Ferill 540. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1015  —  540. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Álfheiði Eymarsdóttur um vinnutíma, tekjur og framfærslu fanga.


    Ráðuneytið óskaði eftir upplýsingum frá Fangelsismálastofnun ríkisins og byggjast svörin að mestu leyti á þeim svörum sem þaðan bárust. Til upplýsingar skal tekið fram að einhver frávik kunna að vera í neðangreindri tölfræði þar sem fangelsin hafa í áranna rás notað mismunandi aðferðir við að skrá og halda utan um þóknanir, dagpeninga og fæðisfé til handa föngum. Undanfarin tvö ár hefur verið unnið skipulega að því að koma framangreindum upplýsingum í sérstakt bókhaldskerfi. Fangelsin á Hólmsheiði og Litla-Hrauni eru komin langt með að innleiða það verklag og munu hin fangelsin fylgja í kjölfarið.

     1.      Hver er meðalfjöldi vinnutíma íslenskra fanga í viku hverri? Svar óskast sundurliðað eftir fangelsum.
    Í töflunni hér að neðan er meðaltal vinnutíma fanga í viku hverri (öll vinna og nám) fyrir árið 2017.

Litla-Hraun Hólmsheiði Sogn Kvíabryggja Akureyri
15 klst. 12 klst. 31 klst. 28 klst. 25 klst.

     2.      Hversu stór hluti fanga er í fullri vinnu þar sem unnið er átta tíma á dag alla virka daga? Svar óskast sundurliðað eftir fangelsum.
    Í töflunni hér að neðan eru samtölur um fjölda þeirra fanga sem unnu átta tíma eða meira, alla virka daga, árið 2017.

Litla-Hraun Hólmsheiði Sogn Kvíabryggja Akureyri
2 0 6 5 0

     3.      Hverjar eru meðaltekjur fanga í íslenskum afplánunarfangelsum á mánuði, sundurliðað eftir fangelsum og því hvort um er að ræða þóknun fyrir vinnu eða nám, dagpeninga eða fæðisfé?
    Í töflunni hér að neðan eru samtölur um meðaltekjur fanga á mánuði. Ekki er mögulegt að skilgreina sérstaklega meðaltal vegna fæðisfjár í fangelsunum þar sem mismunandi aðferðir eru viðhafðar bæði innan sömu fangelsanna og milli fangelsa, í sumum tilvikum er greitt fæðisfé, í öðrum tilvikum er útvegaður matur í bökkum og/eða fangelsin og fangar matreiða sérstaklega fyrir fangahópinn.

Litla-Hraun Hólmsheiði Sogn Kvíabryggja Akureyri
Dagpeningar 5.954 7.229 2.987 8.283 3.205
Vinna 22.750 19.191 48.790 45.775 *47.272
Nám 4.545 1.742 12.581 6.101
* Meðaltekjur á Akureyri eru samtala af vinnu og námi.
     4.      Telur ráðherra að þær fjárhæðir sem tilgreindar eru í reglugerð um þóknun fyrir vinnu og nám og dagpeninga til fanga, nr. 162/2017, séu nægjanlegar til þess að tryggja að fangi eigi fyrir brýnustu nauðsynjum til persónulegrar umhirðu eins og segir í 1. mgr. 27. gr. laga um fullnustu refsinga, nr. 15/2016?
    Ráðherra telur að þær fjárhæðir sem tilgreindar eru í reglugerð um þóknun fyrir vinnu og nám og dagpeninga til fanga, nr. 162/2017, tryggi að fangar eigi fyrir brýnustu nauðsynjum til persónulegrar umhirðu. Gerður hefur verið samanburður á greiðslu fæðispeninga og dagpeninga fanga hjá Fangelsismálastofnun annars vegar og neysluviðmiði velferðarráðuneytisins hins vegar. Samanburðinn má sjá í eftirfarandi töflum.

Greiðsla FMS til fanga Neysluviðmið velferðarráðuneytisins miðað við einstakling í dreifbýli (mars 2017)
Á dag Á mánuði Á mánuði
Fæðisfé 1.500 45.625 Matur, drykkjarvörur og aðrar dagvörur til heimilishalds 45.634
Dagpeningar 630 13.652
Samtals 2.130 59.277 Samtals 45.634

    Fangar fá greitt fæðisfé, 1.500 kr. á dag, alla daga mánaðarins eða 45.625 kr. á mánuði og dagpeninga, 630 kr. á dag, alla virka daga mánaðarins eða 13.652 kr. á mánuði. Samtals eru það 59.277 kr. á mánuði. Fæðisfé fanga er ætlað til innkaupa á öllum matvælum til neyslu og eldunar. Fangelsismálastofnun sér föngum í öllum fangelsum landsins fyrir góðri aðstöðu til eldunar, ásamt tækjum, áhöldum og borðbúnaði þeim að kostnaðarlausu, auk hreingerningarvara og áhalda. Gert er ráð fyrir að fangar noti dagpeninga í innkaup á hreinlætis- og snyrtivörum til persónulegrar umhirðu. Fæðisfé til fanga hefur hækkað um 600 kr. á dag frá árinu 2007, þ.e. úr 900 kr. á dag í 1.500 kr. á dag, sem svarar um 66% hækkun á tímabilinu.
    Neysluviðmið velferðarráðuneytisins gerir ráð fyrir því að einstaklingur í „dreifbýli“ þurfi 45.634 kr. á mánuði til innkaupa á mat, drykkjarvöru og öðrum dagvörum til heimilishalds, sbr. eftirfarandi:
     1.      Matur, svo sem brauð og kornvörur, kjöt, fiskur, mjólk, ostur og egg, olíur og feitmeti, ávextir, sykur og sælgæti, aðrar matvörur;
     2.      drykkjarvörur, svo sem kaffi, te, kakó, gosdrykkir, safar og vatn;
     3.      óvaranlegar heimilisvörur, svo sem hreingerningarvörur og hreingerningaráhöld;
     4.      hreinlætis- og snyrtivörur, svo sem sápur, sjampó, húðvörur og snyrtitæki.
    Þeir fangar sem fá greitt fæðisfé hafa að lágmarki um 13.700 kr. hærri upphæð til ráðstöfunar á mánuði heldur en viðmið velferðarráðuneytisins gerir ráð fyrir.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



     5.      Telur ráðherra að fangelsismálayfirvöld og stjórnvöld uppfylli skyldur sínar varðandi framfærslu fanga og að meðferð þeirra sé í samræmi við lög, reglur og alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að?
    Ráðherra telur að fangelsismálayfirvöld og stjórnvöld uppfylli skyldur sínar varðandi framfærslu fanga og að meðferð þeirra sé í samræmi við lög, reglur og alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að.
    Reglugerð um þóknun fyrir vinnu og nám og dagpeninga til fanga, nr. 162/2017, fól í sér tvær meginbreytingar á tilhögun greiðslna vegna vinnu og náms fanga. Í fyrsta lagi er nú sama tímagjald greitt fyrir öll störf fanga og skólasókn í stað mismunandi tímagjalds fyrir mismunandi störf. Tekið var mið af meðaltali tímagjalds á undanförnum árum og það hækkað um 6,9%. Í öðru lagi var sett hámark á greiddar klukkustundir á viku. Þá er mikilvægt að benda á að óski Fangelsismálastofnun eftir vinnuframlagi fanga umfram hámark er greitt fyrir það.
    Ráðherra bendir á að miðað við fjárveitingar undanfarinna ára hefur þurft að forgangsraða verkefnum hins opinbera og á það við um fangelsiskerfið líkt og aðrar stofnanir sem reknar eru fyrir opinbert fé. Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga um fullnustu refsinga, nr. 15/2016, er miðað við að upphæð dagpeninga fanga skuli miðast við að hann eigi fyrir brýnustu nauðsynjum til persónulegrar umhirðu. Í framkvæmd hefur verið miðað við neysluviðmið velferðarráðuneytisins á þann hátt að dagpeningar hafa verið lagðir saman við fæðisfé til samanburðar við lágmarksgreiðslur annarra hópa. Líkt og fram kemur hér að ofan hafa fangar samanlagt í dagpeninga og fæðisfé upphæð sem er mánaðarlega að minnsta kosti 13.700 kr. hærri en viðmið velferðarráðuneytisins gerir ráð fyrir, eða um 29% hærri. Ráðherra telur rétt að umræddar fjárhæðir verði teknar til skoðunar árlega og mun vinna að því í samvinnu við Fangelsismálastofnun. Við þá vinnu verður þó að taka mið af fjárveitingum almennt og áðurnefndri forgangsröðun.