Ferill 266. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1053  —  266. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Þorgerði K. Gunnarsdóttur um hækkun bóta almannatrygginga.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvaða forsendur liggja að baki útreikningum hækkunar bóta almannatrygginga um 4,7% í fjárlögum fyrir árið 2018?

    Í 69. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, segir að bætur almannatrygginga skuli breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Við ákvörðun bóta skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.
    Það er mat hverju sinni í fjárlagagerðinni hvernig taka skuli mið af launaþróun en almennt má segja að gengið sé út frá meðalhækkunum í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði að teknu tilliti til þess hvenær hækkanirnar taka gildi á árinu. Þessi viðmið hafa því falið í sér að tekið hefur verið mið af meðalbreytingum á vinnumarkaðnum í heild fremur en af hækkun einstakra hópa, t.d. hinna lægst launuðu.
    Líkt og fram kemur í greinargerð með fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2018 var gengið út frá 4,7% hækkun á bótum almannatrygginga fyrir árið 2018 með hliðsjón af spá um launaþróun. Ákvörðun um hækkun bótanna tók mið af spá Hagstofu Íslands um þróun launavísitölu milli áranna 2017 og 2018 að frádregnu launaskriði. Rétt er að benda á að sú hækkun kom til útborgunar til bótaþega 1. janúar eða nokkrum mánuðum áður en launþegar fengu hækkanir sínar samkvæmt kjarasamningum á árinu.
    Þá er rétt að vekja athygli á því að í frumvarpinu var jafnframt gert ráð fyrir að bætur elli- og örorkulífeyrisþega sem halda einir heimili hækkuðu um 2,4% til viðbótar og urðu þær 300.000 kr. frá og með 1. janúar þessa árs. Sú hækkun var í samræmi við yfirlýsingu fyrri ríkisstjórnar vegna breytinga á almannatryggingakerfinu frá því í október árið 2016.