Ferill 111. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1187  —  111. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um farþegaflutninga og farmflutninga á landi, nr. 28/2017 (leyfisskyldir farþegaflutningar).

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Björn Frey Björnsson og Ástu Sóllilju Sigurbjörnsdóttur frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, Bergþóru Halldórsdóttur frá Samtökum atvinnulífsins, Ómar Smára Ármannsson og Sigurð Pétur Ólafsson frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og Gunnar Val Sveinsson frá Samtökum ferðaþjónustunnar. Þá ræddi nefndin við Svein Kristján Rúnarsson frá Lögreglunni á Suðurlandi í síma.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Backroads, Lögreglunni á Suðurlandi og Samtökum atvinnulífsins. Þá barst nefndinni minnisblað frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á orðalagi 9. og 10. gr. laganna í því skyni að taka af allan vafa um að aðilum sem hyggjast stunda farþegaflutninga í ferðaþjónustu með bifreiðum sem rúma færri en níu farþega eða sérútbúnum bifreiðum sé skylt að hafa leyfi Samgöngustofu auk almenns rekstrarleyfis. Þá er ferðaþjónustuleyfi gert gjaldskylt.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið þess efnis að lögregla hefði ekki treyst sér til að beita refsingum fyrir brot gegn ákvæðum 9. og 10. gr. laganna þar sem ákvæðin uppfylltu ekki kröfur um skýrleika refsiheimilda. Orðalag greinanna geti valdið misskilningi um hvort aðilum sem hyggjast stunda farþegaflutninga í skilningi ákvæðanna sé skylt að hafa leyfi eða hvort um sé að ræða heimildarákvæði Samgöngustofu án þess að í því felist sérstakar kvaðir á rekstraraðila. Nefndin leggur áherslu á mikilvægi þess að refsiheimildir séu skýrar og telur frumvarpið að þessu leyti mjög til bóta.
    Nefndin bendir á að akstur án endurgjalds, sem fer fram í tengslum við þjónustu sem er veitt, er enn leyfður líkt og fyrir setningu laganna 2017 og er ekki gerð krafa um ferðaþjónustuleyfi í þeim tilvikum. Dæmi um slíkt er boð hótels um að skutla gestum sínum á flugvöll eða samgöngumiðstöð og bifreiðaverkstæði eða bílaumboð sem býðst til að keyra viðskiptavini sína aftur til vinnu meðan bifreiðin er í viðgerð. Viðskiptavinurinn hefur val um hvort hann þiggur boðið og hefur það ekki áhrif á verð þeirrar þjónustu sem hann er að kaupa, t.d. hótelgistingu eða viðgerð á bíl.
    Gerðar voru athugasemdir við að undanþáguheimild í 5. mgr. 1. gr. reglugerðar EB nr. 1071/2009, sem fjallar um sameiginlegar reglur varðandi skilyrði sem uppfylla þarf til þess að mega starfa sem flutningsaðili á vegum og er undirstaða þeirra skilyrða sem flutningsaðilum er gert að uppfylla í lögum nr. 28/2017, væri ekki nýtt til að undanþiggja alla farmflutninga innan lands ákvæðum reglugerðarinnar og þannig ákvæðum laga nr. 28/2017 um leyfisveitingu, eftirlit og viðurlög. Skv. 5. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar er heimild til að veita tilteknum flutningsaðilum undanþágu frá ákvæðum gerðarinnar bundin annars vegar við eðli varanna og hins vegar stuttar vegalengdir en gert er ráð fyrir þessari undanþágu í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 28/2017. Þá er í 3. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 474/2017 gert ráð fyrir að tilteknir farmflutningar séu undanþegnir leyfisskyldu vegna eðlis þeirra vara sem fluttar eru. Varðandi undanþágu á grundvelli stuttra vegalengda tekur nefndin undir sjónarmið samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins þar að lútandi. Vegalengdir geta verið talsverðar hér á landi auk þess sem altæk undanþága á grundvelli stuttra vegalengda leiðir í raun til þess að beiting reglugerðarinnar hér á landi verður útilokuð. Slík undanþága hefði kallað á aðlögun við upptöku gerðarinnar í EES-samninginn en engin slík aðlögun var gerð. Þá er ekki vitað til þess að nokkurt aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins hafi undanþegið alla innanlandsflutninga gildissviði reglugerðarinnar. Í tengslum við þinglega meðferð frumvarpsins sem varð að lögum nr. 28/2017 hafði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið óformlegt samráð við eftirlitsstofnun EFTA en það samráð staðfesti skilning ráðuneytisins að ekki væru forsendur til þess að undanþiggja innanlandsflutninga ákvæðum reglugerðarinnar.
    Nefndinni bárust athugasemdir þess efnis að ákvæði 10. gr. um ferðaþjónustuleyfi, bæði núgildandi og með þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu, samrýmdist ekki þjónustutilskipun 2006/123/EB þar sem ákvæðið gerði m.a. kröfu um að umsækjandi leyfisins þurfi að hafa starfsstöð hér á landi. Nefndin bendir á að aðilar sem eru stofnsettir í samræmi við reglur eins aðildarríkja EES hafa heimild til að veita tímabundna þjónustu hér á landi en það er stjórnvalda að meta hverju sinni hvort þjónusta telst vera tímabundin.
    Reglur um farþegaflutninga með fólksbílum eru ekki samræmdar á Evrópska efnahagssvæðinu og telur nefndin eðlilegt að aðilar með viðamikla starfsemi hér á landi við ýmsar aðstæður, t.a.m. á hálendi og erfiðum vegum, sem taka virkan þátt á markaði í samkeppni við íslensk fyrirtæki þurfi að uppfylla ákveðin grunnskilyrði óháð því hvort þeir séu með staðfestu á Íslandi eða í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu. Það sé til þess fallið að tryggja öryggi neytenda og tryggja jafna samkeppnisstöðu á markaðnum án þess að útiloka erlenda aðila frá aðkomu að markaðnum. Leggur nefndin því til að bætt verði við 10. gr. laganna ákvæði um að Samgöngustofu sé heimil útgáfa ferðaþjónustuleyfa til aðila sem stofnsettir eru á Evrópska efnahagssvæðinu þrátt fyrir skilyrði 4. tölul. 1. mgr. 5. gr. enda séu önnur skilyrði laganna uppfyllt.
    Að teknu tilliti til framangreinds leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi:

BREYTINGU:


    Við 2. gr. bætist nýr liður, svohljóðandi: Á eftir 2. mgr. 10. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Samgöngustofu er heimil útgáfa ferðaþjónustuleyfis samkvæmt ákvæði þessu til aðila sem stofnsettir eru á Evrópska efnahagssvæðinu þrátt fyrir skilyrði 4. tölul. 1. mgr. 5. gr., enda séu önnur skilyrði laga þessara uppfyllt.

    Jón Gunnarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

    Alþingi, 8. júní 2018.

Bergþór Ólason,
form.
Vilhjálmur Árnason,
frsm.
Ari Trausti Guðmundsson.
Guðjón S. Brjánsson. Hanna Katrín Friðriksson. Jón Gunnarsson.
Líneik Anna Sævarsdóttir. Rósa Björk Brynjólfsdóttir.