Ferill 449. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 996  —  449. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Vilhjálmi Árnasyni um kolefnisgjald og mótvægisaðgerðir gegn kolefnislosun.


     1.      Hver var fjárhæð innheimts kolefnisgjalds hvert ár 2015–2017 og af hverju var það innheimt?
    Kolefnisgjald er lagt á gas- og dísilolíu, bensín, brennsluolíu og jarðolíugas og annað loftkennt kolvatnsefni, sbr. lög nr. 129/2009. Í meðfylgjandi töflu má sjá tekjur ríkissjóðs af kolefnisgjaldi eftir gjaldflokkum í milljónum króna á verðlagi hvers árs.

Innheimt kolefnisgjald (millj. kr.) 2015 2016 2017
Kolefnisgjald, gas- og dísilolía 1.865 2.024 2.261
Kolefnisgjald, bensín 946 931 988
Kolefnisgjald, brennsluolía 447 491 541
Kolefnisgjald, jarðolía o.fl. 16 17 17
Samtals 3.274 3.464 3.806
Heimild: Fjársýsla ríkisins 2015–2017.

     2.      Hve miklum fjármunum er varið til mótvægisaðgerða gegn kolefnislosun?
    Mótvægisaðgerðir gegn kolefnislosun eru á ábyrgð fleiri en eins ráðuneytis en þó aðallega umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Því var leitað til þess um svar við þessari spurningu og byggist það að mestu leyti á upplýsingum frá því ráðuneyti.
    Ekki er haldið nákvæmt bókhald um útgjöld vegna aðgerða sem stuðla að minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda eða að aukningu á kolefnisbindingu, en sérstaklega auðkennd framlög hafa einkum verið undir hatti Sóknaráætlunar í loftslagsmálum. Á vegum stjórnvalda hafa verið gerðar nokkrar aðgerðaáætlanir í loftslagsmálum, sem unnið hefur verið eftir. Nú er í gildi aðgerðaáætlun sem var samþykkt í ríkisstjórn 2010 og gildir til 2020, en henni er einkum ætlað að stuðla að því að Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar innan Kyoto-bókunarinnar. Þar eru tilteknar tíu svokallaðar lykilaðgerðir, auk annarra. Margar þeirra eru komnar til framkvæmda, svo sem innleiðing viðskiptakerfis með losunarheimildir, álagning kolefnisgjalds og breytt kerfi skatta og gjalda á bíla og eldsneyti, sem hvetur til minni losunar. Aðrar hafa verið framkvæmdar að hluta af ríkisaðilum og í sumum tilvikum af einkaaðilum, svo sem rafvæðing fiskimjölsverksmiðja. Í skýrslu um framkvæmd áætlunarinnar frá 2015 segir um fjármögnun aðgerða: „Fjármögnun til aðgerða til að draga úr loftslagsbreytingum á vegum ríkisins fer ekki fram miðlægt, heldur er dreift á mörg ráðuneyti, stofnanir og fjárlagaliði. Að auki eru ýmsar aðgerðir sem miða að minnkun losunar fjármagnaðar af sveitarfélögum og einkaaðilum. Framlög til verkefna á sviði losunar og bindingar gróðurhúsalofttegunda eru ekki auðkennd sérstaklega og ekki er hægt að finna heildstætt yfirlit yfir fjárveitingar til loftslagsmála, þótt hægt sé að finna ýmsa liði, s.s. framlög til skógræktar og landgræðslu og verkefna á sviði vistvænna orkugjafa.“
    Í Sóknaráætlun í loftslagsmálum, sem nær til áranna 2016–2018, er að finna 16 verkefni, sem flest eru fjármögnuð sérstaklega. Samtals er fjárveiting til verkefna í Sóknaráætlun 750 millj. kr. samtals á þremur árum. Sum verkefnin miða að aðlögun að loftslagsbreytingum, bættu bókhaldi og styrkingu á alþjóðastarfi í loftslagsmálum, en um helmingurinn miðar að minnkun losunar og eflingu bindingar. Þar má nefna styrki til að efla innviði fyrir rafbíla á landsvísu, aukið fé til landgræðslu og skógræktar og endurheimt votlendis, auk átaks til að draga úr matarsóun.
    Þá er einnig vert að nefna þá tímabundnu virðisaukaskattsívilnun við innflutning og skattskylda sölu á rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbifreiðum sem stjórnvöld hafa beitt til þess að hraða orkuskiptum í samgöngum. Bráðabirgðaákvæðið kom inn í lög um virðisaukaskatt árið 2012 og veitir heimild til að fella niður virðisaukaskatt að hámarki 1.440 þús. kr. af rafmagns- og vetnisbifreiðum og að hámarki 960 þús. kr. af tengiltvinnbifreiðum. Ákvæðið gildir til loka ársins 2020 en er þó bundið við hámarksfjölda ökutækja, 10.000 rafmagnsbifreiðar, 10.000 vetnisbifreiðar og 10.000 tengiltvinnbifreiðar. Ívilnunin nam alls 2,3 milljörðum kr. árið 2017.