Ferill 523. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1004  —  523. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Olgu Margréti Cilia um fermingaraldur og trúfélagaskráningu.


     1.      Telur ráðherra ósamræmi felast í því að fermingaraldur er bundinn við þann sem verður 14 ára á árinu en réttur til að skrá sig í trúfélög og úr þeim er bundinn við 16 ára aldur?
    Ferming er trúarathöfn þar sem ungmenni staðfestir skírn sína. Ferming er ekki stjórnvaldsathöfn og hefur ekki lagaleg áhrif. Samkvæmt lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997, ræður íslenska þjóðkirkjan störfum sínum innan lögmæltra marka. Þar hefur kirkjuþing æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar. Samþykktir um kenningarleg málefni, guðsþjónustuhald, helgisiði, skírn, fermingu og altarissakramenti verða að sæta umfjöllun prestastefnu áður en þær hljóta endanlega afgreiðslu á kirkjuþingi. Í samþykktum um innri málefni þjóðkirkjunnar sem kirkjuþing samþykkti árið 2009 kemur skýrt fram að almennt skuli miðað við að börn á 14. aldursári séu fermd en heimilt sé að ferma yngri börn ef ástæður krefjast og sóknarprestur metur svo. Þrátt fyrir tilskipun um ferminguna frá 25. maí 1759, sem gerir ráð fyrir að barn sem fermist sé orðið fullra 14 ára, þá er biskupum heimilt samkvæmt tilskipun frá 23. mars 1827 að veita undanþágur frá því aldursmarki. Hefur þeirri undanþáguheimild verið beitt í ríkum mæli frá byrjun 20. aldar. Á prestastefnu árið 1931 var samþykkt almenn heimild til að ferma börn á 14. aldursári og var hún samþykkt af kirkjuráði árið 1932. Undanþáguheimildin var síðan áréttuð með bréfum biskupa árin 1953 og 1954 og nú síðast með samþykktum um innri málefni þjóðkirkjunnar frá árinu 2009 en þar segir: „Almennt skal miðað við að börn á 14. aldursári séu fermd.“ Það má því líta svo á að sú áratuga framkvæmd að ferma börn á 14. aldursári sé orðin venjuhelguð. Hefur sú ákvörðun að fylgja þeirri framkvæmd verið tekin á kirkjulegum vettvangi og verður að teljast með hliðsjón af framangreindum tilskipunum að hún sé innan lögmæltra marka.
    En þó svo að börn séu í kristnu trúfélagi þá er ekki skylda að fermast og gera verður ráð fyrir að barn hafi val um það hvort það vilji fermast eða ekki, enda ber foreldrum að virða trúfrelsi barna sinna og taka réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur þeirra og þroska, sbr. ákvæði barnalaga og samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins (barnasáttmálinn), sbr. lög nr. 19/2013.
    Réttur til að skrá sig í eða úr skráðu trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi byggist á lögum um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög, nr. 108/1999, með síðari breytingum. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna geta þeir sem orðnir eru 16 ára tekið ákvörðun um inngöngu í skráð trúfélag eða lífsskoðunarfélag eða úrsögn úr slíku félagi. Er það sama aldursviðmið og var í eldri lögum um trúfélög, nr. 18/1975, en samkvæmt frumvarpi að þeim lögum þótti henta að miða aldurinn við sjálfræðisaldur. Skráning einstaklings sem náð hefur 16 ára aldri í skráð trúfélag eða lífsskoðunarfélag hefur þau lagalegu áhrif samkvæmt lögum um sóknargjöld o.fl., nr. 91/1987, með síðari breytingum, að ríkissjóður greiðir ákveðna upphæð til skráðs trú- eða lífsskoðunarfélags fyrir hvern einstakling sem er 16 ára og eldri og skráður er í viðkomandi félag. Í frumvarpi því er varð að lögum nr. 108/1999 var lagt til að hækka aldursviðmið til skráningar í eða úr skráðu trúfélagi í 18 ár í samræmi við hækkun sjálfræðisaldurs úr 16 árum í 18 ár í lögræðislögum, nr. 71/1997.
    Í nefndaráliti allsherjarnefndar með frumvarpinu er lögð til sú breyting að aldursviðmiðið verði 16 ár í stað 18 ára þar sem nefndin telji eðlilegt að sami aldur verði notaður sem viðmiðun um greiðslu sóknargjalda og ákvörðun um inngöngu í skráð trúfélag eða úrsögn úr trúfélagi og var sú tillaga samþykkt. Þá er rétt að benda á að skv. 3. mgr. 8. gr. laga nr. 108/1999 skal leita álits barns sem náð hefur 12 ára aldri þegar foreldri eða forsjármaður þess tekur ákvörðun um inngöngu barns í eða úrsögn úr skráðu trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi. Enn fremur er það meginregla barnaréttar, sem kemur m.a. fram í 12. gr. barnasáttmálans og 3. mgr. 1. gr. barnalaga, að barn skuli fá að tjá sig um málefni sem það varðar og réttmætt tillit skuli tekið til skoðana þess í samræmi við aldur þess og þroska.
    Heimild til að skrá sig í trúfélag eða úr trúfélagi, sem miðaðist áður við sjálfræðisaldur, en hefur nú á dögum ákveðna tengingu við greiðslu gjalds úr ríkissjóði til skráðra trú- og lífsskoðunarfélaga, hefur lagalegt gildi en hefur ekki tengingu við ferminguna sem er trúarathöfn.

     2.      Hefur ráðherra áform um að breyta ákvæðum um fermingaraldur og lágmarksaldur til að skrá sig í trúfélög og úr þeim?
    Ekki hafa verið uppi áform um að breyta ákvæðum um fermingaraldur og vísast um það til svars við 1. tölul. þessarar fyrirspurnar þar sem fram kemur að ferming er trúarathöfn og að íslenska þjóðkirkjan ráði sjálf málum sínum innan lögmæltra marka samkvæmt lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997. Ekki hafa heldur verið uppi áform um að breyta ákvæðum laga um lágmarksaldur til að skrá sig í trúfélög eða lífsskoðunarfélög sem hlotið hafa opinbera skráningu.

     3.      Hyggst ráðherra leggja fram frumvarp þess efnis að fella úr gildi eða endurskoða tilskipun um ferminguna frá 25. maí 1759 eða tilskipun um vald biskupa til að veita undanþágur frá fermingartilskipunum frá 23. mars 1827, sem báðar er enn að finna í lagasafninu, og ef ekki, hvers vegna ekki?
    Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort leggja skuli fram frumvarp þess efnis að fella úr gildi eða endurskoða tilskipanir um ferminguna frá 25. maí 1759 og 23. mars 1827, en til greina kemur að taka það til athugunar, enda hefur kirkjuþing æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar innan lögmæltra marka og í vissum tilvikum að undangenginni samþykkt prestastefnu, sbr. lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997.