Ferill 22. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1046  —  22. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um brottnám líffæra, nr. 16/1991 (ætlað samþykki).

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Runólf Pálsson frá embætti landlæknis, Reyni Arngrímsson frá Læknafélagi Íslands, Sigurberg Kárason og Kristin Sigvaldason frá Landspítalanum, Kjartan Birgisson og Steinunni Rósu Einarsdóttur. Umsagnir bárust frá Öðru lífi – félagasamtökum, biskupsstofu, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Hagfræðideild Háskóla Íslands, Landlæknisembættinu, Landspítalanum, Læknafélagi Íslands, Ólöfu Björk Ólafsdóttur, Sambandi íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga, Sindra Engilbertssyni, Siðfræðistofnun Háskóla Íslands, Siðmennt – félagi siðrænna húmanista og umboðsmanni barna.
    Með frumvarpinu er lagt til að í 2. gr. laga um brottnám líffæra, nr. 16/1991, verði kveðið á um svokallað „ætlað samþykki“ við brottnám líffæra eða lífrænna efna úr líkama látins manns í stað „ætlaðrar neitunar“. Með öðrum orðum er með breytingunni gert ráð fyrir að hinn látni hafi verið samþykkur brottnámi líffæris eða lífræns efnis að sér látnum nema tilefni sé til að ætla annað. Þykir eðlilegt að gera ráð fyrir því að fólk vilji koma náunga í neyð til hjálpar með því að gefa líffæri og lífræn efni að sér látnu fremur en ekki.
    Umsagnaraðilar lýsa yfir eindregnum stuðningi við frumvarpið. Nokkrir umsagnaraðilar gagnrýna þó 2. mgr. 1. gr. um að ekki megi nema brott líffæri eða lífræn efni úr líkama látins einstaklings leggist nánasti vandamaður hins látna gegn því. Benda umsagnaraðilar á að þetta ákvæði stangist á við þau mannréttindi einstaklinga að ráða yfir eigin líkama. Á fundi nefndarinnar með umsagnaraðilum kom þó fram að í framkvæmd sé í flestum tilvikum farið að vilja aðstandenda látinnar manneskju enda afar erfitt að fara gegn óskum þeirra. Þar af leiðandi telur nefndin ekki þörf á að fella ákvæðið brott enda er framkvæmdin í flestum tilvikum í samræmi við það.
    Umboðsmaður barna leggur áherslu á að settar verði verklagsreglur um aðkomu heilbrigðisstarfsmanna að þessum málum og þá sérstaklega hvað varðar samskipti við aðstandendur og upplýsingagjöf til þeirra þar sem úrslitavald foreldra eða forsjáraðila er virt. Nefndin tekur undir þessar athugasemdir umboðsmanns og beinir því til embættis landlæknis að slíkar reglur verði settar.
    Þá bárust nefndinni athugasemdir um að samkvæmt frumvarpinu væri einungis hægt að nema á brott líffæri eða lífræn efni úr líkama látins einstaklings hafi hann verið sjálfráða. Benda umsagnaraðilar á að standi ákvæðið óbreytt útiloki það mikilvæga líffæragjöf barna. Nefndin tekur undir þessar athugasemdir og telur ekki forsvaranlegt að banna líffæragjöf ólögráða einstaklinga í öllum tilvikum. Leggur nefndin því til að vísun til þess að einstaklingur verði að hafa verið sjálfráða við andlát falli brott.
    Að framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Orðin „verið sjálfráða og“ í 1. mgr. 1. gr. falli brott.

    Vilhjálmur Árnason var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.
    Ólafur Þór Gunnarsson ritar undir álit þetta með fyrirvara.

Alþingi, 30. maí 2018.

Halldóra Mogensen,
form.
Halla Signý Kristjánsdóttir, frsm. Andrés Ingi Jónsson.
Anna Kolbrún Árnadóttir. Ásmundur Friðriksson. Guðjón S. Brjánsson.
Guðmundur Ingi Kristinsson. Ólafur Þór Gunnarsson, með fyrirvara. Vilhjálmur Árnason.