Ferill 542. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1030  —  542. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Álfheiði Eymarsdóttur um umhverfisvænar veiðar.


     1.      Hefur ráðuneytið gert úttekt á hagkvæmni þess að auka hlut umhverfisvænni veiða en togveiða, svo sem strandveiða, krókaveiða og línuveiða, í ljósi þess að íbúar vestrænna þjóða kjósa af umhverfisverndarástæðum að kaupa annan fisk en togarafisk? Ef svo er, hverjar voru niðurstöður úttektarinnar?
    Í spurningunni felst að íbúar vestrænna þjóða kjósi að kaupa ekki togarafisk af umhverfisverndarástæðum. Mjög stór hluti bolfiskafla íslenskra skipa er veiddur af togurum og ekki verður séð að sölutregða á erlendum mörkuðum hafi staðið útflutningi á íslenskum sjávarafurðum fyrir þrifum. Þegar rætt er um umhverfisvænar veiðar þarf að hafa marga þætti í huga, svo sem kolefnisspor, áhrif á botndýraríki, sem er mismunandi eftir botngerð, áhrif kjörhæfni (stærðarvals) veiðarfæra á viðgang fiskstofna, meðafla sjávarspendýra og sjófugla svo eitthvað sé nefnt. Togveiðar sem geta haft neikvæð áhrif á botndýr eru taldar vistvænni hvað varðar meðafla sjávarspendýra og fugla en t.d. línuveiðar og netaveiðar. Mismunandi veiðarfæri hafa síðan ólík áhrif á stærðardreifingu fiskstofna, þ.e. hvaða stærð fiska hvert þeirra veiðir helst og síðan hafa sum náttúruverndarsamtök beitt sér gegn fiskveiðum á króka út frá dýraverndarsjónarmiðum. Allir þessir þættir ásamt fleiri koma til tals á alþjóðamörkuðum þegar rætt er um hversu vistvænar sjávarafurðir eru. Á vegum ráðuneytisins hefur ekki farið fram sérstök heildstæð úttekt á umhverfisáhrifum mismunandi veiðarfæra og hagkvæmni sem tekur yfir alla þá þætti sem að framan greinir sem og aðra umhverfisþætti og hagræna þætti sem máli gætu skipt í því samhengi. Ráðuneytinu er ekki kunnugt um að slík heildarúttekt hafi verið gerð annars staðar, en bendir á að vottunarfyrirtækin framkvæma athuganir sem þó eru oftast bundnar við veiðar á einum stofni.

     2.      Hefur ráðuneytið gert úttekt á verðmun á fiski á mörkuðum erlendis eftir veiðarfærum og ef svo er, hverjar voru niðurstöðurnar?
    Ráðuneytið hefur ekki gert úttekt á verðmun á fiski á mörkuðum erlendis eftir veiðarfærum. Í opinberum útflutningsskýrslum er ekki að finna niðurbrot á afurðum eftir því úr hvaða veiðarfærum afli er. Því eru ekki fyrir hendi opinber gögn til að gera slíka rannsókn.

     3.      Hefur ráðuneytið gert úttekt á efnahagslegum áhrifum strandveiða, krókaveiða og línuveiða á byggðir landsins og ef svo er, hverjar voru niðurstöðurnar?
    Ráðuneytið hefur staðið fyrir nokkrum úttektum undangenginn áratug. Nýjasta úttektin er frá mars 2018 en þá skilaði Sjávarútvegsmiðstöð Háskólans á Akureyri ráðuneytinu skýrslu um þróun strandveiða á tímabilinu 2009–2017 og framgang veiðanna árið 2017. Markmið skýrslunnar var m.a. að meta hvort veiðarnar hefðu náð þeim árangri sem lagt var upp með í upphafi. Skýrsluna er að finna á vef ráðuneytisins. 1
    Eldri úttektir eru eftirfarandi: Endurskoðun á framtíðarskipan byggðakvóta, „Lokaskýrsla starfshóps sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um endurskoðun á framtíðarskipan byggðakvóta“, júní 2017. 2 Úttekt Rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Akureyri, „Skýrsla um ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla og áhrif þess á byggðafestu“, júlí 2017. 3 Að síðustu má nefna úttekt Háskólaseturs Vestfjarða frá janúar 2010, „Úttekt á framgangi og áhrifum strandveiðanna sumarið 2009“. 4
    Ráðuneytið hefur jafnframt kostað úttekt Hagstofu Íslands „Hagur veiða og vinnslu“ um árabil. Þar koma fram mikilvægar upplýsingar um afkomu mismunandi útgerðarflokka og fiskvinnslu.

     4.      Hefur farið fram faglegt mat á áhrifum frjálsra handfæraveiða á efnahag, byggðaþróun og vernd fiskstofna og ef svo er, hverjar voru niðurstöður matsins?
    Öllum veiðum á nytjastofnum á Íslandsmiðum er stjórnað miðað við ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um heildarafla. Í því felst að engar veiðar eru frjálsar í þeim skilningi að afli sé ótakmarkaður. Handfæraveiðar hafa ekki frekar en aðrar veiðar verið frjálsar í áratugi. Ráðuneytið hefur ekki látið meta áhrif frjálsra handfæraveiða á efnahag, byggðaþróun og vernd fiskstofna.
1     www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=69568208-26df-11e8-9429-005056bc530c
2     www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=f13ff645-67da-11e7-941c-005056bc530c
3     www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=af2a6bf0-6880-11e7-9416-005056bc4d74
4     www.stjornarradid.is/media/atvinnuvegaraduneyti-media/media/Skyrslur/skyrsla-Strandveidar_2009.pdf