Ferill 383. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 995  —  383. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Njáli Trausta Friðbertssyni um lánafyrirgreiðslu fjármálastofnana.


    Við vinnslu svarsins var gagna aflað frá Seðlabanka Íslands.
    Fyrirspurnin er í fimm liðum. Fyrstu fjórir tölul. snúa að niðurbroti á útlánum fjármálastofnana til atvinnugreina árin 2010–2018. Ekki eru til aðgengileg gögn með atvinnugreinaskiptingu útlána nema frá innlánsstofnunum, en útlán þeirra nema um 87% af útlánum innlendra fjármálastofnana til íslenskra fyrirtækja.
    Öll gögn sem notuð voru við vinnslu svarsins eru í íslenskum krónum. Hluti af útlánum til atvinnufyrirtækja er hins vegar í erlendum gjaldmiðlum, þar á meðal rúmlega 80% af útlánum til fiskveiða og -vinnslu. Mikilvægt er því að hafa gengisþróun í huga þegar litið er á gögn yfir jafnlangt tímabil og hér um ræðir.
    Þá er rétt að vekja sérstaka athygli á því að útlán innlendra fjármálastofnana eru einungis eitt form ólíkra fjármögnunarleiða. Til að mynda hafa fasteignafélög á undanförnum árum sótt töluvert fjármagn á innlendan fjármálamarkað með útgáfu markaðsskuldabréfa og fyrirtæki í nokkrum af þeim atvinnugreinum sem nefndar eru í fyrirspurninni hafa tekið lán erlendis.

     1.      Hver eru heildarútlán íslenskra fjármálastofnana til fasteignafélaga og hvernig hafa þau þróast frá árinu 2010? Eru til gögn um hversu stór hluti lánafyrirgreiðslu fjármálastofnana (fyrirtækja) til fasteignafélaga tengist ferðaþjónustu?
    Niðurbrot fyrir fasteignafélög er aðeins aðgengilegt frá miðju ári 2011. Eftirfarandi mynd sýnir þróun heildarútlána innlánsstofnana til fasteignafélaga frá þeim tíma fram í febrúar árið 2018. Í lok febrúar 2018 er talið að rétt innan við 10% af heildarútlánum til fasteignafélaga hafi tengst ferðaþjónustu með beinum hætti.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



     2.      Hver eru heildarútlán fjármálastofnana til orkufyrirtækja og hvernig hafa þau þróast frá árinu 2010?
    Eftirfarandi mynd sýnir þróun heildarútlána innlánsstofnana til orku- og vatnsveitna frá janúar 2010 þangað til í febrúar 2018.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     3.      Hver eru heildarútlán fjármálastofnana til sjávarútvegsfyrirtækja (útgerðar og vinnslu) og hvernig hafa þau þróast frá árinu 2010?
    Eftirfarandi mynd sýnir þróun heildarútlána innlánsstofnana til fiskveiða og -vinnslu frá janúar 2010 og þar til í febrúar 2018.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     4.      Hver eru heildarútlán fjármálastofnana til flugfélaga (flugrekstraraðila) og hvernig hafa þau þróast frá árinu 2010?
    Flugrekstraraðilar eru ekki sundurliðaðir sérstaklega í gögnum um útlán til atvinnufyrirtækja, en eru hluti af flokknum Samgöngur og flutningar. Sá flokkur nær yfir fyrirtæki sem eru í samgöngum og flutningum á landi, í lofti og á sjó. Eftirfarandi mynd sýnir þróun heildarútlána innlánsstofnana til samgangna og flutninga frá því í janúar 2010 og þar til í febrúar 2018.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     5.      Hefur kerfislæg áhætta íslenskra fjármálafyrirtækja gagnvart einstökum atvinnugreinum verið metin og ef ekki, telur ráðherra mikilvægt að gera slíkt mat?
    Fjármálastöðugleikasvið Seðlabanka Íslands rannsakar og greinir reglulega hvers kyns áhættu sem raskað gæti stöðugleika íslenska fjármálakerfisins. Í riti bankans Fjármálastöðugleika, sem gefið er út tvisvar á ári, eru jafnan raktir helstu áhættuþættir í fjármálakerfinu, þ.m.t. kerfislæg áhætta gagnvart einstökum atvinnugreinum. Í nýjasta ritinu, Fjármálastöðugleika 2018/1, kemur fram að áhætta sé innan hóflegra marka en að hún gæti verið að aukast. Í Fjármálastöðugleika 2017/2 voru birtar niðurstöður úr árlegu álagsprófi Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins á viðnámsþrótti viðskiptabankanna. Í álagsprófinu byggðist áfallssviðsmyndin á efnahagslegum samdrætti í viðskiptalöndum, lækkun verðs á helstu útflutningsvörum og 40% fækkun ferðamanna. Niðurstöðurnar bentu til þess að bankarnir myndu standa slíkar þrengingar af sér án verulegra vandræða, þótt vissulega myndi útlánatap aukast og eiginfjárhlutfall lækka.