Ferill 173. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1007  —  173. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Birgi Þórarinssyni um innheimtu sekta vegna umferðarlagabrota erlendra ferðamanna.


    Ráðuneytið óskaði eftir upplýsingum frá Fjársýslu ríkisins, Innheimtumiðstöð sekta og sakarkostnaðar, ríkislögreglustjóra og embætti lögreglunnar á Vesturlandi vegna fyrirspurnarinnar og byggjast svörin að öllu leyti á þeim svörum sem þaðan bárust.

     1.      Hver var álögð fjárhæð sekta vegna umferðarlagabrota erlendra ferðamanna á hverju ári 2015–2017 og samtals árin 2008–2014? Óskað er eftir upplýsingum um hvernig álagningin skiptist eftir helstu flokkum sekta.
    Sektir vegna umferðarlagabrota eru hvorki flokkaðar eftir ríkisfangi né tegundum brota. Af þeim sökum er ekki hægt að svara þessari spurningu.

     2.      Hver er útistandandi heildarfjárhæð slíkra sekta fyrir hvert ár 2015–2017 og samtals árin þar á undan, skipt eftir helstu flokkum sekta?
    Heildarfjárhæð útistandandi ógreiddra sekta hinn 28. febrúar í vetur var eftirfarandi:

2015 81.335.950 kr.
2016 133.739.540 kr.
2017 203.301.277 kr.
2018 27.301.550 kr.
Eldri ógreiddar sektir 187.702.277 kr.

    Ógreiddar sektir eru ekki flokkaðar eftir tegundum brota.

     3.      Hver eru árleg innheimtuhlutföll?
    Árleg innheimtuhlutföll eru eftirfarandi:

2015 88,93%
2016 86,21%
2017 80,29%
2018 62,69%

    Sektir fyrri ára hafa innheimtuhlutfallið 97,66%.

     4.      Hvernig skiptast dráttarvextir og annar kostnaður vegna innheimtu sektanna eftir árum?
    Dráttarvextir falla ekki á sektir og ekki heldur annar útlagður kostnaður.

     5.      Hverjar eru árlegar afskriftir, beinar og óbeinar, sbr. 1. tölul.?
    Líkt og fram kom í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar eru sektir vegna umferðarlagabrota hvorki flokkaðar eftir ríkisfangi né tegundum brota. Af þeim sökum er ekki hægt að svara þessari spurningu.

     6.      Hvað má gera ráð fyrir að árlegur innheimtukostnaður vegna fyrrgreindra sekta nemi hárri fjárhæð, hver má gera ráð fyrir að fjöldi ársverka vegna innheimtunnar sé og hve stór hluti kostnaðarins hefur innheimst?
    Innheimtukostnaður á hendur erlendum ferðamönnum er hverfandi en hvorki dráttarvextir né annar útlagður kostnaður falla á sektir, sbr. svar við 4. tölul. fyrirspurnarinnar. Samningar eru í gildi um innheimtu sekta og sakarkostnaðar milli Norðurlandanna og fer einn starfsmaður Innheimtumiðstöðvar sekta og sakarkostnaðar með þau verkefni auk annarra verkefna. Gera má ráð fyrir að eitt ársverk fari í innheimtu hjá embætti lögreglustjórans á Vesturlandi.

     7.      Hefur allur óbeinn kostnaður sem hlýst af innheimtuvinnu verið lagður á þá sem innheimtan beinist að og hefur hann allur innheimst?
    Ekki er lagaheimild til að leggja óbeinan kostnað á sektir.