Ferill 648. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1185  —  648. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðigjald, nr. 74/2012 (veiðigjald 2018).

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið. Nefndin telur óheppilegt hversu seint henni bárust viðeigandi upplýsingar til að leggja fram frumvarp um breytingar á lögum um veiðigjald sem ljóst hefur verið að þyrfti að koma fram þar sem gildandi lög renna úr gildi við lok þessa fiskveiðiárs hvað varðar þær tegundir sem er stjórnað samkvæmt fiskveiðiári.
    Með frumvarpinu er lagt til að veiðigjald fiskveiðiársins 2017/2018 verði framlengt óbreytt og gildi út almanaksárið.
    Í því skyni að ná samkomulagi um þinglok telur meiri hlutinn rétt að ræða þær breytingar sem kveðið var á um í frumvarpi meiri hlutans (631. mál) á haustþingi. Þær breytingar sem lagðar eru til í 631. máli eru grundvallarbreytingar þar sem veiðigjöld verða afkomutengd og færð nær rauntíma. Ljóst er að afkomutenging og það að færa útreikninga nær rauntíma mun hafa áhrif á upphæð innheimtra veiðigjalda í samræmi við afkomu greiðenda veiðigjalda hverju sinni.
    Mikilvægt er að við undirbúning nýs frumvarps sjávarútvegsráðherra um veiðigjald verði horft til afkomu greinarinnar og sérstaklega lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem mörg hver hafa átt í erfiðleikum með að takast á við versnandi rekstrarskilyrði. Meiri hlutinn telur brýnt að horft verði til afkomutengdra veiðigjalda í rauntíma og sérstaks þrepaskipts afsláttar sem skili sér fyrst og fremst til lítilla og meðalstórra fyrirtækja í vinnu við heildarendurskoðun veiðigjalda sem bíður þingsins í haust.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 8. júní 2018.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form., frsm.
Halla Signý Kristjánsdóttir. Ásmundur Friðriksson.
Kolbeinn Óttarsson Proppé. Njáll Trausti Friðbertsson.