Ferill 293. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1104  —  293. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um bann við tilteknum frammistöðubætandi efnum og lyfjum.

Frá minni hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur haft til umfjöllunar frumvarp heilbrigðisráðherra um bann við tilteknum frammistöðubætandi efnum og lyfjum. Málið var áður flutt á 146. löggjafarþingi og hefur nú verið lagt fram að nýju með minni háttar breytingum. Við meðferð málsins á 146. löggjafarþingi var af hálfu velferðarnefndar lagt fram framhaldsnefndarálit með breytingartillögu þar sem lagðar voru til tilteknar breytingar. Allir nefndarmenn skrifuðu undir það nefndarálit en málið varð þá ekki afgreitt. Fram kemur í greinargerð með frumvarpinu sem hér er til umfjöllunar að tekið hafi verið tillit til þeirra breytinga sem lagðar voru fram í framhaldsnefndarálitinu. Minni hlutinn vill þó árétta að einungis hefur verið brugðist að hluta við þeim breytingartillögum sem lagðar voru fram. Þannig sé búið að auka vægi fræðslu og forvarna í samræmi við fyrra álit nefndarinnar. Minni hlutinn fagnar því að vægi fræðslu og forvarna hafi verið aukið. Þá hafi einnig verið komið til móts við aðrar breytingartillögur nefndarinnar varðandi saknæmisskilyrði og heimild til upptöku haldlagðra efna. Hins vegar hefur ekki verið komið til móts við sjónarmið um refsileysi neysluskammta. Ástæða þess er sögð sú að skilgreining á hugtakinu dagskammti liggi ekki fyrir. Þá geti dagskammtur verið breytilegur eftir tegund efnis eða lyfs sem og eftir líkamlegu ástandi þess sem neytir umrædds efnis eða lyfs. Minni hlutinn lýsir vonbrigðum yfir afstöðu velferðarráðuneytisins og yfir viljaleysi þess til að mæta áhyggjum og athugasemdum nefndarinnar.
    Fyrir nefndinni var rætt um refsileysi vörslu neysluskammta en umræða um það málefni fór fram bæði á 146. og 148. löggjafarþingi. Minni hlutinn leggur áherslu á að varsla neysluskammta verði ekki gerð refsiverð. Umræða var uppi um hver mörk refsinæmis ættu að vera og telur minni hlutinn eðlilegt að miða slíkt mark við 10 dagskammta. Því er lagt til að varsla og meðferð efna og lyfja sem ákvæði frumvarpsins ná til verði ekki refsiverð nema haldlagt magn efna sé umfram 10 dagskammta. Í ljósi skilyrðis stjórnarskrárinnar um skýrleika refsiheimilda er mikilvægt að skýrt sé hver dagskammtur hvers efnis er og leggur minni hlutinn því til að ráðherra skilgreini í reglugerð hvað teljist dagskammtur þeirra efna og lyfja sem tilgreind eru í frumvarpinu. Til að tryggja skýrleika leggur minni hlutinn einnig til að þetta ákvæði taki ekki gildi fyrr en 1. janúar 2019. Með því gefst ráðherra nægur tími til að setja reglugerð.
    Það skal tekið fram að með framangreindri breytingu verður refsileysi aðeins tryggt fyrir neytendur. Þannig verður refsileysi aðeins tryggt þeim sem hefur efnin í sinni vörslu þegar þau eru ætluð til eigin neyslu. Sölu- og dreifiaðilar munu áfram bera refsiábyrgð ef efnin eru ekki ætluð til þeirra eigin neyslu, jafnvel þó að magn efnanna sé lítið. Mikilvægt er að tryggja að mögulegt sé að framfylgja banni við innflutningi, útflutningi, sölu, kaupum, skiptum, afhendingu, móttöku og framleiðslu á frammistöðubætandi efnum og lyfjum sem og banni við vörslu þeirra í ljósi þess að samvinna er þegar hafin milli íþróttahreyfingarinnar og líkamsræktarstöðva.
    Minni hlutinn leggur áherslu á þversögnina sem felst í því að festa í lög frekari refsiheimildir gagnvart neytendum ólöglegra efna og lyfja á sama tíma og annars staðar í heilbrigðiskerfinu er unnið að skaðaminnkandi úrræðum. Lögfesting á reglum sem fela í sér refsiheimildir gagnvart neytendum ólöglegra efna og lyfja mun ekki leiða til þess að neysla á efnunum minnki, eins og dæmin hafa margsinnis sannað.
    Minni hlutinn leggur til að málið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Á eftir 5. mgr. 4. gr. komi ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Varsla eða meðferð efna og lyfja skv. 2. gr. skal aðeins vera refsiverð þegar haldlagt magn efna er umfram það sem talist geta 10 dagskammtar og efnin eru ætluð til eigin neyslu. Ráðherra skal skilgreina í reglugerð hvað telst dagskammtur þeirra efna og lyfja sem lög þessi fjalla um.
     2.      Við 6. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þó skal 6. mgr. 4. gr. ekki öðlast gildi fyrr en 1. janúar 2019.

Alþingi, 4. júní 2018.

Halldóra Mogensen,
form., frsm.
Anna Kolbrún Árnadóttir. Guðmundur Ingi Kristinsson.