Ferill 524. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1008  —  524. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Olgu Margréti Cilia um óinnheimtar sektir í vararefsingarferli.


    Ráðuneytið óskaði eftir upplýsingum frá Fangelsismálastofnun ríkisins og Innheimtumiðstöð sekta og sakarkostnaðar vegna fyrirspurnarinnar. Svör ráðuneytisins byggjast að öllu leyti á þeim svörum sem bárust.

     1.      Hversu margir einstaklingar hafa afplánað fangelsisrefsingu sem vararefsingu vegna óinnheimtra sekta, sundurliðað eftir árum frá því 2013?

2013 2014 2015 2016 2017
Hófu samfélagsþjónustu í stað vararefsingar 78 128 139 143 102
Hófu afplánun innan eða utan fangelsa 63 36 32 21 39
141 164 171 164 141

     2.      Hversu margir bíða eftir að hefja afplánun fangelsisrefsingar sem vararefsingar vegna óinnheimtra sekta?
    Hinn 12. janúar í vetur hafði 3.052 einstaklingum verið birt ákvörðun um að þeir ættu að mæta til afplánunar vararefsingar í fangelsi. Þar af hafa 569 einstaklingar sótt um að afplána vararefsingu með samfélagsþjónustu, 286 umsóknir hafa verið samþykktar, 179 umsóknum hefur verið synjað og 61 einstaklingur hefur rofið skilyrði. Samkvæmt framangreindu má því segja að 2.827 einstaklingar séu að bíða afplánunar fangelsisrefsingar sem vararefsingar vegna óinnheimtra sekta.

     3.      Hver er meðalfjárhæð sektar þeirra sem bíða eftir að hefja afplánun fangelsisrefsingar sem vararefsingar vegna óinnheimtra sekta?
    Meðalfjárhæð sekta þeirra sem bíða eftir að hefja afplánun fangelsisrefsingar sem vararefsingar vegna óinnheimtra sekta er um 600.000 kr. Taka verður þessari meðalfjárhæð með fyrirvara þar sem fáar en mjög háar sektir hafa mikil áhrif. Má í því sambandi nefna að hæsta sektin til innheimtu er 153.500.000 kr. og sektir yfir 10.000.000 kr. mynda 78% af heildarfjárhæð allra óinnheimtra sekta.

     4.      Hver er meðalfjárhæð sektar þeirra sem hafa afplánað fangelsisrefsingu sem vararefsingu vegna óinnheimtra sekta frá því 2013?
    Þau kerfi sem unnið er með halda ekki utan um lokin mál með sama hætti og opin mál. Þetta hefur í för með sér að það er erfiðleikum bundið að taka út heildarfjárhæð lokinna mála og deila með fjölda þeirra til að fá meðalfjárhæð. Hér er einvörðungu spurt um þau mál sem lokið hefur verið með afplánun í fangelsi en hafa verður í huga að málum lýkur einnig með samfélagsþjónustu.

     5.      Hversu miklar sektir hafa fallið niður þar sem ekki hefur verið hægt að hefja afplánun vararefsingar tímanlega frá því 2013? Í svari er óskað eftir upplýsingum um fjölda sektargerða og heildarfjárhæð.
    Upplýsingar um þetta liggja ekki fyrir. Sektir eru afskrifaðar þegar þær eru fyrndar samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga þar að lútandi, en ekki er gerður kerfislegur greinarmunur á því hvaða ferli sektirnar voru í við afskrift. Afskriftir áranna 2013–2017 voru eftirfarandi:

2013 3% af heildarfjárhæð sekta
2014 4% af heildarfjárhæð sekta
2015 3% af heildarfjárhæð sekta
2016 2% af heildarfjárhæð sekta
2017 1% af heildarfjárhæð sekta

    Þess skal getið að sektir eru einnig afskrifaðar við andlát sektarþola og að liðnum tveimur árum frá skiptalokum hafi sekt átt undir gjaldþrotaskipti.