Ferill 263. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1188  —  263. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um siglingavernd og lögum um loftferðir (laumufarþegar, bakgrunnsathuganir o.fl.).

(Eftir 2. umræðu, 8. júní.)


I. KAFLI

Breyting á lögum um siglingavernd, nr. 50/2004, með síðari breytingum.

1. gr.

    Við 3. gr. laganna bætast sex nýir töluliðir, svohljóðandi:
     10.      Aðgangsheimild: Ákvörðun Samgöngustofu um að einstaklingi sé heimill aðgangur að viðkvæmum upplýsingum og/eða haftasvæðum hafi hann hlotið jákvæða umsögn lögreglu við bakgrunnsathugun.
     11.      Bakgrunnsathugun: Athugun lögreglu á því hver viðkomandi einstaklingur sé og skoðun lögregluupplýsinga um hann, m.a. um sakaferil, þ.m.t. hvort hann eigi afbrotaferil að baki. Athugunin er liður í mati á því hvort óhætt sé að veita einstaklingnum jákvæða umsögn og Samgöngustofu sé þar með unnt að veita honum aðgang að haftasvæðum og/eða viðkvæmum upplýsingum.
     12.      Trúnaðarupplýsingar/viðkvæmar upplýsingar: Upplýsingar sem gæta þarf sérstaks trúnaðar um.
     13.      Öryggishæfi: Hæfi einstaklings, stofnunar, fyrirtækis, svæðis eða búnaðar til að hljóta öryggisvottun.
     14.      Höfn: Tiltekið landsvæði og hafsvæði skilgreint af Samgöngustofu þar sem fram fer vinna og búnað er að finna sem er hannaður til að greiða fyrir flutningastarfsemi á sviði sjóflutninga í atvinnuskyni.
     15.      Haftasvæði: Svæði sem sætir aðgangstakmörkun í samræmi við verndaráætlun.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      7. mgr. fellur brott.
     b.      Í stað orðanna „Tollstjórinn í Reykjavík“ í 1. málsl. 9. mgr. kemur: Tollstjóri.
     c.      Í stað orðanna „Tollstjórar“ og „setja“ í 2. málsl. 9. mgr. kemur: Tollstjóri; og: setur.

3. gr.

    Á eftir 4. gr. laganna kemur ný grein, 4. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Athugasemdir og úrbætur.

    Telji Samgöngustofa að eftirlitsskyldur aðili, þ.m.t. útgerð, skipafélag eða hafnaryfirvöld, fylgi ekki lögum, reglugerðum og öðrum reglum eða kröfum sem gilda um starfsemi hans og varða málefni tengd siglingavernd, svo sem við gerð áhættumats eða verndaráætlunar, aðstöðu eða framkvæmd á siglingavernd, skal stofnunin krefjast þess að viðeigandi úrbætur séu gerðar innan hæfilegs frests.
    Um málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.
    Ákvörðun Samgöngustofu sætir kæru til ráðherra samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.

4. gr.

    Í stað orðanna „Tollstjórinn í Reykjavík“ í 1. og 2. mgr. 7. gr. og 2. mgr. 9. gr., orðanna „Tollstjórar hafa“ í 1. mgr. 7. gr., orðanna „tollstjórans í Reykjavík“ í 1. mgr. 7. gr. og orðsins „tollstjórar“ í 2. mgr. 9. gr. laganna kemur: Tollstjóri; Tollstjóri hefur; tollstjóra; og: tollstjóri.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „hafnarsvæðum“ kemur: hafnaraðstöðu.
     b.      Í stað orðsins „svæðum“ kemur: haftasvæðum.
     c.      Við bætast þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                 Án heimildar hafnaryfirvalda er einstaklingi óheimilt að fara inn á höfn, hafnaraðstöðu eða hluta haftasvæða, nema annað leiði af ákvæðum annarra laga.
                 Án heimildar hafnaryfirvalda, skipstjóra, eiganda skips eða útgerðarfélags er einstaklingi óheimilt að fara um borð í skip, taka sér far með skipi eða gera tilraun til þess að ferðast sem laumufarþegi með skipi í eða úr íslenskri lögsögu.
                 Ráðherra er heimilt að kveða á um það í reglugerð, samkvæmt tillögu ríkislögreglustjóra ef vástig er hækkað vegna ógnar við allsherjarreglu, að stjórnendur skipa skuli áður en farþegi fer um borð í skip ganga úr skugga um að skráður farþegi sé sá sem hann segist vera, að hann hafi gild ferðaskilríki eða annað kennivottorð sem viðurkennt er sem ferðaskilríki og að farþegi sem er áritunarskyldur hafi gilda vegabréfsáritun til landsins.
     d.      Fyrirsögn greinarinnar verður svohljóðandi: Aðgangur að hafnaraðstöðu.

6. gr.

    Á eftir 8. gr. laganna kemur ný grein, 8. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Aðgangur að upplýsingum og haftasvæðum.

    Áður en Samgöngustofu er heimilt að veita einstaklingi aðgang að viðkvæmum upplýsingum um siglingavernd, heimila honum að sækja námskeið í siglingavernd eða veita honum aðgang að haftasvæðum skv. 8. gr., vegna umsóknar um starf í þágu ríkisins á sviði siglingaverndar, svo sem starf verndarfulltrúa, viðurkennds verndaraðila eða öryggisvottaðs ráðgjafa, skal stofnunin, viðkomandi hafnaryfirvöld, skipafélag, útgerð eða annar sá aðili sem krafist er að hafi slíkan starfsmann í starfi, að fengnu skriflegu samþykki viðkomandi einstaklings, óska eftir bakgrunnsathugun lögreglu í þeim tilgangi að meta öryggishæfi viðkomandi til aðgangs að viðkvæmum upplýsingum og/eða haftasvæðum. Í tilkynningu um niðurstöðu bakgrunnsathugunar lögreglu til Samgöngustofu skal einungis koma fram hvort einstaklingur hafi hlotið jákvæða eða neikvæða umsögn. Beiðni um bakgrunnsathugun skal rita á eyðublað sem ríkislögreglustjóri ákveður í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur. Þegar um er að ræða einstakling sem sækist eftir starfi hafnargæslumanns og starfið krefst aðgangs að viðkvæmum upplýsingum skal jafnframt krefjast bakgrunnsathugunar lögreglu.
    Beiðni aðila skv. 1. mgr. veitir lögreglu heimild, eftir atvikum með aðstoð tollyfirvalda, til að afla upplýsinga um viðkomandi úr:
     a.      skrám lögreglu, þ.m.t. málaskrá lögreglu,
     b.      sakaskrá,
     c.      upplýsingakerfi Alþjóðalögreglunnar eða annarra erlendra yfirvalda,
     d.      upplýsingakerfum tollyfirvalda,
     e.      upplýsingakerfi þjóðskrár.
    Heimild lögreglu til öflunar upplýsinga skv. a-lið 2. mgr. takmarkast við síðustu fimm ár.
    Bakgrunnsathugun skal fara fram með reglulegu millibili og ekki sjaldnar en á fimm ára fresti. Aldrei má þó ganga lengra við könnun á bakgrunni og sakaferli en þörf er á hverju sinni. Lögregla skal leggja heildstætt mat á það hvort óhætt sé að veita jákvæða umsögn að undangenginni bakgrunnsathugun skv. 1. mgr.
    Heimilt er að vísa til upplýsinga úr málaskrá lögreglu, sem varða einstakling með beinum hætti, til rökstuðnings neikvæðri umsögn samkvæmt þessari grein enda gefi þær rökstudda ástæðu til að draga í efa hæfi einstaklingsins til að fara með málefni siglingaverndar lögum samkvæmt. Lögreglu er heimilt að kalla umsækjanda til viðtals telji hún það nauðsynlegt til að upplýsa nánar um atriði sem koma fram við skoðun í skrám og upplýsingakerfum skv. 2. mgr.
    Nú gefa upplýsingar úr málaskrá lögreglu, sakavottorði til yfirvalda eða viðtali við þann sem óskað er bakgrunnsathugunar á ástæðu til að ætla að viðkomandi neyti fíkniefna og er lögreglu þá heimilt að óska eftir því að hann gangist undir fíkniefnapróf á eigin kostnað, þ.m.t. blóð- og þvagrannsókn, enda telji lögregla niðurstöðu slíkrar rannsóknar geta haft áhrif á niðurstöðu athugunar lögreglu.
    Bakgrunnsathugun lögreglu er liður í því að ákvarða hvort óhætt þyki að veita einstaklingi aðgang að trúnaðarupplýsingum samkvæmt þessari grein eða veita honum aðgang að haftasvæðum skv. 8. gr. eða hvort honum skuli synjað um hann. Endanleg ákvörðun um aðgang skal tekin af Samgöngustofu, sbr. þó 10. mgr.
    Áður en lögregla lýkur athugun sinni með neikvæðri umsögn skal þeim sem athugun beinist að gert kleift að koma sjónarmiðum sínum að. Hann á jafnframt rétt á rökstuðningi ákvarði lögregla að veita honum neikvæða umsögn. Ákvörðun lögreglu um neikvæða umsögn á grundvelli neikvæðrar bakgrunnsathugunar sætir kæru til ráðherra samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga. Sama gildir um afturköllun jákvæðrar umsagnar.
    Sé umsögn neikvæð getur viðkomandi einstaklingur dregið til baka samþykki sitt fyrir miðlun þeirra upplýsinga til Samgöngustofu.
    Samgöngustofu er óheimilt að veita einstaklingi heimild til aðgangs að upplýsingum um siglingavernd, veita aðgang að haftasvæðum skv. 8. gr. eða heimild til að sækja námskeið í siglingavernd hafi lögregla veitt honum neikvæða umsögn samkvæmt þessari grein. Samgöngustofu er jafnframt óheimilt að veita einstaklingi skírteini til að gegna stöðu verndarfulltrúa eða hafnargæslumanns hafi lögregla veitt viðkomandi neikvæða umsögn samkvæmt þessari grein. Heimilt er útgefanda leyfis að afturkalla veitta aðgangsheimild.
    Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um bakgrunnsathuganir lögreglu sem kveðið er á um í þessari grein, svo sem varðandi beiðni um bakgrunnsathugun og framkvæmd hennar, umfang, upplýsingaöflun, efnislega skoðun upplýsinga, mat á öryggishæfi, áhrif afbrota og tímafresti í tengslum við þau, fíkniefnapróf, eyðublað, neikvæðar umsagnir, endurtekningu bakgrunnsathugana, skráningu umsagna lögreglu og eftirlit með einstaklingum í málaskrá lögreglu sem hafa hlotið jákvæða umsögn auk afturköllunar jákvæðrar umsagnar.

7. gr.

    Fyrirsögn V. kafla laganna verður: Aðgangur að haftasvæðum, skipum og upplýsingum.

II. KAFLI

Breyting á lögum um loftferðir, nr. 60/1998, með síðari breytingum.

8. gr.

    Við 70. gr. laganna bætast þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Án gildrar aðgangsheimildar er einstaklingi óheimilt að fara inn á skilgreint haftasvæði flugverndar á flugvelli eða flugvallarsvæði þar sem aðgangur hefur verið takmarkaður eða bannaður, sbr. 1. mgr.
    Einstaklingi er óheimilt að fara um borð í loftfar án gildrar aðgangsheimildar, taka sér far eða gera tilraun til þess að ferðast sem laumufarþegi með loftfari í eða úr íslenskri lögsögu.
    Ráðherra er heimilt að kveða á um það í reglugerð, samkvæmt tillögu ríkislögreglustjóra ef hættustig er hækkað vegna ógnar við allsherjarreglu, að stjórnandi loftfars skuli áður en farþegi fer um borð í loftfar ganga úr skugga um að skráður farþegi sé sá sem hann segist vera, að hann hafi gild ferðaskilríki eða annað kennivottorð sem viðurkennt er sem ferðaskilríki og að farþegi sem er áritunarskyldur hafi gilda vegabréfsáritun til landsins.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 70. gr. c laganna:
     a.      Í stað 1.–3. mgr. koma tíu nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                 Áður en Samgöngustofu, rekstraraðila flugvallar, rekstraraðila flugleiðsöguþjónustu eða flugrekanda er heimilt að veita einstaklingi aðgang að haftasvæði flugverndar og viðkvæmum upplýsingum um flugvernd eða heimila honum að sækja námskeið í flugverndarþjálfun þar sem fram koma upplýsingar sem ekki eru aðgengilegar öllum skal, að fengnu skriflegu samþykki viðkomandi einstaklings, óska eftir bakgrunnsathugun lögreglu. Í tilkynningu um niðurstöðu bakgrunnsathugunar lögreglu til Samgöngustofu skal einungis koma fram hvort einstaklingur hafi hlotið jákvæða eða neikvæða umsögn. Sama gildir um tilkynningar til rekstraraðila flugvallar, rekstraraðila flugleiðsöguþjónustu eða flugrekanda eftir atvikum. Beiðni um bakgrunnsathugun skal rita á eyðublað sem ríkislögreglustjóri ákveður í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur.
                 Beiðni skv. 1. mgr. veitir lögreglu heimild, eftir atvikum með aðstoð tollyfirvalda, til að afla upplýsinga um viðkomandi úr:
                  a.      skrám lögreglu, þ.m.t. málaskrá lögreglu,
                  b.      sakaskrá,
                  c.      upplýsingakerfi Alþjóðalögreglunnar eða annarra erlendra yfirvalda,
                  d.      upplýsingakerfum tollyfirvalda,
                  e.      upplýsingakerfi þjóðskrár.
             Heimild lögreglu til öflunar upplýsinga skv. a-lið 2. mgr. takmarkast við síðustu fimm ár.
                 Bakgrunnsathugun skal fara fram með reglulegu millibili og ekki sjaldnar en á fimm ára fresti. Aldrei má þó ganga lengra við könnun á bakgrunni og sakaferli en þörf krefur hverju sinni.
                 Lögregla skal leggja heildstætt mat á það hvort óhætt sé að veita jákvæða umsögn að undangenginni bakgrunnsathugun skv. 1. mgr. Heimilt er að vísa til upplýsinga úr málaskrá lögreglu, sem varða einstakling með beinum hætti, til rökstuðnings neikvæðri umsögn samkvæmt þessari grein, enda gefi þær rökstudda ástæðu til að draga í efa hæfi einstaklingsins til að fara með málefni flugverndar lögum samkvæmt. Lögreglu er heimilt að kalla einstakling til viðtals telji hún það nauðsynlegt til að upplýsa nánar um atriði sem koma fram við skoðun í skrám og upplýsingakerfum skv. 2. mgr.
                 Nú gefa upplýsingar úr málaskrá lögreglu, sakavottorði til yfirvalda eða viðtali við þann sem óskað er bakgrunnsathugunar á ástæðu til að ætla að viðkomandi neyti fíkniefna og er lögreglu þá heimilt að óska eftir því að hann gangist undir fíkniefnapróf á eigin kostnað, þ.m.t. blóð- og þvagrannsókn, enda telji lögregla niðurstöðu slíkrar rannsóknar geta haft áhrif á niðurstöðu athugunar lögreglu.
                 Áður en lögregla lýkur athugun sinni með neikvæðri umsögn skal þeim sem athugun beinist að gert kleift að koma sjónarmiðum sínum að. Hann á jafnframt rétt á rökstuðningi ákvarði lögregla að veita honum neikvæða umsögn. Ákvörðun lögreglu um neikvæða umsögn á grundvelli neikvæðrar bakgrunnsathugunar sætir kæru til ráðherra samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga. Sama gildir um afturköllun jákvæðrar umsagnar.
             Sé umsögn neikvæð getur viðkomandi einstaklingur dregið til baka samþykki sitt fyrir miðlun þeirra upplýsinga til Samgöngustofu.
                 Bakgrunnsathugun lögreglu er liður í því að ákvarða hvort óhætt þyki að veita einstaklingi aðgangsheimild samkvæmt þessari grein eða hvort honum skuli synjað um hana. Endanleg ákvörðun um aðgang samkvæmt þessari grein er Samgöngustofu, rekstraraðila flugvallar, rekstraraðila flugleiðsöguþjónustu eða flugrekanda eftir atvikum, sbr. þó ákvæði 11. mgr. Heimilt er útgefanda að afturkalla veitta aðgangsheimild.
                 Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um bakgrunnsathuganir lögreglu sem kveðið er á um í þessari grein, svo sem varðandi beiðni um bakgrunnsathugun og framkvæmd hennar, umfang, upplýsingaöflun, eyðublöð, efnislega skoðun upplýsinga, mat á öryggishæfi, áhrif afbrota og tímafresti í tengslum við þau, fíkniefnapróf, neikvæða umsögn, endurtekningu bakgrunnsathugana, skráningu umsagna lögreglu og eftirlit með einstaklingum í málaskrá lögreglu sem hafa hlotið jákvæða umsögn auk afturköllunar jákvæðrar umsagnar.
     b.      Í stað orðanna „synjað viðkomandi um öryggisvottun“ í 1. og 2. málsl. 4. mgr. kemur: veitt neikvæða umsögn eftir bakgrunnsathugun.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 136. gr. laganna:
     a.      4. mgr. verður svohljóðandi:
                 Séu févíti eða dagsektir samkvæmt þessari grein ekki greiddar innan mánaðar frá ákvörðun Samgöngustofu skal greiða dráttarvexti af fjárhæð þeirra. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
     b.      Orðin „13. kafla“ í 3. málsl. 6. mgr. falla brott.
     c.      4. málsl. 6. mgr. orðast svo: Innheimtar sektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtu.
     d.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Heimilt er að kveða nánar á um ákvörðun og innheimtu stjórnsýsluviðurlaga í reglugerð.

11. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.