Ferill 455. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1183  —  455. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna alþjóðasamþykktar um vinnuskilyrði farmanna.

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Björn Frey Björnsson frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, Jón Rúnar Pálsson og Bergþóru Halldórsdóttur frá Samtökum atvinnulífsins og Jón Kristin Sverrisson frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtökum ferðaþjónustunnar og Sjómannafélagi Íslands. Þá barst nefndinni minnisblað frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu.
    Með frumvarpinu eru reglur samþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um vinnuskilyrði farmanna (e. Maritime Labour Convention – MLC) færðar í íslenskan rétt svo að íslenska ríkinu sé unnt að standa við alþjóðaskuldbindingar sínar um fullgildingu samþykktarinnar.

Farmenn og sjómenn.
    Við vinnslu málsins komu fram þau sjónarmið að með frumvarpinu væri gengið lengra en þörf væri á með hliðsjón af alþjóðasamþykkt um farmenn, þ.e. að gera þyrfti skýran greinarmun á farmönnum og fiskimönnum. Sérstaklega var bent á 2., 6. og 13. gr. Í þessu sambandi vekur nefndin athygli á að í 5. kafla greinargerðar með frumvarpinu er sérstaklega fjallað um framangreindar athugasemdir og tiltekið að ekki sé talið að umrædd ákvæði séu íþyngjandi fyrir sjómenn. Í ljósi þessara athugasemda telur nefndin þó rétt að árétta það sem fram kemur í 6. kafla greinargerðar með frumvarpinu um að með því sé fyrst og fremst leitast við að tryggja farmönnum þau réttindi sem kveðið er á um í samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um vinnuskilyrði farmanna en frumvarpið hefur vissulega einnig áhrif á fiskimenn að því marki sem breytingar eru lagðar til á sjómannalögum, nr. 35/1985, en gildissvið þeirra laga nær til allra sjómanna sem starfa á íslenskum skipum. Nefndin bendir á í því samhengi að á 96. þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar í Genf árið 2007 var gengið frá samþykkt um vinnu við fiskveiðar (e. Work in Fishing Convention) og var Ísland meðal þátttakenda á þinginu en samþykktin hefur ekki verið fullgilt af hálfu Íslands. Í samþykktinni eru ákvæði sem ætlað er m.a. að tryggja að starfsmenn á sviði fiskveiða njóti aukins öryggis og heilbrigðis við vinnu og læknishjálpar á sjó og að veikir eða slasaðir sjómenn á fiskiskipum fái umönnun í landi, fái nægilega hvíld þeim til heilsuverndar og öryggis, njóti verndar í krafti starfssamninga og njóti sömu almannatryggingaverndar og aðrir starfsmenn. Í ljósi efnis þeirrar samþykktar og hversu áþekk hún er alþjóðasamþykkt um vinnuskilyrði farmanna er eðlilegt að sumar breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu nái einnig til fiskimanna en ekki eingöngu farmanna.
    Að höfðu samráði við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið telur nefndin þær breytingar í frumvarpinu sem taka bæði til farmanna og fiskimanna ekki umtalsverðar og ekki til þess fallnar að hafa stórvægileg áhrif á vinnusamband fiskimanna og útgerðarmanna enda í mörgum tilvikum um að ræða reglur sem gilda á sviði vinnuréttar.

Hvalaskoðunar- og útsýnisferðaskip.
    Einnig kom fram það sjónarmið að hugtakið farmaður í samþykktinni taki ekki til skipverja sem starfa á hvalaskoðunar- og útsýnisferðaskipum sem sigla stuttar ferðir frá landi eða á skoðunarbátum sem notaðir eru til siglinga á vötnum, ám og lónum á landi. ILO-samþykktin taki auk þess ekki til skipa sem eru minni en 500 brúttótonn og eru ekki í alþjóðlegum siglingum, en verði frumvarpið óbreytt að lögum taka ákvæði frumvarpsins til allra báta sem einungis eru notaðir til stuttra ferða og eru undir þyngdarviðmiðum samþykktarinnar. Á það var bent að ákvæði 6.–12. gr. frumvarpsins eigi ekki að taka til hvalaskoðunar- og útsýnisbáta. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið og leggur til að nýrri málsgrein verði bætt við 12. gr. frumvarpsins til að bregðast við þessum sjónarmiðum. Nefndin áréttar að hvergi verði þó slegið af öryggiskröfum starfsmanna á minni bátum.

Orlof.
    Fram komu sérstakar athugasemdir við ákvæði a-liðar 9. gr. um 2,5 daga orlofsrétt. Var á það bent að ósamræmi væri á milli enskrar útgáfu samþykktarinnar og íslenskrar þýðingar auk þess sem bent er á að ákvæðið sé í raun óþarft þar sem gildandi lög um orlof, nr. 30/1987, tryggi þau réttindi sem kveðið er á um í samþykktinni. Nefndin er ekki sammála því sjónarmiði að umrætt ákvæði sé óþarft enda mikilvægt að kveðið sé á um lágmarksréttindi, bann við samningum um niðurfellingu launaðs lágmarksorlofs og heimild ráðherra til reglusetningar einkum ef breytingar verða gerðar á orlofslögum, nr. 30/1987. Nefndin telur þó rétt að gera breytingu á 1. mgr. ákvæðisins til að koma til móts við þessi sjónarmið.
    Í ljósi framangreindrar umfjöllunar leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      1. málsl. a-liðar 9. gr. (7. gr. C) orðist svo: Um orlof skipverja fer eftir lögum um orlof, nr. 30/1987, en skal þó aldrei vera minna en 2,5 almanaksdagar fyrir hvern unninn mánuð á síðasta orlofsári nema kveðið sé á um annað viðmið í reglugerð sem tekur mið af sérstökum þörfum farmanna.
     2.      Við 12. gr. bætist nýr liður, svohljóðandi: Við 17. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Ráðherra getur með reglugerð undanskilið ákvæðum laganna eða gert vægari kröfur vegna áhafna sem starfa á skipum sem eru minni en 500 brúttótonn eða eru ekki í alþjóðlegum siglingum.

    Jón Gunnarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.
    Karl Gauti Hjaltason var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 8. júní 2018.

Bergþór Ólason,
form.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir,
frsm.
Ari Trausti Guðmundsson.
Guðjón S. Brjánsson. Hanna Katrín Friðriksson. Jón Gunnarsson.
Líneik Anna Sævarsdóttir. Vilhjálmur Árnason.