahúsa.
    Loks má nefna að nú stendur yfir útboð á fullnaðarhönnun rannsóknahúss og verður þarfagreining þess enn fremur rýnd af hönnunarhópnum.

     2.      Með hvaða hætti taka fyrirhugaðar framkvæmdir við Hringbraut mið af þarfagreiningunni?
    Eins og segir í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar hefur undirbúningur þessa verkefnis tekið langan tíma og því hefur þurft að rýna og endurskoða þarfagreininguna reglulega. Þannig hefur þarfagreiningin verið lifandi skjal allt frá því að hún leit fyrst dagsins ljós á árinu 2006. Framkvæmdirnar taka fullt mið af endanlegri þarfagreiningu við upphaf fullnaðarhönnunar hverrar byggingar.

     3.      Hver gerði umrædda þarfagreiningu og hvenær var hún gerð?
    Upphaflega þarfagreiningin var gerð árið 2006 af CF Möller, sem eru danskir ráðgjafar, ásamt starfsmönnum Landspítala og Háskóla Íslands. Hún var endurskoðuð af hönnunarhópnum Spital og starfsmönnum Landspítala á árunum 2010–2012. Loks er þarfagreining hverrar byggingar rýnd og endurskoðuð af hönnuðum hverrar byggingar og starfsmönnum Landspítala við upphaf fullnaðarhönnunar. Þannig hefur þarfagreining meðferðarkjarnans verið rýnd á árunum 2015–2018, m.a. með aðstoð sérfræðinga frá Bandaríkjunum, eins og fyrr greinir.

     4.      Hefur Ríkisendurskoðun farið yfir þarfagreininguna og hafi svo verið, hverjar voru athugasemdir hennar?
    Ríkisendurskoðun hefur ekki farið yfir þarfagreiningu bygginga Landspítala.

     5.      Telur ráðherra að fyrirliggjandi þarfagreining sé raunhæf í ljósi þróunar undanfarin ár í heilbrigðisvísindum og viðhorfa um skipulag og uppbyggingu í heilbrigðisþjónustu? Hvernig rökstyður ráðherra álit sitt í þessu efni?
    Að þarfagreiningunni og hönnun hafa komið helstu sérfræðingar landsins og enn fremur hefur verið leitað sérfræðiþekkingar að utan eins og fyrr segir. Þarfagreining fyrir nýbyggingar Landspítala er að mati forsvarsmanna Landspítala í takt við fyrirsjáanlega þörf fyrir bráða- og rannsóknastarfsemi spítalans. Í ljósi þeirrar vinnu sem lögð hefur verið í þarfagreiningu fyrirhugaðra nýbygginga við Hringbraut og getið er um hér fyrr er það mat heilbrigðisráðherra að hún sé raunhæf.