Ferill 202. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
3. uppprentun.

Þingskjal 1086  —  202. mál.
Dagsetningum breytt.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Áslaugu Einarsdóttur, Maríu Sæmundsdóttur og Þórunni Oddnýju Steinsdóttur frá velferðarráðuneytinu, Iðunni Garðarsdóttur, aðstoðarmann heilbrigðisráðherra, Sveinbjörn Kristjánsson og Viðar Jensson frá embætti landlæknis, Ólaf Stephensen frá Félagi atvinnurekenda, Kristin Hrafnsson frá Veipum Lifum, Guðmund Karl Snæbjörnsson, Matthildi Sveinsdóttur og Svövu G. Ingimundardóttur frá Neytendastofu, Karl Andersen frá Hjartavernd, Sigurveigu Þórhallsdóttur og Stellu Hallsdóttur frá umboðsmanni barna, dr. Lindu Bauld, Jón Steinar Jónsson frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og John Britt prófessor. Umsagnir bárust frá Adolf Braga Hermannssyni, Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, Agnesi Smáradóttur, Alexander Kristófer Gústafssyni, Ásmundi Ívari Óskarssyni, Barnaheillum, Brad Rodu, British American Tobacco, Broony Saint, Clive Bates, Dagbjörtu Karen Bjarnadóttur, Daníel Árnasyni, Daníel Edward Jónssyni, Djáknanum ehf., Einari Daða Halldórssyni, Erik Befrits, Erling Þór Valssyni Klingenberg, Ernu Margréti Oddsdóttur, Félagi atvinnurekenda, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Frank Arthuri Blöndahl Cassata, Fræðslu og forvörnum, Gunnari Viðari Þórarinssyni, Halldóri Friðvinssyni, Halldóru Stefaníu Birgisdóttur, Hönnu Þurý Ólafsdóttur, Hans Jónssyni, Heilbrigðiseftirliti Kjósarsvæðis, Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Helenu Söndru Halldórsdóttur, Helga Haukssyni, Herði Guðmundssyni, Höskuldi Blöndal, Icevape ehf., Ísam ehf., Krabbameinsfélagi Íslands, Krabbameinsfélagi Reykjavíkur, embætti landlæknis, Lilju Sigrúnu Jónsdóttur, Lyfjastofnun, Læknafélagi Íslands, Magdalenu Ýri Hólmarsdóttur, Magnúsi Gunnlaugssyni, Magnúsi Kára Einarssyni, Miu Perez, New Nicotine Alliance UK, Neytendastofu, Ólöfu Unu Haraldsdóttur, Persónuvernd, Reykjavíkurborg, Salómon Gunnari Erlendssyni, Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu, Samtökum heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi, Samráðshópi um forvarnir hjá Reykjavíkurborg, Sesselju Guðmundsdóttur, SÍBS, Sigtryggi Inga Finnssyni, Sigurbjörgu Rún Valgeirsdóttur, Sindra Frey Róbertssyni, Stefáni Hafsteinssyni, Sunnu Dís Ólafsdóttur, Samtökum verslunar og þjónustu, umboðsmanni barna, Umhverfisstofnun, Ungmennafélagi Íslands, Veipum Lifum, Vigni Má Bárðarsyni og Viktori Stefáni Björnssyni.

Um efnistök frumvarpsins og vinnu nefndarinnar.
    Frumvarpi þessu er ætlað að setja skýrar reglur um heimildir til sölu, markaðssetningar og notkunar á rafrettum og um áfyllingar fyrir rafrettur. Einnig eru ákvæði sem kveða á um eftirlit með innflutningi, dreifingu og sölu á rafrettum og áfyllingum fyrir rafrettur til þess að tryggja viðhlítandi öryggi varanna á markaði. Þá eru lagðar til nokkrar breytingar á öðrum lögum.
    Í umsögnum sem nefndinni bárust sem og á fundum hennar komu ýmis sjónarmið fram. Meiri hlutinn leggur sérstaklega áherslu á að rafrettur eru tæki sem hugsanlega geta viðhaldið nikótínfíkn og vísbendingar um að búnaðurinn geti reynst tæki til að nýir notendur nikótíns, sem aldrei hafa reykt, bætist í hóp notenda. Þá leggur meiri hlutinn áherslu á að rafrettur innihalda skaðleg efni og ekki er enn fullljóst hver varanleg eða langvarandi áhrif af notkun þeirra eru. Telur meiri hlutinn því mikilvægt að gæta ítrustu varúðar gagnvart rafrettum og að ákveðnar skorður verði settar við innflutningi, sölu og notkun þeirra. Sérstaklega leggur meiri hlutinn áherslu á vernd barna í því samhengi. Telur meiri hlutinn því nauðsynlegt að gera nokkrar breytingar á frumvarpinu.

Rafrettur sem tæki til að draga úr tóbaksreykingum.
    Fyrir nefndinni komu fram þau sjónarmið að ekki ætti að takmarka aðgengi að rafrettum mikið þar sem þær væru mikilvægt tæki til að hjálpa fólki að hætta að reykja. Nefndin bendir hins vegar á að þrátt fyrir takmarkað aðgengi nú þegar hefur notendum fjölgað verulega, og ekki ástæða til að ætla að ákvæði frumvarpsins sem varða aðgengi að rafrettum hindri þá sem geta haft gagn af rafrettum til að hætta að reykja í að nýta sér þær. Þá komu einnig fram þau sjónarmið að nikótín sem slíkt væri ekki hættulegt efni. Fyrir nefndinni og í umsögnum var þó bent á að áhrif nikótíns á ungt fólk með lítt mótað miðtaugakerfi væru ekki nægilega vel þekkt. Í ljósi þess telur nefndin fulla ástæðu til varfærni hvað aðgengi varðar. Þá voru þeir fræðimenn sem nefndin ræddi við sammála um að þó svo að rafrettur væru ekki jafn skaðlegar og reyktóbak væri ekki hægt að útiloka skaðsemi af nikótínnotkun, einkum hjá ungum notendum. Ekki verður þó horft fram hjá því að notkun rafrettna er skaðleg og um það voru fræðimenn sem nefndin ræddi við sammála, jafnvel þeir sem mæltu með notkun rafrettna til að draga úr tóbaksreykingum og notkun sígarettna.

Vernd barna.
    Ýmsir umsagnaraðilar benda á mikilvægi þess að vernda börn gegn því að ánetjast nikótíni og telja mikilvægt að stjórnvöld tryggi að börn geti ekki keypt rafrettur. Meiri hlutinn tekur undir þessar athugasemdir og leggur sérstaka áherslu á vernd barna í þessu samhengi. Bendir meiri hlutinn á að samkvæmt niðurstöðum rannsóknar meðal nemenda í 8.–10. bekk frá 2018 fer rafrettunotkun íslenskra grunnskólabarna vaxandi. Meiri hlutinn telur þetta ógnvænlega þróun og leggur til að við 1. gr. frumvarpsins bætist málsliður sem kveður á um að markmið laganna sé að tryggja með tiltækum ráðstöfunum að börn geti ekki keypt rafrettur.
    Þá er lagt til í umsögn Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins að í stað þess að vísað sé til einstaklinga yngri en 18 ára sé vísað til barna í því skyni að árétta þá áherslu sem leggja ætti á barnavernd. Með sömu rökum og að framan greinir tekur meiri hlutinn undir þessa ábendingu og leggur til breytingartillögu þess efnis.

Auglýsingar.
    Í 10. gr. frumvarpsins er kveðið á um bann við hvers konar auglýsingum á rafrettum eða áfyllingum. Í 1. tölul. 3. gr. er hugtakið „auglýsing“ skilgreint. Nokkrir umsagnaraðilar benda á nauðsyn þess að taka fram að auglýsingabann nái einnig til netsíðna og samfélagsmiðla. Meiri hlutinn tekur undir ábendinguna en telur ákvæði frumvarpsins nú þegar ná til þessara atriða.
    Fyrir nefndinni komu fram þau sjónarmið að með auglýsinga- og sýnileikabanni gæti verið hætta á að þeir sem gætu nýtt sér rafrettur sem aðstoðartæki til að hætta að reykja ættu erfiðara með það eða jafnvel ekki komist að því hvar væri hægt að nálgast vöruna. Nefndin tekur ekki undir þessi sjónarmið, en bendir á að markmiðið um að vernda aðallega börn og ungmenni náist fremur með slíkum takmörkunum.

Gjald í lýðheilsusjóð.
    Nokkrir umsagnaraðilar leggja til að hluti söluandvirðis rafrettna renni í lýðheilsusjóð til samæmis við 15. gr. laga um tóbaksvarnir, nr. 6/2002. Nefndin tekur undir þessa ábendingu og leggur til að 0,9% söluandvirðis rafrettna renni í lýðheilsusjóð, m.a. til að standa straum af kostnaði við reglubundna fræðslu um áhrif notkunar rafrettna á heilsu og kostnaði við eftirlit.

Bragðefni.
    Í 8. gr. frumvarpsins er kveðið á um bann við að flytja inn, framleiða eða selja rafrettur sem innhalda t.d. vítamín, koffín, tárín, efni sem lita losunina o.fl. Fyrir nefndinni kom fram sjónarmið um að þar sem bragðefni væru líkleg til að laða reykingamenn að vörunni og auka notkun hennar umfram reykingatóbak bæri að leyfa þau. Nefndin bendir þó á að þeir sérfræðingar sem sérstaklega tjáðu sig um þetta efni taka fram að bragðefnin eru hættulegustu efnin í gufunni.
    Þá kom fram fyrir nefndinni að mikilvægt væri að setja skorður við því að rafrettur geti innihaldið bragðefni sem einkum er ætlað að höfða til barna og ungmenna. Í ljósi áherslu frumvarpsins á vernd barna og ungmenna og þeirra áhættu sem bragðefni geta valdið telur meiri hlutinn skynsamlegast að unnt verði að takmarka notkun bragðefna sem höfða sérstaklega til barna og ungmenna.

Takmörkun á notkun rafrettna.
    Nokkrir umsagnaraðilar benda á að III. kafli frumvarpsins, um takmörkun á notkun rafrettna, gangi ekki eins langt og III. kafli laga um tóbaksvarnir, nr. 6/2002, og að samkvæmt frumvarpinu sé t.d. heimilt að nota rafrettur á veitingastöðum og skemmtistöðum. Leggja umsagnaraðilar því til að ákvæðinu verði breytt til samræmis við ákvæðið í lögum um tóbaksvarnir þannig að notkun rafrettna verði óheimil á fleiri stöðum en tilteknir eru í frumvarpinu. Meiri hlutinn tekur undir þessar athugasemdir en telur ekki nauðsynlegt að taka upp III. kafla laga um tóbaksvarnir í heild sinni heldur telur hann mikilvægt að bæta við banni við notkun rafrettna á veitingastöðum og skemmtistöðum. Leggur meiri hlutinn til að við 11. gr. bætist nýr stafliður þar að lútandi.

Eftirlit Neytendastofu.
    Í 12. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að Neytendastofa fari með markaðseftirlit með rafrettum og áfyllingum fyrir þær. Umsagnaraðilar benda á að ákvæðið sé óskýrt og að nauðsynlegt sé að skýra mun betur eftirlitshlutverk Neytendastofu. Þá benda aðrir umsagnaraðilar á að eðlilegra sé að heilbrigðisnefndir sveitarfélaga hafi eftirlit með rafrettum og áfyllingum fyrir þær, sbr. 17. gr. laga um tóbaksvarnir, nr. 6/2002. Nefndin tekur undir þessar athugasemdir en bendir á að í frumvarpinu er ekki lagt til að sérstakt leyfi þurfi fyrir sölu rafrettna og það geti því verið flókið í framkvæmd fyrir heilbrigðisnefndir að hafa slíkt eftirlit. Nefndin telur því fara best á því að Neytendastofa fari með eftirlitið en stofni samvinnunefnd um það, sbr. 16. gr. laga um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, nr. 134/1995.

Gildistaka.
    Félag atvinnurekenda bendir í umsögn sinni á að skv. 20. gr. frumvarpsins skuli lögin að taka gildi 1. desember 2018 en ákvæði 13. gr. skuli taka gildi 1. júní 2018. Sérstaklega hefur félagið áhyggjur af gildistöku 13. gr. frumvarpsins sem kveður á um að framleiðendur og innflytjendur rafrettna og áfyllinga fyrir þær, sem hyggjast setja rafrettur og áfyllingar á markað hér á landi, skuli senda Neytendastofu tilkynningu um slíkt sex mánuðum áður en markaðssetning er fyrirhuguð. Félagið bendir á að hvergi sé vikið að því í frumvarpinu hvernig tilkynningum varðandi þær vörur sem nú þegar séu á markaði skuli háttað. Að óbreyttu verði því sala þeirra óheimil við gildistöku ákvæðisins. Nefndin bendir á að samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins sé gerð krafa um tilkynningu til eftirlitsstofnunar sex mánuðum áður en markaðssetning nikótínvökva fyrir rafrettur er fyrirhuguð. Taka verður mið af því að sala vökva með nikótíni er nú ólöglega í sölu og því er nauðsynlegt að tilkynning um þær vörur berist sex mánuðum áður en markaðssetning þeirra er fyrirhuguð. Til að koma til móts við ábendingu Félags atvinnurekenda að einhverju leyti leggur nefndin til að breyta ákvæði 13. gr. þannig að það nái ekki til áfyllinga sem ekki innihalda nikótín. Nauðsynlegt er að seinka gildistöku laganna og leggur nefndin það til. Til að tryggja skýrleika leggur nefndin einnig til að í stað þess að ákvæði 13. gr. um tilkynningar framleiðenda og innflytjenda taki gildi sex mánuðum fyrir gildistöku laganna verði kveðið á um slíkt í bráðabirgðaákvæði, slík breyting er lagatæknilegs eðlis og er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 1. gr. bætist: og tryggja með tiltækum ráðstöfunum að börn geti ekki keypt rafrettur.
     2.      Á eftir 3. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                 A.m.k. 0,9% af brúttósölu rafrettna skal renna í lýðheilsusjóð, sbr. lög um landlækni og lýðheilsu.
     3.      Í stað orðanna „einstaklingum yngri en 18 ára“ í 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. komi: börnum.
     4.      Við 11. gr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: á veitinga- og skemmtistöðum.
     5.      Við 12. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Neytendastofa skal setja á stofn samvinnunefnd um samstarf við önnur eftirlitsstjórnvöld og skoðunarstofur til að fara með eftirlit með rafrettum og áfyllingum fyrir rafrettur, sbr. 16. gr. laga nr. 134/1995.
     6.      Á eftir orðunum „áfyllinga fyrir þær“ í 1. málsl. 1. mgr. 13. gr. komi: sem innihalda nikótín.
     7.      20. gr. orðist svo:
                 Lög þessi öðlast gildi 1. mars 2019.
     8.      Við bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                 Þrátt fyrir ákvæði 20. gr. skulu framleiðendur og innflytjendur rafrettna og áfyllinga fyrir þær sem innihalda nikótín, sem hyggjast setja rafrettur eða áfyllingar á markað hér á landi, senda Neytendastofu frá og með 1. september 2018 tilkynningu um það í samræmi við 13. gr. sex mánuðum áður en markaðssetning er fyrirhuguð.
                 Ákvæði 13. gr. eiga við eftir því sem við á, þar á meðal ákvæði 3. mgr. um gjaldtöku og 4. mgr. um birtingu upplýsinga.

    Vilhjálmur Árnason skrifar undir álitið með fyrirvara þar sem hann telur rétt að bíða með að setja ákvæði um hámarksstyrkleika áfyllinga þar til endanleg niðurstaða kemur um þau viðmið sem Evrópusambandið hyggst setja þar um. Mikilvægt sé einnig að horfa heildstætt á þessi atriði en að ekki sé horft til þess að setja sérlög um einstaka vímugjafa.
    Guðmundur Ingi Kristinsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Ásmundur Friðriksson var fjarverandi en ritar undir álit þetta í samræmi við 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 1. júní 2018.

Ólafur Þór Gunnarsson,
frsm.
Andrés Ingi Jónsson. Ásmundur Friðriksson.
Halla Signý Kristjánsdóttir. Vilhjálmur Árnason,
með fyrirvara.