Ferill 450. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1005  —  450. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Höllu Signýju Kristjánsdóttur um aðgerðaáætlun fyrir Stjórnarráðið.


     1.      Hvernig var fylgt eftir aðgerðaáætlun fyrir Stjórnarráðið þar sem afmarka skyldi þau stjórnsýsluverkefni ráðuneyta og undirstofnana þeirra sem talið var ákjósanlegt að flytja til sýslumannsembætta, sbr. ákvæði til bráðabirgða III í lögum um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði, nr. 50/2014?
    Í ákvæði til bráðabirgða III í lögum nr. 50/2014 segir að við samþykkt laganna skuli ráðherra í samstarfi við forsætisráðherra láta semja aðgerðaáætlun fyrir Stjórnarráðið þar sem afmörkuð skuli þau stjórnsýsluverkefni ráðuneyta og undirstofnana þeirra sem talið er ákjósanlegt að flutt verði til embætta sýslumanna. Skyldi aðgerðaáætlunin liggja fyrir ekki síðar en 1. janúar 2015.
    Umrædd aðgerðaáætlun var lögð fram í janúar 2015. Í kjölfarið var lagt upp með það að vinna að tilfærslu verkefna í samræmi við það sem þar kom fram. Öll verkefnin sem finna má í aðgerðaáætluninni eru frá þáverandi innanríkisráðuneyti komin en önnur ráðuneyti töldu að verkefni á þeirra vegum hentuðu ekki til flutnings. Vísað er til svars við fyrirspurn Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur þingmanns sem lögð var fram á 145. löggjafarþingi (þskj. 1226, 704. mál) en þar var þess m.a. óskað að innanríkisráðherra upplýsti um hvernig miðaði framkvæmd aðgerðaáætlunar um flutning verkefna til embætta sýslumanna sem nú er vísað til. Í svari þáverandi ráðherra er tilgreint að eitt verkefni hafi þá þegar verið flutt, þ.e. afgreiðsla beiðna um nauðungarvistun á sjúkrahúsum og að frumvarp um flutning annars verkefnis væri þá til meðferðar á Alþingi, þ.e. afgreiðsla gjafsóknarleyfis. Það verkefni var til umræðu á Alþingi á 145. löggjafarþingi en varð ekki að lögum. Í áðurnefndu svari þáverandi innanríkisráðherra kom jafnframt fram að flutningur annarra verkefna væri til nánari skoðunar hjá ráðuneytinu þar sem m.a. væri unnið að því að greina nánar fýsileika flutnings. Ekki liggur fyrir nánari afstaða til frekari flutnings verkefna á grundvelli aðgerðaáætlunarinnar.

     2.      Hvaða verkefni voru færð til embætta sýslumanna á þessum grundvelli? Óskað er eftir sundurliðun eftir embættum og verkefnum.
    Eins og fram kemur í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar var 19. verkefnið í nefndri áætlun (samþykki á nauðungarvistun) flutt frá innanríkisráðuneytinu til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu.
    Þá var umsjón með reikningum vegna málskostnaðar sem greiðist úr ríkissjóði á grundvelli gjafsóknarleyfis færð frá innanríkisráðuneytinu til sýslumannsins á Vesturlandi í Stykkishólmi í byrjun árs 2015.
    Einnig má nefna að með lögum nr. 67/2016 sem breyttu lögum nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, var sýslumönnum falið tiltekið hlutverk varðandi leyfisveitingar og eftirlit á grundvelli laganna, m.a. varðandi heimagistingu, en sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu fer með verkefnið.

     3.      Telur ráðherra að vel hafi tekist að fylgja eftir fyrirmælum laganna?
    Já.

     4.      Telur ráðherra þörf á því að taka málið upp að nýju og færa fleiri stjórnsýsluverkefni frá ráðuneytum og undirstofnunum þeirra til sýslumannsembætta?
    Í dómsmálaráðuneytinu hefur verið unnið að því undanfarin misseri að leita leiða við að styrkja rekstur sýslumannsembættanna og tryggja þeim viðunandi rekstrargrundvöll. Ljóst er þó að vandi embættanna verður ekki leystur með því einu að flytja til þeirra verkefni enda er verkefnaálag hjá embættunum almennt þannig að það er ekki forsvaranlegt nema verkefnum fylgi fjármunir.
    Auk lögbundinna verkefna sýslumanna hafa þeir um árabil veitt opinberum stofnunum þjónustu. Má sem dæmi nefna afgreiðslu fyrir Tryggingastofnun ríkisins og Sjúkratryggingar Íslands og bókhald fyrir sendiráð. Í aukinni rafrænni stjórnsýslu felast mörg tækifæri fyrir stofnanir hins opinbera sem vel geta leitt til aukinna verkefna sýslumanna. Þjónusta sýslumanna á vegum opinberra stofnana hefur ekki síst byggst á stöðugleika í starfsmannaveltu embættanna. Stofnanir hins opinbera eiga stöðugt að leita leiða til að hagræða. Að mati ráðherra er flutningur verkefna til sýslumanna vel til þess fallinn.