Ferill 349. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1054  —  349. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Oddnýju G. Harðardóttur um launaþróun stjórnenda ríkisfyrirtækja og ríkisstofnana.


     1.      Hver var þróun launa stjórnenda, þ.e. forstjóra og framkvæmdastjórnar, 10 stærstu ríkisfyrirtækja og ríkisstofnana sl.10 ár? Óskað er eftir samantekt þar sem fram komi línurit sem sýni þróun meðallauna þessa hóps í hverju fyrirtæki eða stofnun fyrir sig borið saman við þróun vísitölu launa yfir sama tímabil.
    Svarið er unnið upp úr upplýsingum um laun stjórnenda tíu fyrirtækja og stofnana ríkisins. Fyrirtækin eru ÁTVR, Isavia ohf., Íslandspóstur ohf., Landsvirkjun, Landsnet hf, Rarik ohf. og stofnanir eru Háskóli Íslands, Landspítali, RÚV og Stjórnarráð Íslands.
    Ráðuneytið býr ekki yfir miðlægum upplýsingum um launakjör starfsmanna í opinberum fyrirtækjum og því var kallað eftir upplýsingum frá fyrirtækjum en vegna stofnana ríkisins er byggt á gögnum úr launakerfi ríkisins. Safnað var saman heildarlaunum og eru meðtaldar í þessum launum álags-, bónus- og yfirvinnugreiðslur, en ekki eru meðtalin hlunnindi, akstursgreiðslur eða ferðakostnaður. Meðallaun eru fengin með því að deila með fjölda greiddra stöðugilda í samtölu heildarlauna.
    Stjórnendum er skipt í tvo hópa, þ.e. forstjóra og framkvæmdastjórn, og er launaþróun forstjóra sýnd í töflu 1 og línuriti 1 og launaþróun framkvæmdastjórnar í töflu 2 og línuriti 2.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Tafla 1 og línurit 1 sýna sömu þróun meðallauna frá árinu 2008 til 2017 eða sl. tíu ár. Um er að ræða meðallaun forstjóra og er vísbending um þróun heildarlaunakjara forstjóra eftirtalinna fyrirtækja og stofnana, sem eru forstjóri ÁTVR, forstjóri Isavia, forstjóri Íslandspósts ohf., forstjóri Landsvirkjunar, forstjóri Landsnets, forstjóri Rarik ohf., rektor Háskóla Íslands, útvarpsstjóri hjá RÚV ohf., forstjóri Landspítala og ráðuneytisstjórar í Stjórnarráði Íslands. Til samanburðar er launavísitala en hún hækkaði samtals um 78,7% á tímabilinu, miðað er við meðaltal launavísitölu ársins eins og hún er birt hjá Hagstofu Íslands.

Tafla 1. Þróun meðallauna forstjóra.

    Taflan sýnir þróun launa forstjórahópsins frá 2008. (Isavia var stofnað árið 2010, frá árinu 2008 eru laun vegna Keflavíkurflugvallar ohf.)

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Línurit 1. Meðallaun forstjóra – þróun frá árinu 2008 til ársins 2017.

    Taflan hér á eftir og línurit 2 sýna þróun meðallauna framkvæmdastjóra sömu fyrirtækja og stofnana. Framkvæmdastjórar sem tilheyra framkvæmdastjórn eru meðtaldir og er fjöldinn að baki hjá hverju fyrirtæki mismunandi. Sjá eftirfarandi: ÁTVR: tvö stöðugildi; Háskóli Íslands: um fimm stöðugildi árið 2008 og um sex stöðugildi árið 2017 en um er að ræða forseta fræðasviða og aðstoðarrektor; Isavia: sex stöðugildi árið 2010 en átta stöðugildi árið 2017; Íslandspóstur er með fimm stöðugildi; Landsnet tvö stöðugildi árið 2008 en fimm stöðugildi árið 2017. Á Landspítala er um að ræða framkvæmdastjóra sviða en þeir eru um 13 talsins árið 2017, í Stjórnarráði Íslands eru skrifstofustjórar undir og eru 78 stöðugildi árið 2008 og um 45 stöðugildi árið 2017.

Tafla 2. Þróun meðallauna framkvæmdastjóra.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Línurit 2. Meðallaun framkvæmdastjóra – þróun frá 2008 til 2017.

     2.      Hver hefur þróun þessara launa verið ef fyrirtækjunum og stofnununum er skipt í tvo flokka eftir uppruna helstu tekna, þ.e.
                  a.      þau sem eru aðallega rekin fyrir eigin tekjur, svo sem Landsvirkjun, Isavia, Íslandspóstur, Landsnet, ÁTVR og Rarik,
                  b.      þau sem eru aðallega rekin fyrir fjárveitingar úr ríkissjóði, svo sem Landspítalinn, Stjórnarráð Íslands, Háskóli Íslands og RÚV?
    Launaþróun sömu fyrirtækja og stofnana og í svari við 1. tölul. er í þessum lið tekin saman fyrir tvo fyrirtækjahópa, fyrri hópur eru fyrirtækin ÁTVR, Isavia, Íslandspóstur, Landsnet, Landsvirkjun og Rarik. Í seinni fyrirtækjahóp eru stofnanir, þ.e. Háskóli Íslands, Landspítali, RÚV og Stjórnarráð Íslands. Tekið er meðaltal af launaþróun stjórnenda úr svari í 1. tölul., þ.e. forstjóra og framkvæmdastjórnar. Launaþróun fyrri hópsins sem spannar árin 2008 til 2017 endar í hækkun að meðaltali 48,6%, en seinni hópurinn endar í meðaltalshækkun 50,2%. Sjá nánar í línuriti 3.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Línurit 3. Meðaltalslaunaþróun stjórnenda skipt í tvo flokka.

     3.      Ef launaþróun stjórnenda eins eða fleiri fyrirtækja eða stofnana er á tímabilinu mjög frábrugðin meðalþróuninni, hverja telur ráðherra skýringuna á því vera?
    Þau fyrirtæki sem eru frábrugðin eða skera sig úr eru þau sem mælast með mjög litla hækkun launa á tímabilinu eða eru með meiri hækkun en meðaltalið. Forstjórar nokkurra fyrirtækja mælast með litla hækkun launa miðað við launavísitölu. Laun þeirra eru ákvörðuð af Kjararáði á tímabilinu frá 1. mars 2010 til 1. júlí 2017. Það hefur áhrif á mælingu tímabilsins að upphafsstaða er árið 2008. Enginn forstjóri mælist með meiri hækkun en breyting á launavísitölu á tímabilinu.
    Framkvæmdastjórar mælast með ívið meiri launaþróun en forstjórar. Samsetning þess hóps er annars eðlis en forstjórahópsins. Það geta hafa orðið talsverðar breytingar í hópi framkvæmdastjóra sem hefur áhrif á launamyndun, svo sem endurskipulagning starfa, endurmat á umfangi og ábyrgð starfs og fleira getur komið þar við sögu. Launaþróun Stjórnarráðs Íslands sker sig úr að þessu leyti en það er á tímabilinu sem er til skoðunar undir ákvörðunarvaldi Kjararáðs. Talsverð fækkun er í fjölda ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra á tímabilinu og einnig hefur verið litið til fleiri þátta við ákvarðanir Kjararáðs.

     4.      Ef launaþróun þessara tveggja stjórnendahópa er mismunandi á tímabilinu, hverja telur ráðherra skýringuna á því vera?
    Á heildina litið er launaþróun þessara tveggja hópa mjög áþekk, um meðaltal er að ræða og einstaka starf er frábrugðið, eins og sjá má í línuriti 3.

     5.      Hver voru meðallaun þessara stjórnenda á síðasta ári, greind niður á fyrirtæki og stofnanir?
    Eftirfarandi tafla sýnir meðallaun á mánuði árið 2017 fyrir stjórnendur, annars vegar fyrir forstjóra, forstöðumenn eða ráðuneytisstjóra og hins vegar fyrir framkvæmdastjóra eða skrifstofustjóra.

Tafla 3. Meðallaun á mánuði árið 2017.

Forstjóri Framkvæmdastjóri
ÁTVR 1.335.432 1.643.350
Háskóli Íslands 1.406.373 1.227.346
Isavia 2.089.262 1.873.953
Íslandspóstur 1.615.471 1.402.014
Landsnet 1.813.500 1.742.740
Landspítalinn 2.420.159 1.947.254
Landsvirkjun 2.701.544 2.244.118
Rarik 1.678.251 1.573.927
RÚV 1.685.386 1.137.949
Stjórnarráð Íslands 1.752.794 1.344.779
Heimild: Upplýsingar frá ÁTVR, Isavia, Íslandspósti, Landsvirkjun, Landsneti, Rarik og RÚV. Laun sótt í launakerfi ríkisins vegna Háskóla Íslands, Landspítala og Stjórnarráðs Íslands.
Hagstofa Íslands: Launavísitala frá 2008 til 2017.

    Heildarlaun eru öll laun einstaklingsins, þ.e. regluleg heildarlaun auk ýmissa óreglulegra greiðslna, svo sem orlofs- og desemberuppbótar, eingreiðslna, ákvæðisgreiðslna og uppgjörs vegna uppmælinga. Við útreikninga er hvorki tekið tillit til hlunninda né akstursgreiðslna.