Ferill 443. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Prentað upp.

Þingskjal 1021  —  443. mál.
Undirskriftir.

Síðari umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um breytingu á þingsályktun nr. 23/145, um siðareglur fyrir alþingismenn.

Frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þórhall Vilhjálmsson frá lagaskrifstofu Alþingis, Jón Ólafsson frá Gagnsæi – samtökum gegn spillingu og Henry Alexander Henrysson frá Siðfræðistofnun Háskóla Íslands.
    Með þingsályktunartillögunni eru lagðar til breytingar á ályktun Alþingis um siðareglur fyrir alþingismenn með það að markmiði að alþingismenn leggi sig fram um að skapa í störfum sínum heilbrigt starfsumhverfi innan þings sem utan og hvarvetna þar sem þeir sinna störfum sínum. Markmiðið er einnig að stuðla að öruggu og heilbrigðu starfsumhverfi fyrir alþingismenn, starfsmenn þingsins og gesti. Í breytingunum felast viðbrögð þingmanna við þeim opinskáu umræðum sem átt hafa sér stað í íslensku samfélagi, þar á meðal innan stjórnmálanna, um kynferðisofbeldi og áreitni.
    Nefndin fjallaði á fundum sínum um nokkur álitaefni málsins, m.a. gildissvið reglnanna gagnvart varaþingmönnum og hvenær þingmenn ættu að kynna sér siðareglurnar og undirrita yfirlýsingu þar um. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. siðareglnanna er kveðið á um að við upphaf þingsetu sinnar skuli alþingismenn afhenda forseta Alþingis undirritaða yfirlýsingu um að þeir hafi kynnt sér siðareglurnar og að sama gildi um varaþingmenn sem hafa setið samfellt í fjórar vikur. Í framkvæmd hefur þingmönnum verið kynnt að á fyrsta fundi Alþingis eftir alþingiskosningar liggi siðareglurnar á borðum þingmanna ásamt formi fyrir yfirlýsingu sem þeir geti undirritað og afhent skrifstofunni til staðfestingar þess að þeir hafi kynnt sér reglurnar. Á fundum nefndarinnar var rætt hvort ekki væri eðlilegt að þingmenn fengju siðareglurnar og yfirlýsinguna sendar strax að loknum kosningum og útgáfu kjörbréfs frá landskjörstjórn og að sama gilti um varaþingmenn frá því þeir tækju sæti. Nefndin tekur fram að í siðareglunum komi fram forsendur sem eru grunnur þess hlutverks sem kjörnum fulltrúum er falið. Þær eiga að vera almennar og til leiðsagnar fyrir þá um hvaða kröfur eru gerðar til þeirra. Nefndin telur því í ljósi þess hvernig litið er á þingmenn og hvaða kröfur eru gerðar til þeirra allt frá kjöri að mikilvægt sé að reglurnar séu kynntar þeim strax eftir kosningar svo að þeir geti skilað undirritaðri yfirlýsingu sem fyrst. Nefndin telur enn fremur að sömu rök eigi við um varaþingmenn og telur því rétt að leggja til að það verði fortakslaus skylda allra sem taka sæti á Alþingi að þeir kynni sér siðareglurnar jafnskjótt og þeir taka sæti og undirriti yfirlýsingu þar um á sínum fyrsta þingfundi. Nefndin leggur því til breytingu á þingsályktunartillögunni í þá veru.
    Nefndin tekur fram að siðareglur eigi að vera lifandi og taka mið af þeim breytingum sem verða í samfélaginu eins og kveikjan var að þessu máli. Nefndin telur að til þess að svo megi verða sé nauðsynlegt að auka sýnileika siðareglnanna og aðgengi að þeim á vef Alþingis. Þá sé einnig nauðsynlegt að umfjöllun um þær verði regluleg á meðal alþingismanna, t.d. með málstofum og fræðslufundum.
    Nefndin tekur fram að með siðareglum sé verið að auka gagnsæi í störfum alþingismanna, kynna hlutverk þeirra og ábyrgðarskyldu sem sé til þess fallið að dýpka þekkingu þeirra á hlutverkinu, sem og að auka tiltrú og traust almennings á Alþingi.
    Nefndin leggur til að þingsályktunartillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Á eftir a-lið 1. mgr. komi nýr stafliður, svohljóðandi: Orðin „sem hafa setið samfellt í fjórar vikur“ í 2. málsl. 2. mgr. 5. gr. siðareglnanna falli brott.

    Líneik Anna Sævarsdóttir og Jón Þór Ólafsson voru fjarverandi en rita undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 28. maí 2018.

Helga Vala Helgadóttir,
form., frsm.
Líneik Anna Sævarsdóttir. Jón Þór Ólafsson.
Brynjar Níelsson. Jón Steindór Valdimarsson. Kolbeinn Óttarsson Proppé.
Óli Björn Kárason. Þorsteinn Sæmundsson. Þórunn Egilsdóttir.