Ferill 565. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1103  —  565. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 64/2006, með síðari breytingum (sýndarfé og stafræn veski).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hildi Dungal og Áslaugu Jósepsdóttur frá dómsmálaráðuneyti, Björk Sigurgísladóttur og Helgu Rut Eysteinsdóttur frá Fjármálaeftirlitinu, Hlyn Þór Björnsson frá Skiptimynt ehf. og Kristján Mikaelsson frá Rafmyntaráði. Nefndinni bárust erindi um málið frá dómsmálaráðuneyti, Fjármálaeftirlitinu, Jason Scott, Rafmyntaráði, ríkisskattstjóra, Seðlabanka Íslands og Skiptimynt ehf.
    Tilgangur frumvarpsins er að fella aðila sem bjóða upp á þjónustu þar sem viðskipti geta farið fram milli sýndarfjár, rafeyris og gjaldeyris og þjónustu með stafræn veski undir lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 64/2006, og gera þannig veitendum slíkrar þjónustu skylt að tilkynna yfirvöldum um atvik þar sem grunur leikur á að sýndarfjárviðskiptum sé ætlað að þvætta peninga eða fjármagna hryðjuverk í samræmi við ákvæði laganna. Með frumvarpinu er brugðist við örum vexti þess geira sem efni þess tekur til og því að dæmi þekkjast um notkun hans í annarlegum tilgangi. Frumvarpið er samið í samvinnu við nefnd sem vinnur að innleiðingu fjórðu peningaþvættistilskipun Evrópusambandsins og eru ákvæði þess unnin með hliðsjón af drögum að fimmtu peningaþvættistilskipuninni. Hluti þeirrar gagnrýni sem beinst hefur að efni frumvarpsins í meðförum nefndarinnar lýtur að því að skilgreiningar hugtaka í 2. gr. séu ýmist of rúmar eða ófullkomnar að öðru leyti. Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu var leitast við að hafa skilgreiningu hugtaka í samræmi við drög að fimmtu peningaþvættistilskipuninni. Nefndin hefur ekki forsendur til að leggja til breytingar en hvetur til að auga verði haft með örri þróun á sviði sýndarfjár og stafrænna veskja og að skilgreiningar hugtaka verði endurskoðaðar reynist tilefni til þess.
    Samkvæmt 7. gr. frumvarpsins bætast þjónustuveitendur sýndarfjárviðskipta og stafrænna veskja við upptalninguna í 2. mgr. 5. gr. laga um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 99/1999, en aðilar sem þar eru taldir upp skulu greiða 700.000 kr. fast árgjald fyrir opinbert eftirlit. Nefndinni hefur verið bent á að mörg af þeim fyrirtækjum sem fáist við þjónustu af því tagi sem hér um ræðir séu lítil sprotafyrirtæki með fáa starfsmenn og að gjald af þessari fjárhæð gæti reynst þeim mjög íþyngjandi. Nefndin telur að almennt beri að virða þá meginreglu að þeir sem sæta eftirliti á fjármálamarkaði skuli standa straum af kostnaði við eftirlitið. Þrátt fyrir það telur nefndin mikilvægt að leggja ekki stein í götu lítilla fyrirtækja sem eru að stíga sín fyrstu skref á markaði þar sem ör tækniþróun og nýsköpun ráða ríkjum, einkum þegar ekki liggur fyrir hver raunverulegur kostnaður af eftirlitinu verður. Leggur nefndin því til að 7. gr. frumvarpsins falli brott að sinni og nánar verði ígrundað hvernig greiðslu kostnaðar fyrir það viðbótareftirlit sem lagt er á Fjármálaeftirlitið með frumvarpi þessu verði háttað þar sem tekið verði tillit til umfangs og raunkostnaðar við eftirlitið og fjárhagslegs bolmagns þeirra aðila sem í hlut eiga.
    Að framansögðu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Fyrri málsliður efnismálsgreinar 5. gr. orðist svo: Þjónustuveitendur sem við gildistöku þessa ákvæðis bjóða upp á viðskipti milli sýndarfjár, rafeyris og gjaldmiðla og þjón ustu veitendur stafrænna veskja skulu óska eftir skráningu hjá Fjármálaeftirlitinu samkvæmt lögum þessum eigi síðar en einum mánuði frá gildistöku þessa ákvæðis.
     2.      7. gr. falli brott.

    Ólafur Ísleifsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, styður þetta nefndarálit.
    Þorsteinn Víglundsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir nefndarálitið samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda.

Alþingi, 5. júní 2018.

Óli Björn Kárason,
form.
Brynjar Níelsson,
frsm.
Þorsteinn Víglundsson.
Bryndís Haraldsdóttir. Oddný G. Harðardóttir. Ólafur Þór Gunnarsson.
Karl Liljendal Hólmgeirsson. Ásgerður K. Gylfadóttir.