Ferill 425. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1195  —  425. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um skipulag haf- og strandsvæða.

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Steinunni Fjólu Sigurðardóttur og Írisi Bjargmundsdóttur frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti, Guðjón Bragason og Vigdísi Hasler frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Helgu Guðrúnu Jónasdóttur frá Samtökum sjávarútvegssveitarfélaga, Pétur Reimarsson frá Samtökum atvinnulífsins. Þröst Friðfinnsson fyrir hönd Eyþings, Akureyrarbæjar, Grýtubakkahrepps og Hörgársveitar, Pétur Markan, Aðalstein Óskarsson og Sigríði Ó. Kristjánsdóttur frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Gísla H. Halldórsson frá Ísafjarðarbæ, Fríðu Matthíasdóttur frá Vesturbyggð, Pál Björgvin Guðmundsson frá Fjarðabyggð, Arnbjörgu Sveinsdóttur frá Seyðisfjarðarkaupstað, Bjarna Guðmundsson og Gunnar Þorgeirsson FRÁ Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Árna Snæbjörnsson frá Landssambandi veiðifélaga, Ernu Bjarnadóttur frá Bændasamtökum Íslands, Soffíu Karen Magnúsdóttur frá Löxum fiskeldi ehf., Kristján Davíðsson frá Landssambandi fiskeldisstöðva, Sigurjón N. Kjærnested frá Samorku, Kristínu L. Árnadóttur og Aðalbjörgu Birnu Guttormsdóttur frá Umhverfisstofnun, Ásdísi Hlökk Theodórsdóttur og Ester Önnu Ármannsdóttur frá Skipulagsstofnun, Sigurð Áss Grétarsson og Sigurð Sigurðarson frá Vegagerðinni, Kristínu Huld Sigurðardóttur og Agnesi Stefánsdóttur frá Minjastofnun Íslands, Trausta Baldursson frá Náttúrufræðistofnun Íslands og Þorkel Lindberg Þórarinsson frá Samtökum náttúrustofa.
    Þá bárust nefndinni umsagnir frá Akureyrarbæ, Bændasamtökum Íslands, Eyþingi – samband sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, Fjarðabyggð, Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Fljótsdalshéraði, Grýtubakkahreppi, Hörgársveit, Ísafjarðarbæ, Landssambandi fiskeldisstöðva, Landssambandi veiðifélaga, Landvernd, Löxum fiskeldi ehf., Minjastofnun Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi, Samorku, samtökum orku- og veitufyrirtækja, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtökum eigenda sjávarjarða, Samtökum náttúrustofa, Samtökum sjávarútvegssveitarfélaga, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Seyðisfjarðarkaupstað, Skipulagsstofnun, umhverfis- og auðlindaráðuneyti, Umhverfisstofnun, Vegagerðinni og Vesturbyggð.
    Með frumvarpinu er lögð til heildstæð löggjöf um skipulag á haf- og strandsvæðum. Þau álitamál sem hlutu hvað mesta umfjöllun hjá nefndinni voru gildissvið frumvarpsins, afmörkun hafsvæða og skipan svæðisráða og líftími þeirra.
    Gestir nefndarinnar voru sammála um að brýnt væri að hefja vinnu við gerð strandsvæðisskipulags. Bent var á að mikil ásókn væri til að mynda í fiskeldi, ferðamennsku og efnistöku á strandsvæðum, sér í lagi í fjörðum auk þess sem ný sóknartækifæri til nýtingar væru til skoðunar. Vinna við gerð strandsvæðisskipulags tekur talsverðan tíma og því mikilvægt að setja um hana ramma svo hægt sé að hefja vinnu við að marka skýra heildstæða stefnu um nýtingu, vernd, mannvirkjagerð, framkvæmdir og umferð með sjálfbærni svæða að leiðarljósi.
Skipulagsvald.
    Samband íslenskra sveitarfélaga hefur um langt skeið kallað eftir því að sett verði löggjöf um skipulag haf- og strandsvæða og samþykkti stjórn sambandsins stefnu 21. nóvember 2014 á grundvelli umfjöllunar á XXXVIII. landsþingi sambandsins þar sem segir: „Sambandið gætir hagsmuna sveitarfélaga við mótun lagafrumvarps um skipulag haf- og strandsvæða. Í þeirri vinnu verði lögð áhersla á að skipulag strandsvæða, allt að einni sjómílu út frá grunnlínu landhelginnar, verði á forræði sveitarfélaga. Einnig verði lögð áhersla á að fram fari nauðsynlegar grunnrannsóknir á strandsvæðum þar sem álag vegna nýtingar er mikið, til að auðvelda gerð skipulags- og nýtingaráætlana.“
    Samkvæmt skipulagslögum, nr. 123/2010, hafa sveitarfélög haft skipulagsvald innan netlaga en til þessa hefur ekki verið til löggjöf um strandsvæðisskipulag. Þau sjónarmið komu fram fyrir nefndinni að með því að festa gildissvið laganna við 30 m inn fyrir stórstraumsflóðlínu væri gengið inn á þetta skipulagssvæði sveitarfélaga. Betur færi á því að hafa sama viðmið og afmarka gildisvið laganna við netlög, þ.e. 115 m utan stórstraumsfjöru. Þannig væri skilið með skýrum hætti milli skipulags hafsvæða sem vera ætti á hendi ríkisins og skipulags strandsvæða sem ætti að vera hjá sveitarfélögum.
    Jafnframt komu fram þau sjónarmið að strandsvæði væru ásamt innfjörðum og flóum, hluti af skipulagsáætlunum sveitarfélaga bæði beint og óbeint. Náin tengsl eru milli fjarða og flóa við skipulag, atvinnulíf og búsetu á landi. Yrðu þessi svæði slitin úr samhengi við skipulagsáætlanir sveitarfélaga, gæti það því haft í för með sér vandmeðfarið óhagræði og árekstra ólíkra hagsmuna með þeim afleiðingum að fyrir borð yrðu borin þau grundvallarmarkmið skipulagslöggjafar að stuðla að nýtingu og verndun auðlinda á sjálfbærum grunni í þágu efnahagslegrar uppbyggingar og félagslegrar velferðar. Bent var á að heildstæð þekking á viðkomandi svæðum væri hjá sveitarfélögum og þau hefðu mörg hver nú þegar unnið að nýtingaráætlunum og skipulagi.
    Þá komu fram gagnstæð sjónarmið um að mikilvægt væri að skipulagsvald væri í höndum ríkisins en ekki einstakra sveitarfélaga enda væri oft litið til þrengri svæðisbundinna sjónarmiða á vettvangi sveitarfélaganna en ríkisins og horfa þyrfti til hagsmuna heildarinnar og landsins alls.
    Nefndin áréttar að mikilvægt er að virða stjórnarskrárvarinn sjálfstjórnarrétt sveitarfélaga skv. 78. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands og áréttar að umræða um skipulag er og á að vera lýðræðislegt ferli, leitt af stjórnvöldum og kjörnum fulltrúum þar sem almenningur og hagsmunaðilar eigi að hafa aðkomu. Nefndin áréttar að hér er um að ræða svæði sem þarf aðkomu bæði ríkisvalds og sveitarfélaga. Fyrirliggjandi frumvarpi er ætlað að tryggja þessa breiðu aðkomu og skýra skipulagsvald á haf- og strandsvæðum.

Gildissvið og afmörkun svæða.
    Af umsögnum og umfjöllun gesta um frumvarpið má ráða að gildissvið skv. 2. gr. er ekki auðskilið og orðalag virðist misvísandi. Nefndin telur mikilvægt að lagatexti sé skýr og aðgengilegur og áréttar að það er sérstaklega mikilvægt þegar um er að ræða gildissvið laga. Fyrir nefndinni kom fram að óljóst virtist vera að gildissviðið ætti bæði við um stefnu um skipulag haf- og strandsvæða skv. 9. gr., sem er hluti landsskipulagstefnu samkvæmt skipulagslögum, og um skipulag strandsvæða skv. 10. gr. Nefndin leggur því til orðalagsbreytingu á 2. gr. í því skyni að skýra gildissviðið. Þá telur nefndin rétt að færa ákveðin atriði úr ákvæði um gildissvið í orðskýringar til einföldunar og til að tryggja skýrleika og samræmi.
    Fyrir nefndinni kom skýrt fram að mismunandi afmörkun stefnu um skipulag haf- og strandsvæða og strandsvæðisskipulag landmegin veldur töluverðum misskilningi auk þess sem umsagnaraðilar bentu á að óheppilegt væri að afmörkun stefnu um skipulag haf- og strandsvæða væri ekki sú sama landmegin og afmörkun strandsvæðisskipulags. Þá kom fram að lína 30 m landmegin við meðalstórstraumsflóð væri ekki alltaf auðfundin. Nefndin leggur því til að innri mörk eða afmörkun stefnu um skipulag haf- og strandsvæða og mörk skipulags strandsvæða verði við netlög og gerir tillögu til breytinga á skilgreiningu á haf- og strandsvæði skv. 3. gr. og sömuleiðis að afmörkun svæðis verði felld út úr 2. gr. frumvarpsins.
    Stefna um skipulag haf- og strandsvæða nær samkvæmt frumvarpinu til hafsins og þess svæðis þar sem samspils hafs og lands gætir, sem getur náð upp á land. Skipulag haf- og strandsvæða er hluti af landsskipulagstefnu og því má segja að stefna um skipulag hafs og stranda tvinnist saman við stefnu um landsskipulag á mörkum lands og sjávar. Skipulag strandsvæða mætir hins vegar aðalskipulagi sveitarfélaga við netlög.

Svæðisráð.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið þess efnis að óeðlilegt væri að veita fulltrúum svæðisráðs neitunarvald enda væri slíkt neitunarvald einstakra fulltrúa í fjölskipuðu stjórnvaldi ekki í samræmi við almenn lýðræðissjónarmið.
    Þá var bent á það að í húfi væru grundvallarmál sem varða nálægðarregluna, þ.e. að efla skuli staðbundið vald og ákvarðanatöku með tilliti til almannahagsmuna og skynsamrar meðferðar opinberra fjármuna.
    Í frumvarpinu er kveðið á um að svæðisráð séu að meiri hluta skipuð fulltrúum ráðuneyta. Sveitarfélögin bentu á að með því að kveða á um neitunarvald fulltrúa ráðuneyta í svæðisráði við afgreiðslu mála væri gengið á sjálfstjórnarrétt sveitarfélaga sem og anda laganna um samráð og samræmi við skipulag sveitarfélaga. Ákvarðanataka yrði þannig ekki á þeirra hendi. Þá var á það bent að tryggja yrði aðliggjandi sveitarfélögum aukið vægi í svæðisráði og virka aðkomu þeirra sveitarfélaga að ákvarðanatöku.
    Tekur nefndin undir framangreind sjónarmið og leggur til að fulltrúum í svæðisráði verði fjölgað í átta manns og að aðliggjandi sveitarfélög hafi þar alls þrjá fulltrúa í stað eins áður. Samband íslenskra sveitarfélaga verði áfram með einn fulltrúa. Með þessu er meira jafnvægi tryggt í skipun svæðisráða þar sem fulltrúar ráðuneyta verða áfram fjórir og fulltrúar sveitarfélaga verða jafnmargir. Þá er lagt til að ákvarðanir í ráðinu þurfi að taka með auknum meiri hluta þannig að til afgreiðslu þurfi að lágmarki sex fulltrúar að samþykkja mál.
    Fyrir nefndinni voru gerðar athugasemdir við að einungis fulltrúi umhverfisverndarsamtaka ætti áheyrnaraðild að svæðisráði meðan sú staða gæti komið upp að ekki væru fulltrúar allra aðliggjandi sveitarfélaga í ráðinu og ekki fulltrúar annarra hagsmunasamtaka, svo sem atvinnulífs á svæðinu, ferðaþjónustu, sjávarútvegs o.fl.
    Nefndin áréttar mikilvægi þess að ákvæði Árósasamningsins séu virt og nauðsyn þess að fá fram sem fjölbreyttust sjónarmið sem fyrst í ferlinu. Umhverfisverndarsamtök hafa ákveðna sérstöðu þar sem þeim er ekki ætlað að gæta fjárhagslegra hagsmuna heldur hagsmuna umhverfisins í samræmi við Árósasamninginn. Nefndin leggur til þá breytingu að ekki verði áheyrnaraðild að svæðisráði en að ráðherra skipi samráðshóp sem verði svæðisráði til samráðs og ráðgjafar þegar það vinnur að gerð strandsvæðisskipulags fyrir viðkomandi strandsvæði. Gert er ráð fyrir að samráðið verði á öllum stigum vinnunnar. Með því er unnt að tryggja að sjónarmið og athugasemdir fulltrúa þeirra aðila sem sitja í samráðshópnum komi fram við undirbúning og gerð skipulagsins og jafnframt er tryggt að sjónarmið þeirra komi fram snemma í ferlinu. Gert er ráð fyrir að í samráðshópnum verði fimm fulltrúar, tilnefndir af ferðamálasamtökum, samtökum atvinnulífsins, umhverfisverndarsamtökum og útivistarsamtökum. Lagt er til að fulltrúar umhverfisverndarsamtaka verði tveir og að annar þeirra komi frá umhverfisverndarsamtökum á viðkomandi svæði en hinn frá umhverfisverndarsamtökum á landsvísu. Séu ekki starfandi umhverfisverndarsamtök á viðkomandi svæði verði báðir frá samtökum á landsvísu. Nefndin áréttar að við skilgreiningu á umhverfisverndarsamtökum er átt við þá skilgreiningu sem lögfest er í skipulagslögum. Þá er lagt til að svæðisráð geti tilnefnt allt að þrjá fulltrúa til viðbótar í samráðshópinn telji það þörf á að leita eftir viðbótarsjónarmiðum. Nefndin áréttar mikilvægi þess að fulltrúar í samráðshópi komi af viðkomandi svæði eða hafi þekkingu á svæðinu og aðstæðum þess.
    Í 15. gr. frumvarpsins er heimild til setningar reglugerðar og leggur nefndin áherslu á að þar verð nánar kveðið á um samráðið.

Breytingar á strandsvæðisskipulagi.
    Í 14. gr. er kveðið á um hvernig fara skuli með breytingar á strandsvæðisskipulagi og er þar kveðið á um að Skipulagsstofnun geti óskað breytinga á henni. Nefndin áréttar að virða þurfi sjálfstjórnarrétt sveitarfélaga og þá miklu hagsmuni sem þau hafi af skipulagsmálum á þessum svæðum. Nauðsynlegt er að sveitarfélög geti óskað eftir endurskoðun strandsvæðisskipulags eða breytinga á því, til að mynda getur sú staða komið upp að til sveitarfélags berist umsókn um framkvæmd sem ekki fellur að skipulagi en rík rök eru fyrir að fái brautargengi. Þá getur stefnubreyting í kjölfar sveitarstjórnarkosninga orðið til þess að sveitarfélag telji brýnt að gera breytingar á strandsvæðisskipulagi. Leggur nefndin því til að sveitarfélög geti einnig óskað breytingar. Að auki er lagt til að ráðherra verði ávallt skylt að óska eftir því að svæðisráð taki skipulagið til endurskoðunar og kanni hvort tilefni sé til breytinga.
    Þá telur nefndin rétt að setja inn skyldu um skipun nýs svæðisráðs að afloknum alþingiskosningum, þannig að svæðisráð sé alltaf virkt ef til endurskoðunar kemur. Nefndin telur einnig brýnt að skýra hvernig málsmeðferð skuli háttað ef endurskoða þurfi strandsvæðisskipulag eða gera breytingar á því skv. 14. gr. Leggur nefndin því til viðbót við 5. gr. þess efnis að ráðherra skuli óska eftir því við svæðisráð að endurskoðun fari fram eða gerðar tillögur að breytingum þegar slíkt á við.

Bætur vegna skipulags.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið þess efnis að með ákvæði 16. gr. um bótarétt væri verið að takmarka bótarétt þeirra sem hann kunna að hafa. Bent var á að tjón gæti verið bæði beint og óbeint og að fyrningarfrestir væru miklu styttri en almennt gerðist. Að auki tæki ákvæðið ekki mið af sambærilegu ákvæði um bótarétt vegna skipulagsbreytinga samkvæmt skipulagslögum og fyrningarfrestir væru ekki í samræmi við ákvæði þeirra laga.
    Nefndinni var bent á að með því að tilgreina að skerðing þyrfti að vera sérstök og umfram almenna takmörkun væri gengið gegn þeirri almennu reglu að nægilegt væri að skerðing réttinda væri umfram þær almennu takmarkanir sem rétthafar þurfi að þola bótalaust. Þá var einnig gerð athugasemd við að bótaréttur væri bundinn við rétthafa en að það orðalag væri ekki skýrt nánar í frumvarpinu.
    Telur nefndin mikilvægt að bótaréttur sé virtur en bendir á að ólíkt því sem er í skipulagslögum er hér ekki um að ræða beinan eignarrétt heldur mögulega bótaskylda takmörkun á svæðinu, t.d. þannig að komið verði í veg fyrir að unnt sé að stunda ákveðna atvinnustarfsemi. Hvað fresti ákvæðisins varðar bendir nefndin á að til eru fordæmi í lögum um styttri fresti og til að mynda er frestur samkvæmt náttúruverndarlögum til að sækja bætur vegna friðlýsingar þrír mánuðir.

Hafnarsvæði.
    Fyrir nefndinni komu fram athugasemdir um skörun frumvarpsins við heimildir ráðherra hafnamála til setningar hafnarreglugerða skv. 4. gr. hafnalaga, nr. 61/2003. Í hafnarreglugerðum eru tilgreind mörk viðkomandi hafna auk þess sem þar eru m.a. sett ákvæði um öryggi og stjórnun viðkomandi hafna, starfsemi og umferð á hafnarsvæði. Nefndinni var m.a. bent á að hafnarsvæði hafi verið skilgreind þannig að þau nái yfir svæði sem bæði falli utan og innan netlaga. Þá kom fram fyrir nefndinni að þegar komin er landfylling, sjóvörn eða hafnarmannvirki tilheyri skipulag aðalskipulagi og þar með skipulagsvaldi sveitarfélaga og þá þurfi skipulagsmörk að breytast. Nefndin tekur undir þessa ábendingu.
    Nefndin telur að þetta ætti ekki að valda vandkvæðum, m.a. í ljósi þess að skv. 2. mgr. 10. gr. frumvarpsins ber við gerð strandsvæðisskipulags að taka mið af stjórnvaldsfyrirmælum, öðrum lögum og lögbundnum ákvörðunum um nýtingu og vernd haf- og strandsvæða. Samkvæmt 5. gr. hafnalaga skal skipulag hafnarsvæðis miðast við þarfir hafnar sem svæðisráði beri að taka mið af við gerð strandsvæðisskipulags. Sökum þessa er gert ráð fyrir í 2. mgr. 7. gr. frumvarpsins að svæðisráð viðhafi sérstakt samráð við hafnarstjórnir vegna hafnarsvæða við gerð strandsvæðisskipulags. Almennt eru hafnarmannvirki, sem gera þarf ráð fyrir í skipulagi hafna, innan lögsögumarka sveitarfélaga og því ekki viðfangsefni við gerð strandsvæðisskipulags. Í þeim tilvikum sem slík mannvirki kunna að vera áformuð utan netlaga er unnt við gerð strandsvæðisskipulags að gera ráð fyrir framtíðaráformum um uppbyggingu hafna og hafnarmannvirkja.

Fjármögnun.
    Í e-lið 1. tölul. 18. gr. er kveðið á um að kostnaður við gerð strandsvæðisskipulags fyrir Vestfirði og Austfirði skuli greiddur úr Skipulagssjóði og í ákvæði til bráðabirgða er kveðið á um að gerð skipulagsins skuli hefjast strax haustið 2018. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að hjá Skipulagsstofnun er kostnaður af gerð þess áætlaður um 52 millj. kr. en svo gæti óverulegur kostnaður fallið til hjá svæðisráði. Fyrir nefndinni komu fram áhyggjur af því að gengið yrði mjög á Skipulagssjóð með þessum verkefnum enda væru árlegar fjárheimildir sjóðsins í kringum 200 millj. kr. og mikil útgjöld sem þessi gætu komið niður á möguleikum sveitarfélaga til að fá fjármagn úr sjóðnum til annarra verkefna.
    Nefndin leggur áherslu á að fjármögnun til að vinna strandsvæðisskipulag samkvæmt bráðabirgðaákvæði fyrir Austfirði og Vestfirði sé trygg eins og fram kemur í fjármálaáætlun og fylgja þurfi því eftir að fjárheimildir Skipulagssjóðs verði í samræmi við það.
    Þá áréttar nefndin mikilvægi þess að hefja vinnu við gerð strandsvæðisskipulags fyrir þessi tvö svæði eins fljótt og auðið er og hraða þeirri vinnu eins og mögulegt og skynsamlegt er.

Frestun á afgreiðslu leyfisumsókna.
    Nefndinni barst ábending um að ekki væri nægjanlega skýrt í hvaða tilvikum leyfisveitendum væri heimilt að fresta afgreiðslu á leyfisumsókn þar til strandsvæðisskipulag hefði tekið gildi fyrir viðkomandi svæði. Nefndin tekur undir það og leggur til breytingu í nokkrum liðum 18. gr. til að taka af allan vafa um að leyfisveitanda er einungis heimilt að fresta afgreiðslu á umsókn um leyfi á strandsvæði samkvæmt lögum um skipulag haf- og strandsvæða þegar umsókn er lögð fram eftir að tillaga að strandsvæðisskipulagi hefur verið auglýst.
    Fyrir nefndinni kom fram að ekki væri heldur skýrt hvernig færi með veitingu leyfa í þeim tilvikum þegar strandsvæðisskipulag hefði ekki tekið gildi. Nefndin áréttar að í 1. mgr. 8. gr. frumvarpsins segir að leyfi skuli samræmast gildandi strandsvæðisskipulagi sé það fyrir hendi. Þá segir í greinargerð að almennt hafi það ekki áhrif á veitingu leyfa í þeim tilvikum sem strandsvæðisskipulag hefur ekki tekið gildi. Telur nefndin ekki erindi til breytinga hvað þetta varðar en ítrekar þennan skilning. Þá áréttar nefndin að frumvarpinu er ekki ætlað að hafa afturvirk áhrif. Lögin hafa því ekki áhrif á þau mál sem nú eru í ferli, t.d. í umhverfismati samkvæmt samþykktri tillögu að matsáætlun. Um umsóknir sem fram eru komnar fyrir gildistöku fyrirliggjandi frumvarps fer samkvæmt gildandi lögum.

Endurskoðun.
    Talsvert af athugasemdum hafa borist nefndinni um fyrirliggjandi frumvarp og leggur nefndin til þónokkrar breytingar til að auka skýrleika þess, tryggja betur áhrif, aðkomu og sjálfstjórnarrétt sveitarfélaga og í þeim tilgangi að reyna að tryggja breiðari sátt um efni þess. Nefndin áréttar þó að um er að ræða löggjöf á nýju sviði og mikilvægt að láta reyna á ákvæði þess, meta reynsluna og endurskoða ef þörf krefur. Leggur nefndin því til að við frumvarpið bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða þar sem kveðið verði á um endurskoðun laganna þegar fyrsta strandsvæðisskipulag fyrir Austfirði annars vegar og Vestfirði hins vegar hefur verið unnið. Nefndin telur þó brýnt að sú endurskoðun frestist ekki og kveður því á um að endurskoðunin hefjist eigi síðar en að þremur árum liðnum. Áréttar nefndin mikilvægi þess að byggt verði á reynslu þessara þriggja ára og horft til þess hvort ástæða sé til að leggja til breytingar á samsetningu svæðisráða. Þá telur nefndin brýnt að til skoðunar komi hvort rétt sé að færa skipulagsmörk að einhverju leyti. Ljóst er að þó svo að við skipulagningu strandsvæða hafi og verði fyrst um sinn að mestu horft til fiskeldis geti þar verið fjölbreytt starfsemi og nýting og hugsanlegt að í auknum mæli verði horft til nýrra þátta, t.d. raforkuvinnslu á sjó. Það er því mikilvægt að horfa til þess hvort gera þurfi breytingar á ytri mörkum skipulagssvæða með fjölbreyttari og áður ókortlagða nýtingu í huga. Fram kom fyrir nefndinni að ytri mörkin liggja í einhverjum tilfellum innan við eyjar og mjög nærri fuglabjörgum. Það veldur því að tengsl við eyjar eins og skipaumferð og lagnir lenda utan strandsvæðisskipulags og ekki hægt að nýta það til að marka stefnu um umferð vegna ferðamennsku nærri fuglabjörgum.
    Þá er einnig mikilvægt að líta til þess hvort afmörkun stefnu um haf- og strandsvæði landmegin þarfnist endurskoðunar í ljósi markmiða laganna. Nefndin leggur til breytingar hvað mörkin varðar þannig að miðað verði við netlög en eftir reynslu af gerð strandsvæðisskipulags getur verið ástæða til að skoða þau mörk að nýju.
    Nefndin áréttar að þrátt fyrir að kveðið sé á um endurskoðun eftir strandsvæðisskipulag Vestfjarða og Austfjarða en þó eigi síðar en þremur árum eftir gildistöku laganna sé mikilvægt að fram að þeirri endurskoðun fari fram skoðun innan ráðuneytisins á kröfu sveitarfélaga um að skipulagsvaldið og skipulagsskyldan nái allt að einni sjómílu út frá grunnlínu landhelginnar.

Annað.
    Nefndinni barst ábending um að á eftir orðinu efnistöku í 1. mgr. 9. gr. og 10. gr. þyrfti að bæta við orðinu haugsetning, enda geti haugsetning efnis farið fram utan netlaga. Nefndin leggur til breytingu þar að lútandi.

    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Sara Elísa Þórðardóttir, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 7. júní 2018.

Bergþór Ólason,
form.
Líneik Anna Sævarsdóttir, frsm. Ari Trausti Guðmundsson.
Hanna Katrín Friðriksson. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir. Jón Gunnarsson.
Karl Gauti Hjaltason. Rósa Björk Brynjólfsdóttir. Vilhjálmur Árnason.