Ferill 492. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1208  —  492. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Íslandsstofu, nr. 38/2010, með síðari breytingum (rekstrarform o.fl.).

Frá minni hluta utanríkismálanefndar.

    Minni hlutinn vill fyrst og fremst vekja athygli á því að æskilegt hefði verið að frumvarp til breytinga á lögum um Íslandsstofu, sem vissulega er þörf á að endurskoða, hefði verið unnið betur. Við meðferð málsins hafa komið upp fjöldamörg atriði sem hvert um sig hafa gefið tilefni til að staldra við og skoða málið ofan í kjölinn. Málið hefur batnað mikið og brugðist hefur verið við flestum athugasemdum stjórnarandstöðu.
    Með frumvarpinu er Íslandsstofa gerð að sjálfseignarstofnun. Eina ástæða þess að félagaformið sjálfseignarstofnun varð fyrir valinu er sú að ekki er í íslenskum rétti félagaform sem nær utan um samstarf ríkisins og atvinnulífs, líkt og við á í tilfelli Íslandsstofu. Réttast hefði því verið að byrja á því að endurskoða félagaform íslensks réttar með það fyrir augum að setja ný lög sem tækju sérstaklega til slíks samstarfsvettvangs. Ráðherra hefði verið í lófa lagið að nýta í slíkri vinnu þau fordæmi sem finna má í nágrannaríkjum Íslands og taka til samstarfs ríkis og einkaaðila (e. public-private partnership). Þess í stað varð fyrir valinu það félagaform sem skást var í núverandi lagaumhverfi.
    Við meðferð málsins hefur bersýnilega komið í ljós að fjárveitingar til markaðsstarfs eru á of mörgum stöðum hjá ríkisvaldinu, svo sem í ráðuneytum og stofnunum. Þá hefur ekki tekist að fá heilsteypta samantekt um fjölda fjárveitingaliða til markaðsstarfs þrátt fyrir að nefndin hafi óskað eftir því. Af þeim upplýsingum sem þó bárust má gera ráð fyrir á bilinu 8–15 fjárheimildaliðum hjá opinberum aðilum til þessa verkefnis. Það eitt að ekki sé hægt að nálgast slíkar upplýsingar sýnir hversu mikil skammsýni það er að taka ekki á þessu vandamáli við frumvarpsgerðina. Það hlýtur öllum að vera ljóst að ein meginforsenda þess að ná árangri og geta markvisst nýtt fjármuni er að hafa yfirsýn og að eitt stjórnvald samræmi sókn og skilaboð þau sem Ísland vill byggja sína markaðssókn á. Það eru því mikil vonbrigði að frumvarpið taki ekki á þessu atriði.
    Í eftirfarandi töflum má sjá þau gögn sem bárust frá ráðuneytinu og snúa að kostnaðargreiningu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis fyrir árið 2018, Íslandsstofu á fjárlögum 2018 og fjárframlögum til Íslandsstofu fyrir árið 2017.
2018
ANR 4521 Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar 1.131.200.000
ANR 4528 Fjárfestingarstofan 0
ANR 4551 Ferðamálastofa, markaðsstofur 100.000.000
ANR 4559 Markaðs- og kynningarmál erlendis 126.800.000
ANR 4559 Ísland allt árið 150.000.000
NR 4559 Iceland Naturally 72.800.000
ANR AVS, upplýsingar liggja ekki fyrir
ANR Tækniþróunarsjóður, upplýsingar liggja ekki fyrir
ANR Átak til atvinnusköpunar væntanlega ekkert árið 2018
ANR Kokkalandsliðið 0
Íslandsstofa á fjárlögum 2018 Fjárlög
2018
Frumvarp 2018 Gildistími
hækkar um 66 millj. kr. frá fjárlögum 2017
UTN Markaðsgjald 752 752
ANR Samn. v/endurgreiðslu til kvikmyndagerðar 10 10 2021
ANR Samn. v/kynningar á íslenska hestinum 25 25 2019
ANR Iceland Naturally, markaðss. Íslands í N-Ameríku 73 73 2019
ANR Samn. v/kynningar- og markaðsstarfs 55 55 -
ANR Samn. v/kynningar- og markaðsstarfs 127 127 2018
1042 1042
Erlend fjárfesting og kynningarmál 18,6 Lokið 2017
Ísland allt árið – sérsamningur


Ráðuneyti Nr. Heiti Alls Ríki Sveit Fyrirtæki
1 ANR 04-528 Fjárfestingar 18,6 18,6
2 Fjárfestingar 20,0 5,0 15,0
3 ANR 04-559 Ferðamál 182,2 182,2
4 ANR 04-559 Ísland allt árið 248,0 124,0 124,0
5 ANR 04-559 Iceland Naturally 131,5 72,8 58,7
6 ANR 12,5 Horses of Iceland 50,0 25,0 25,0
7 ANR 7,2 Film in Iceland 10,0 10,0
8 UTN 4,2 Markaðsgjald 686,0
Alls til verkefna Íslandsstofu 1.346.3
         
Liður 1 er framlag ANR til að laða að erlenda fjárfestingu.
Liður 2 er þátttaka sveitarfélaga og fyrirtækja í fjárfestingakynningum.
Liður 3 er framlag ANR til almennra ferðaþjónustukynninga.
Liður 4 er krónu á móti krónu verkefni undir nafni Inspired by Iceland.
Liður 5 er markaðsverkefni í Norður-Ameríku.
Liður 6 er sérstakt krónu á móti krónu verkefni til að kynna íslenska hestinn.
Liður 7 er kynning á endurgreiðslukerfi kvikmynda.
Liður 8 er markaðsgjaldið sem er 0,05% á laun í landinu.
                   
    Hvað varðar Útflutnings- og markaðsráð telur minni hlutinn að betur færi á að atvinnulífið skipaði meiri hluta ráðsins. Í samstarfi ríkis og atvinnulífs, líkt og við á í tilfelli Íslandsstofu, er það hlutverk atvinnulífsins að leiða markaðssóknina. Þar liggur sérþekkingin og drifkrafturinn. Á móti er það hlutverk ríkisins að þjónusta atvinnulífið og tryggja umgjörð og aðhald þess. Það að tryggja að ríkisvaldið hafi yfirhöndina í Útflutnings- og markaðsráði gengur því beinlínis gegn því markmiði frumvarpsins að skýra stöðu Íslandsstofu á einkaréttarlegum grunni. Þvert á móti er Íslandsstofa með ákvæðinu gerð líkari ríkisstofnun en einkaaðila. Sé skortur á samstarfi milli Íslandsstofu og opinberra aðila, t.d. viðskiptafulltrúa utanríkisráðuneytisins verður það leyst með bættum samskiptum, aukinni fagþekkingu og skýrum verkferlum ásamt vilja til samstarfs. Kemur það verulega á óvart að ríkisstjórnin skuli ekki nýta tækifærið og fela atvinnulífinu stærra hlutverk og meiri ábyrgð.
    Því ber þó að fagna að við samninga um þinglok hafi tekist samkomulag um að bæta frumvarpið í takt við óskir stjórnarandstöðu. Má þar nefna aðkomu markaðskrifstofanna, breytingar á ákvæði um undanþágu frá upplýsingalögum, endurskoðun á starfseminni, eftirlit o.fl.
    Minni hlutinn leggst ekki gegn því að málið sé afgreitt með áorðnum breytingum en bendir á þann ávinning sem myndi hljótast af því að setja í forgang vinnu við nýja lagasetningu um félagaform sem hentar starfsemi Íslandsstofu.

Alþingi, 8. júní 2018.

Gunnar Bragi Sveinsson.