Ferill 512. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1012  —  512. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um áætlaðan kostnað við byggingarframkvæmdir Landspítalans við Hringbraut.


     1.      Hver er áætlaður kostnaður við fyrirhugaðar byggingarframkvæmdir við sjúkrahús við Hringbraut?
    Kostnaðaráætlanir Nýs Landspítala ohf. (NLSH ohf.) taka tillit til hönnunar- og framkvæmdakostnaðar nýbygginga meðferðarkjarna, rannsóknahúss sem og bílastæða-, tækni- og skrifstofuhúss. Jafnframt taka þær tillit til hönnunar- og framkvæmdakostnaðar gatna, veitna, lóðar, tengiganga, tengibrúa, þyrlupalls, bílakjallara við Sóleyjartorg og einnig til tækni- og stoðkerfa húsa. Sömuleiðis taka þær tillit til verkeftirlitskostnaðar og kostnaðar við verkefnisstjórn vegna verkþáttanna. Alls er áætlaður kostnaður við framangreind mannvirki 54.577 millj. kr. án virðisaukaskatts, miðað við 136,5 stiga byggingarvísitölu í janúar 2018.

     2.      Til hvaða framkvæmda og framkvæmdatíma tekur sú kostnaðaráætlun?
    Í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar er vikið að verkþáttunum, en framkvæmdaáætlunin tekur tillit til verkáranna 2018–2024.

     3.      Hvert er umfang framkvæmda og fermetrafjöldi einstakra bygginga sem kostnaðaráætlun tekur til?
    Hringbrautarverkefnið tekur tillit til þess að reist verða fjögur ný hús. Stærð þeirra er í samræmi við brúttóstærðir í samþykktu deiliskipulagi:

Meðferðarkjarni 65.476 ferm.
Rannsóknahús 15.550 ferm.
Sjúkrahótel 4.258 ferm.
Bílastæða-, tækni- og skrifstofuhús 21.259 ferm.

    Utan birtrar stærðar eru rými sem eru ekki skráningarskyld samkvæmt lögum og ákvæðum í deiliskipulagi, eins og K2, lagnasköft, óútgrafin rými og þess háttar. Að öðrum þáttum er vikið í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar. Gatnagerðar-, veitna-, lóða- og tengigangaverkefnið nemur um 8% af heildarumfangi.

     4.      Hver gerði umrædda kostnaðaráætlun og hvenær var hún gerð?
    Kostnaðaráætlunin er gerð af NLSH ohf., í samvinnu við ráðgjafarteymi félagsins, sem voru valin eftir útboð. Spital-hópurinn samanstendur af níu íslenskum og erlendum arkitekta-, verkfræði- og ráðgjafarstofum. Corpus-hópurinn samanstendur af tíu íslenskum og erlendum stofum. Allar núverandi kostnaðaráætlanir voru endurmetnar og unnar á haustmánuðum 2017 og eru miðaðar við 136,5 stiga byggingarvísitölu í janúar 2018.

     5.      Hefur Ríkisendurskoðun farið yfir umrædda kostnaðaráætlun og hafi svo verið, hverjar voru athugasemdir hennar?
    Hlutverk Ríkisendurskoðunar í Hringbrautarverkefninu er endurskoðun ársreikninga NLSH ohf. Samkvæmt lögum nr. 64/2010, um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík, og í samræmi við lög nr. 84/2001, um skipan opinberra framkvæmda, er yfirferð á kostnaðaráætlunum m.a. í höndum Framkvæmdasýslu ríkisins og samstarfsnefndar um opinberar framkvæmdir.

     6.      Telur ráðherra að fyrirliggjandi kostnaðaráætlun sé raunhæf í ljósi þróunar byggingarkostnaðar á undanförnum mánuðum og misserum? Hvernig rökstyður ráðherra álit sitt í þessu efni?
    Heilbrigðisráðherra telur að áætlanir NLSH ohf. séu raunhæfar, m.a. í ljósi þess að þekking og reynsla ráðgjafa NLSH ohf. byggist á stöðu íslensks byggingariðnaðar og umræddir ráðgjafar koma að íslenskum verkefnum, kostnaðaráætlunargerð fyrir aðra opinbera aðila eða einkaaðila. Jafnframt eru í ráðgjafarteymi NLSH ohf. erlendir aðilar sem hafa reynslu af sambærilegum sjúkrahúsverkefnum og þekkingu á þeim.