Ferill 628. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1041  —  628. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, með síðari breytingum (áfrýjun dóms til Landsréttar eftir endurupptöku máls).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


1. gr.

    Í stað orðsins „Hæstaréttar“ í 2. mgr. 189. gr. og 3. mgr. 191. gr. laganna kemur: Landsréttar.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Í XXIX. kafla laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, er kveðið á um endurupptöku útivistarmáls í héraði og þar á meðal heimild til þess að áfrýja dómi eftir endurupptöku máls, sbr. 2. mgr. 189. gr. og 3. mgr. 191. gr. laganna. Við samþykkt laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála (millidómstig), nr. 49/2016, láðist að gera breytingar á framangreindum ákvæðum þannig að Landsréttur kæmi í stað Hæstaréttar í þessum efnum, sbr. 44. gr. frumvarpsins sem varð að lögum nr. 49/2016. Nauðsynlegt er að bregðast við þessum annmarka og er því lagt til með frumvarpi þessu að áfrýjunardómstóll skv. XXIX. kafla laga um meðferð sakamála sé Landsréttur, enda hefur sá dómstóll tekið við hlutverki Hæstaréttar í þessum efnum.
    Í frumvarpinu felast engin álitaefni hvorki varðandi samræmi við stjórnarskrá né alþjóðlegar skuldbindingar. Þá hefur frumvarpið engan kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.