Ferill 202. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1159  —  202. mál.

2. umræða.


Framhaldsnefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin tók málið til umfjöllunar að nýju. Nefndin hefur yfirfarið breytingartillögur meiri og minni hluta og ákveðið að leggja fram nokkrar til viðbótar í ljósi frekari umræðu.
    Nefndin ræddi styrkleika og stærð áfyllinga fyrir rafrettur. Þau sjónarmið komu fram að ákvæði frumvarpsins um skammtastærðir væru of íþyngjandi. Nefndin bendir á að endurskoðun á skammtastærðum standi yfir hjá Evrópusambandinu og því líklegt að gerðar verði breytingar á Evrópureglum um þetta efni sem mundi kalla á lagabreytingar hér á landi við upptöku gerðanna í EES-samninginn. Leggur nefndin því til að ákvæði um hámarksstærðir í 7. gr. falli brott en ráðherra verði falið að kveða á um það í reglugerð. Nefndin leggur áherslu á að við setningu reglugerðar verði gætt meðalhófs við að takmarka stærðir áfyllinga og tanka. Þá skuli haft að leiðarljósi að kostnaður fyrir neytendur sé ekki aukinn umfram nauðsyn, að gætt sé að umhverfissjónarmiðum og að alþjóðlegar skuldbindingar Íslands séu uppfylltar.
    Fram komu sjónarmið að bragðefni væru líkleg til að laða reykingamenn að vörunni og auka notkun hennar umfram reykingatóbak. Bragðefni í rafrettum geta þó höfðað sérstaklega til barna og telur nefndin mikilvægt að takmarkanir verði settar á markaðssetningu í ljósi þessa. Leggur nefndin því til að ráðherra verði heimilt að takmarka markaðssetningu bragðefna sem og umbúða í rafrettum sem höfða sérstaklega til barna.
    Nefndin leggur einnig til breytingu á a-lið 11. gr. sem tekur mið af sjónarmiðum minni hlutans, sbr. þingskjal 1127. Þar kemur fram að ekki séu skýrar rannsóknir sem benda til að skaði geti hlotist af innöndun reyks úr rafrettum. Leggur minni hlutinn því til að bann við notkun rafrettna eigi ekki við í þjónusturýmum fyrirtækja og félagasamtaka eins og lagt er til í frumvarpinu. Nefndin leggur nú til að umrætt bann nái til þjónusturýma opinberra stofnana og félagasamtaka, en ekki til þjónusturýma fyrirtækja.
    Nefndin leggur til að málið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Í stað 2. og 3. mgr. 7. gr. komi ein málsgrein, svohljóðandi:
                 Ráðherra skal í reglugerð setja reglur um stærð áfyllinga og hylkja í ml, hvort heldur er einnota eða margnota.
     2.      Við 8. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Ráðherra er heimilt í reglugerð að takmarka markaðssetningu bragðefna í rafrettum, einkum með tilliti til bragðefna sem kunna að höfða til barna. Ráðherra er einnig heimilt í reglugerð að segja til um útlit umbúða í því skyni að gera vöruna ekki aðlaðandi fyrir börn.
     3.      A-liður 11. gr. orðist svo: í þjónusturýmum opinberra stofnana og félagasamtaka.

    Hanna Katrín Friðiksson, áheyrnarfulltrúi Viðreisnar, lýsir sig samþykka áliti þessu.

Alþingi, 7. júní 2018.

Halldóra Mogensen,
form.
Ólafur Þór Gunnarsson,
frsm.
Andrés Ingi Jónsson.
Anna Kolbrún Árnadóttir. Ásmundur Friðriksson. Guðjón S. Brjánsson.
Guðmundur Ingi Kristinsson. Halla Signý Kristjánsdóttir. Vilhjálmur Árnason.