Ferill 9. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1064  —  9. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um skilyrðislausa grunnframfærslu (borgaralaun).

Frá minni hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund dr. Guy Standing í gegnum fjarfundabúnað, Henný Hinz og Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur frá Alþýðusambandi Íslands, Ragnar Þór Ingólfsson frá VR stéttarfélagi, Albert Sigurðsson frá BIEN Ísland og Indriða H. Þorláksson. Umsagnir bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Barnaheillum, Hagsmunasamtökum heimilanna, Ísafjarðarbæ, Íslandsdeild BIEN, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Öryrkjabandalagi Íslands, Reykjavíkurborg og sveitarfélaginu Vogum.
    Með þingsályktunartillögunni er lagt til að Alþingi álykti að fela félags- og jafnréttismálaráðherra í samstarfi við fjármála- og efnahagsráðherra að skipa starfshóp sem kortleggi leiðir til að tryggja öllum borgurum landsins skilyrðislausa grunnframfærslu með það að markmiði að styrkja efnahagsleg og félagsleg réttindi fólks og stuðla að jöfnum tækifærum.
    Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að aukin umræða um skilyrðislausa grunnframfærslu á undanförnum árum hefur styrkt ákall um að hugmyndin sé skoðuð gaumgæfilega á vettvangi stjórnmálanna. Sama er uppi á teningnum víða annars staðar, t.d. kom fram að hinn 23. janúar 2018 hefði Evrópuráðsþingið samþykkt ályktun varðandi skilyrðislausa grunnframfærslu sem hvetur aðildarríkin til að kanna kosti skilyrðislausrar grunnframfærslu og ræða endurskoðun á gildandi kerfum.
    Í ljósi þeirra breytinga sem verða á samfélagi og vinnumarkaði með tækniframförum á komandi árum og áratugum er mikilvægt að horft verði til þess hvernig núverandi framfærslukerfi er hannað og hvort það tryggi nægilega velferð borgaranna. Tilraunir með skilyrðislausa framfærslu eða borgaralaun hafa á síðustu árum farið fram í ýmsum löndum, en ein sú umfangsmesta stendur nú yfir í Finnlandi. Er það tilgangur þessarar tillögu að skoða reynslu annarra ríkja af slíkum lausnum og setja í íslenskt samhengi svo að hægt sé að meta hvernig mögulegar útfærslur gætu litið út hér á landi. Í því skyni er mikilvægt að gera grein fyrir sem flestum sviðsmyndum og fýsileika þeirra út frá kostnaði hins opinbera og möguleika til að afla tekna á móti.
    Eins og segir í greinargerð tillögunnar byggist hugmyndafræðin að baki skilyrðislausri grunnframfærslu á frelsi og jafnrétti, skilvirkni og samstöðu, jörðinni sem sameiginlegri eign allra jarðarbúa, jafnri hlutdeild sameiginlegs ávinnings af tækniframförum, sveigjanleika á vinnumarkaði og reisn hinna fátæku, baráttunni gegn atvinnuleysi og ómannúðlegum vinnuskilyrðum, baráttunni gegn landsbyggðarflótta og ójöfnuði á milli sveitarfélaga, eflingu fullorðinsfræðslu og sjálfstæði gagnvart vinnuveitanda og maka. Er þar vísað til þess að stuðst verði við þessa hugmyndafræði við tillögur að uppbyggingu starfshóps þar sem leitast er við að tryggja að sem breiðastur hópur þeirra sem hafa hagsmuna að gæta komi að vinnunni. Minni hlutinn telur rétt að árétta mikilvægi þess að allir sem kunna að hafa hagsmuna að gæta geti komið að vinnunni.
    Við umfjöllun nefndarinnar komu fram ýmis sjónarmið varðandi skilyrðislausa grunnframfærslu sem vert er að huga að við þá vinnu sem fram undan er. Þar má m.a. nefna áhyggjur af því að slíkt kerfi kunni að festa þá sem ekki geta unnið í fátækragildru. Afar mikilvægt er að þegar kostir skilyrðislausrar grunnframfærslu séu kannaðir sé hugað sérstaklega að þessum þætti og staða einstaklinga og fjölskyldna tryggð sem þurfa að treysta á núverandi framfærslukerfi. Þó að margt megi vinna með því að einfalda núverandi framfærslukerfi, m.a. með því að taka út tekjutengingar og draga úr flækjustigi vegna samspils á milli kerfa, má sú einföldun ekki leiða til þess að grafið verði undan því samfélagslega öryggisneti sem stórir hópar fólks reiða sig á til framfærslu.
    Þá ber að geta þess að tillagan snýr einungis að því að unnin verði greining á kostum skilyrðislausrar grunnframfærslu. Ekki er sjálfgefið að niðurstaða þeirrar rannsóknar verði að borgaralaun skuli innleidd. Eins og segir í samantekt tillögunnar þá er lagt til að kortlagðar verði leiðir til að tryggja öllum borgurum landsins skilyrðislausa grunnframfærslu. Sú vinna getur verið eðlilegt framhald af þeirri endurskoðun sem almannatryggingakerfið hefur gengist undir undanfarin misseri. Niðurstöður af þeirri rannsókn sem lögð er til með tillögu þessari geta orðið til þess að opna og þróa umræðu um framtíð almannatryggingakerfisins.
    Minni hlutinn áréttar að með þessari tillögu er ekki lagt til að þegar verði tekin upp skilyrðislaus grunnframfærsla, heldur að unnin verði fagleg greiningarvinna sem yrði innlegg í umræðu um möguleg næstu skref. Við þessa vinnu yrði leitað víðtæks samráðs við innlenda og erlenda sérfræðinga, hagsmunaaðila og aðra aðila sem að málinu geta komið. Óháð því hver niðurstaða rannsóknarinnar verður er mikilvægt að efla umræðuna um framfærslu og framfærslukerfi og að stuðla að því að nýjar hugmyndir um þau verði rannsakaðar ef í þeim kunna að felast framfarir.
    Að teknu tilliti til þess sem að framan segir leggur minni hlutinn til að tillagan verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 30. maí 2018.

Halldóra Mogensen,
form., frsm.
Anna Kolbrún Árnadóttir. Guðjón S. Brjánsson.
Guðmundur Ingi Kristinsson.