Ferill 246. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Prentað upp.

Þingskjal 1206  —  246. mál.
Viðbót.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, með síðari breytingum (húsnæðisliður vísitölu neysluverðs).

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og tekið við umsögnum. Þær umsagnir sem borist hafa nefndinni um þetta mál eru með ýmsum hætti og þar er ýmist mælt með þeirri breytingu sem frumvarpið kveður á um eða gegn henni.
    Verðtrygging húsnæðislána var tekin upp á Íslandi árið 1979. Þá voru efnahagsaðstæður erfiðar, atvinnulíf og gjaldeyrisöflun einhæf og verðbólga mikil. Ætlað var að verðtryggingin stæði um skamma hríð. Síðan eru liðin hartnær 40 ár og aðstæður í efnahagslífi landsmanna allt aðrar. Atvinnulíf stendur á fleiri stoðum og stöðugleiki hefur ríkt lengur en dæmi eru um í íslenskri hagsögu.
    Verðtrygging neytendalána hefur í för með sér að öll áhætta af lántöku lendir hjá lántaka en réttindi lánveitanda eru tryggð í bak og fyrir. Þetta ástand hefur orðið æ ljósara eftir því sem frá hefur liðið. Sú staðreynd að húsnæðisliður er hluti af grunni vísitöluútreiknings hefur undanfarin ár valdið því að verðbólga hefur verið ofmæld með þeim afleiðingum að lán þeirra sem eru með verðtryggð lán hafa hækkað mjög umfram það sem gerst hefði ef húsnæðisliður væri utan vísitöluútreiknings. Þetta kom m.a. fram í nýlegum útreikningum Hagstofu Íslands þar sem í ljós kom að verðbólga á Íslandi frá mars 2017 til mars 2018 hefði mælst 2,3% en mæling án húsnæðisliðar var á sama tíma neikvæð um 0,9%. Á þessu tímabili má ætla að aukinn kostnaður lántaka vegna húsnæðisþáttar vísitölu hafi numið um 50 milljörðum kr. Hagsmunir einstaklinga og fyrirtækja af breytingu á vísitölugrunni eru því ærnir.
    Að framansögðu virtu leggur minni hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Ólafur Ísleifsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, styður þetta nefndarálit.

Alþingi, 8. júní 2018.

Þorsteinn Sæmundsson.