Ferill 458. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1060  —  458. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum (mútubrot).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd .


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur frá dómsmálaráðuneyti auk þess að nefndinni barst umsögn frá héraðssaksóknara.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 109. gr. og 264. gr. a almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Í fyrsta lagi er lagt til að hámarksrefsing fyrir brot gegn 109. gr., þ.e. að bera mútur á innlendan eða erlendan opinberan starfsmann, verði þyngd úr fjögurra ára fangelsi í fimm ára fangelsi. Í öðru lagi er lögð til breyting á 264. gr. a almennra hegningarlaga sem fjallar um mútubrot til stjórnanda eða starfsmanns fyrirtækis í atvinnurekstri þannig að það nái ekki einungis til innlendra fyrirtækja heldur einnig erlendra. Í þriðja lagi er lagt til að refsirammi 264. gr. a, bæði að því er varðar boð um mútur og kröfu um eða viðtöku þeirra, verði sá sami og gildir um opinbera starfsmenn skv. 109. gr. og 128. gr. laganna, þ.e. að hámarksrefsing verði fimm ár fyrir mútuboð og sex ár fyrir mútuþægni. Með frumvarpinu er verið að tryggja að íslensk hegningarlög séu í samræmi við samning um baráttu gegn mútugreiðslum til erlendra opinberra starfsmanna í alþjóðlegum viðskiptum og samning Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir gegn spillingu frá 31. október 2003.
    Á fundum nefndarinnar kom fram að með frumvarpinu er ætlað að bregðast við alþjóðlegum tilmælum um úrbætur á þessu sviði annars vegar frá vinnuhópi Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) og hins vegar frá skrifstofu Sameinuðu þjóðanna um fíkniefni og sakamál (UNODC), en ábendingar þeirra skarast að verulegu leyti. Nefndin tekur undir mikilvægi þess að brugðist verði við þessum tilmælum og tryggt að lög séu í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 31. maí 2018.

Páll Magnússon,
form., frsm.
Andrés Ingi Jónsson. Anna Kolbrún Árnadóttir.
Birgir Ármannsson. Guðmundur Andri Thorsson. Jón Steindór Valdimarsson.
Steinunn Þóra Árnadóttir. Willum Þór Þórsson. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.