Ferill 485. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Prentað upp.

Þingskjal 1212  —  485. mál.
Leiðréttur texti.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um Ferðamálastofu.

Frá atvinnuveganefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Brynhildi Pálmarsdóttur, Heimi Skarphéðinsson og Sigrúnu Brynju Einarsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Guðnýju Hjaltadóttur og Martein Áka Ellertsson frá Félagi atvinnurekenda, Matthildi Sveinsdóttur og Tryggva Axelsson frá Neytendastofu, Skarphéðin Berg Steinarsson frá Ferðamálastofu, Skúla H. Skúlason frá Ferðafélaginu Útivist, Ásberg Jónsson og Gunnar Val Sveinsson frá Samtökum ferðaþjónustunnar. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Alþýðusambandi Íslands, Ferðamálastofu, Ferðafélagi Íslands, Ferðafélaginu Útivist, ferðaþjónustuaðilum á Austurlandi, Hagstofu Íslands, Ingibjörgu Guðjónsdóttur, Landvernd, Leiðsögn – stéttarfélagi leiðsögumanna, markaðsstofum landshlutanna, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi og Samtökum ferðaþjónustunnar.
    Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði heildarlög um Ferðamálastofu þar sem einnig eru ákvæði um Ferðamálaráð, um leyfisveitingar í ferðaþjónustu o.fl. Samhliða frumvarpinu hefur nefndin til meðferðar frumvarp til laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun (484. mál). Verði frumvörpin að lögum falla lög um skipan ferðamála úr gildi. Helstu breytingar sem felast í frumvarpinu lúta að stjórnsýslu málaflokksins og að því að ferðaþjónustuaðilum verður skylt að útbúa öryggisáætlun fyrir hverja tegund ferðar sem framkvæmd verður.
    Tilgangur öryggisáætlunar skv. 10. gr. er að auka öryggi ferðamanna. Ferðaþjónustuaðilar skulu leggja mat á þá áhættu sem felst í ferð, uppfæra slíkt mat eftir þörfum og skal áætlunin aðgengileg ferðamönnum. Öryggisáætlun skal fela í sér fjögur mismunandi atriði, þ.e. áhættumat, verklagsreglur, atvikalýsingu og viðbragðsáætlun. Nefndin telur ákvæði þetta afar brýnt, einkum með tilliti til öryggis ferðamanna, og er mikilvægt að virkt eftirlit verði með því að ákvæðinu sé framfylgt.
    Hvað varðar stjórnsýslu málaflokksins er í 2. gr. kveðið á um markmið laganna sem er að stuðla að þróun ferðaþjónustu sem mikilvægrar og sjálfbærrar grunnstoðar í íslensku samfélagi að teknu tilliti til þolmarka íslenskrar náttúru og samfélags. Einnig skal unnið að samræmingu, greiningum og rannsóknum með hliðsjón af stefnu stjórnvalda. Framangreind verkefni eru falin Ferðamálastofu og skv. 3. gr. felast verkefni hennar m.a. í að veita leyfi fyrir starfsemi og hafa eftirlit með henni, afla upplýsinga og miðla þeim, gæta að öryggismálum og neytendavernd og hafa umsjón með tryggingum og tryggingarskyldu.
    Einnig eru lagðar til breytingar á skipan Ferðamálaráðs sem þó taka ekki gildi fyrr en 1. janúar 2020 þegar verkefnum Stjórnstöðvar ferðamála verður að mestu lokið. Samkvæmt frumvarpinu fær stjórnsýslan aukið vægi í Ferðamálaráði og verður það skipað fulltrúum fjármála- og efnahagsráðherra, umhverfis- og auðlindaráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sem og fulltrúum sveitarfélaganna og Samtaka ferðaþjónustunnar auk þess sem ferðamálastjóri mun eiga sæti í ráðinu. Samkvæmt 19. gr. fær Ferðamálastofa heimild til að leggja dagsektir á þá sem falla undir lögin ef ekki er farið að skilyrðum laganna eða ákvörðunum stofnunarinnar. Með þessari heimild verður stofnuninni kleift að virkja ákvæði laganna án þess að þurfa að ráðast í það ferli að leita til lögreglu sem getur verið tímafrekt og viðkomandi aðili getur starfað óáreittur meðan það stendur yfir.
    Nefndin leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu:
    Nefndin leggur til breytingu á 4. gr. í þá veru að Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefni í Ferðamálaráð tvo fulltrúa í staðinn fyrir einn og skal annar þeirra vera fulltrúi markaðsstofa landshlutanna. Jafnframt er lagt til að ferðamálastjóri sitji fundi ráðsins áfram með tillögurétt og málfrelsi en eigi ekki sæti í ráðinu eins og kveðið er á um í frumvarpinu. Hið sama eigi við um fulltrúa ráðuneytisins.
    Við nánari skoðun á frumvarpinu og frumvarpi til laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun eru lagðar til eftirfarandi breytingar á skilgreiningum í 6. gr. frumvarpsins. Í fyrsta lagi er lagt til að hugtakið ferðasali dagsferða verði skilgreint á þann veg að um sé að ræða aðila sem setur saman, býður fram eða selur í atvinnuskyni skipulagðar ferðir sem ekki falla undir lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun. Í öðru lagi er lagt til að áfram verði notað hugtakið ferðaskrifstofa en það er þó víðtækara en það sem er í gildandi lögum. Samhliða þessu falla brott skilgreiningar á hugtökunum seljandi, skipuleggjandi og smásali í 6. gr. sem eru skilgreind í frumvarpi um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun. Hið sama á við um skilgreiningu á hugtökunum pakkaferð og samtengd ferðatilhögun, þ.e. að þær falli brott enda eru hugtökin skilgreind í frumvarpi um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun. Framangreindar breytingar eru lagðar til til einföldunar og til að gæta betur að samræmi við fyrrgreint frumvarp um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun. Lögð er til breyting á 7. gr. og 7. mgr. 8. gr. í samræmi við breytingar á 6. gr.
    Jafnframt leggur nefndin til að áfram verði gert ráð fyrir að starfræktar verði upplýsingamiðstöðvar sem sinni hlutlausri upplýsingagjöf til almennings. Lagt er til að við 6. gr. bætist nýr töluliður þar sem starfsemi þeirra verði skilgreind og að við bætist ný grein um skráningu þeirra og starfsemi, þ.m.t. um að upplýsingamiðstöðvar sem njóta opinbers fjárstuðnings haldi þeim þætti starfseminnar fjárhagslega aðskildum frá öðrum þáttum hennar.
    Einnig er lagt til að d-liður 2. mgr. 8. gr. falli brott til að skýra nánar ákvæði um öryggisáætlun sem aðeins þeir þurfa sem framkvæma ferð. Lagt er til að 3. mgr. 14. gr. falli brott þar sem kveðið er á um að leyfisbréfi skuli skila til Ferðamálastofu við niðurfellingu leyfis enda verða ekki gefin út áþreifanleg leyfisbréf. Lögð er til breyting á ákvæði til bráðabirgða I í þá veru að þeir sem hafa leyfi samkvæmt gildandi lögum sæki um nýtt leyfi hjá Ferðamálastofu fyrir ákveðið tímamark. Einnig eru lagðar til breytingar á orðalagi á nokkrum stöðum til áréttingar og skýringar.
    Í 20. gr. frumvarpsins er lagt til að lögin öðlist gildi 1. júlí 2018. Nefndin telur of skamman tíma frá samþykkt laganna til gildistöku samkvæmt frumvarpinu og leggur til að lögin öðlist gildi 1. janúar 2019. Í samræmi við þetta er lögð til breyting á dagsetningu í ákvæði til bráðabirgða I auk þess sem lagt er til að ákvæði til bráðabirgða II falli brott.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Þorgerður K. Gunnarsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hún samþykk áliti þessu.

Alþingi, 5. júní 2018.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form.
Njáll Trausti Friðbertsson,
frsm.
Inga Sæland.
Halla Signý Kristjánsdóttir. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir. Ásmundur Friðriksson.
Kolbeinn Óttarsson Proppé. Sigurður Páll Jónsson. Smári McCarthy.