Ferill 567. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1042  —  567. mál.
Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Helga Hrafni Gunnarssyni um notkun stjórnvalda og ríkisstofnana á samfélagsmiðlum.


     1.      Hvaða reglur gilda um notkun stjórnvalda og ríkisstofnana á samfélagsmiðlum og um umræður sem þar fara fram?
    Ekki hafa verið settar sérstakar reglur um notkun stjórnvalda og ríkisstofnana á samfélagsmiðlum og um umræður sem þar fara fram. Hins vegar hyggst forsætisráðuneytið vinna slíkar reglur fyrir ráðuneyti. Vinnu við þær verður lokið næsta haust.

     2.      Hvaða skylda hvílir á stjórnvöldum og ríkisstofnunum til að meðhöndla og svara erindum borgara sem berast gegnum samfélagsmiðla, ýmist með einkaskilaboðum eða á svæði sem almenningur hefur aðgang að?
    Ráðuneytið hefur haft almennan fyrirvara á Facebook-síðu sinni um að kjósi notendur síðunnar að koma á framfæri formlegu erindi til ráðuneytisins skuli slík erindi send á póstfang ráðuneytisins. Með þessu hefur ráðuneytið áréttað að það lítur ekki svo á að Facebook-síðan sé opinber gátt fyrir slík erindi. Á hinn bóginn er það meginregla íslensks stjórnsýsluréttar að stjórnsýslan sé óformbundin í þeim skilningi að almennt eru ekki gerðar kröfur um að erindi skuli berast stjórnvaldi á tilteknu formi, t.d. skriflega fremur en munnlega, í bréfpósti fremur en tölvupósti eða á sérstöku eyðublaði fremur en í óstöðluðu bréfi. Krafa af hálfu stjórnvalds um tiltekið form samskipta umfram önnur verður almennt að byggjast á sérstakri lagaheimild. Á grundvelli skráðra og óskráðra reglna um leiðbeiningarskyldu og rannsóknarreglu ber stjórnvaldi að leiðbeina aðila og aðstoða hann við að koma máli hans á framfæri. Í almennum fyrirvara sínum áréttar ráðuneytið að ekki sé um opinbera gátt fyrir formleg erindi að ræða en leiðbeinir jafnframt notendum um réttan farveg til að koma slíkum erindum á framfæri, þ.e. á póstfangi ráðuneytisins. Með því verður að telja að skyldur ráðuneytisins samkvæmt skráðum og óskráðum reglum stjórnsýsluréttarins séu uppfylltar, m.a. framangreind leiðbeiningarskylda. Eins og áður segir lítur ráðuneytið ekki svo á að Facebook-síða ráðuneytisins eða Twitter-reikningur þess sé almennur farvegur formlegra erinda, sbr. svar við 3. tölul. fyrirspurnarinnar. Með því útilokar ráðuneytið þó ekki að erindi, sem beint er til ráðuneytisins á samskiptamiðli, verði tekin til skoðunar og afgreiðslu, ef aðstæður eru með þeim hætti.

     3.      Hvaða rétt hafa almennir borgarar til að tjá sig á opnum samfélagsmiðlasvæðum stjórnvalda og ríkisstofnana? Er stjórnvöldum og ríkisstofnunum heimilt að meina einstökum netnotendum að tjá sig á slíkum samfélagsmiðlasvæðum með því að eyða ummælum þeirra eða með því að útiloka þá (e. block )?
    Af hálfu ráðuneytisins hafa samfélagsmiðlar fyrst og fremst verið nýttir sem viðbótarfarvegur fyrir upplýsingagjöf til almennings, svo sem fyrir fréttatilkynningar og annað útgefið efni sem áður hefur verið birt á vef Stjórnarráðs Íslands. Samfélagsmiðlar gera notendum kleift að stilla aðgengi að síðum sínum með ýmsum hætti; þannig getur notandinn á sumum miðlum valið hvort gestir, allir eða sumir, geti sett þar inn efni eða athugasemdir. Þá er einnig mögulegt að eyða athugasemdum eða útiloka einstaka aðila. Kjósi stjórnvald að nýta sér samfélagsmiðil til upplýsingagjafar eða samskipta við borgarana verður það að gæta þess að notkun þess á framangreindum stillingarmöguleikum stríði ekki gegn sjónarmiðum um jafnræði borgara, tjáningarfrelsi þeirra, friðhelgi einkalífs og meðalhóf. Ekki er þó unnt að útiloka að sú staða geti komið upp að stjórnvaldi verði talið rétt að eyða efni, einstökum athugasemdum og ummælum sem sett hafa verið inn á slíkar síður ef efnið telst óviðurkvæmilegt eða ærumeiðandi. Við slíkar aðgerðir hvílir sú skylda á stjórnvaldi að gæta varfærni og meðalhófs, að beita vægari úrræðum séu þau tæk og að leiðbeina aðila. Ekki er heldur hægt að útiloka, t.d. í framhaldi af ítrekuðum ærumeiðandi ummælum tiltekins einstaklings, að réttmætt geti talist, eftir atvikum að undangenginni málsmeðferð, að honum verði meinað að setja efni á síðu stjórnvalds. Líta verður til eðlis þeirrar upplýsingaþjónustu sem um ræðir. Um er að ræða ólögmælta upplýsingaþjónustu í þágu borgaranna og verður talið að stjórnvöld hafi svigrúm og skyldu til að haga útfærslu á þann hátt að velsæmis og siðgæðis sé gætt og að efni sem sett er inn á samfélagsmiðla brjóti ekki gegn réttindum annarra. Við alla slíka ákvörðunartöku þarf eins og áður segir að gæta vandlega að sjónarmiðum um jafnræði, tjáningarfrelsi, friðhelgi einkalífs og meðalhóf, sem og reglum, skráðum og óskráðum, um málsmeðferð stjórnvalda og ákvörðunartöku.