Ferill 632. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1050  —  632. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016.

Flm.: Björn Leví Gunnarsson.


1. gr.

    Orðin „eftir því sem kostur er“ í 1. málsl. 1. mgr. 10. gr. laganna falla brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Núgildandi lög um vátryggingastarfsemi tóku gildi á Íslandi 1. október 2016. Í 1. mgr. 10. gr. laganna er kveðið á um skyldu Fjármálaeftirlitsins til að fylgjast með vátryggingaskilmálum sem í boði eru hér á landi og gæta þess að þeir séu í samræmi við lög og heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti. Eftirlitsskylda Fjármálaeftirlitsins er þó ekki afdráttarlaus, heldur er í greininni kveðið á um að eftirlitið skuli veitt „eftir því sem kostur er“. Það að veita Fjármálaeftirlitinu matskennda heimild um hvort það fylgist með vátryggingaskilmálum til að tryggja heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti er ekki til þess fallið að tryggja öryggi neytenda. Til þess að eftirlit sé áhrifaríkt er nauðsynlegt að löggjöf sé þannig að það sé ekki valkvætt af hálfu eftirlitsaðila heldur verði kveðið á um skyldu til eftirlits.