Ferill 485. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1213  —  485. mál.

2. umræða.


Breytingartillaga


við frumvarp til laga um Ferðamálastofu.

Frá atvinnuveganefnd.


     1.      Við 4. gr.
                  a.      Í stað 3. og 4. málsl. 2. mgr. komi einn nýr málsliður, svohljóðandi: Aðra fulltrúa skipar ráðherra eftir tilnefningu Samtaka ferðaþjónustunnar sem tilnefna tvo fulltrúa og Sambands íslenskra sveitarfélaga sem tilnefnir tvo fulltrúa og skal annar þeirra vera fulltrúi markaðsstofa landshlutanna.
                  b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                       Ferðamálastjóri og fulltrúi ráðuneytisins sitja fundi ráðsins með málfrelsi og tillögurétt.
     2.      6. gr. orðist svo:
             Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
        1.      Ferðasali dagsferða er aðili sem, hvort sem er að eigin frumkvæði eða eftir beiðni viðskiptavinar, setur saman, býður fram eða selur í atvinnuskyni til almennings skipulagðar ferðir sem falla ekki undir lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun.
        2.      Ferðaskrifstofa er aðili, hvort sem er einstaklingur eða lögaðili, sem setur saman, býður fram eða selur pakkaferðir í atvinnuskyni, hvort sem er að eigin frumkvæði eða eftir beiðni viðskiptavinar, innan lands eða erlendis.
                       Hugtakið ferðaskrifstofa tekur til seljenda samkvæmt lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun, þ.e. til skipuleggjenda, smásala og seljenda sem hafa milligöngu um samtengda ferðatilhögun eins og þessir aðilar eru skilgreindir í þeim lögum.
                       Ferðaskrifstofa getur jafnframt haft með höndum og veitt alla þá ferðatengdu þjónustu sem ferðasali dagsferða gerir, hvort sem hún er veitt í formi pakkaferða eða ekki.
        3.      Skipulögð ferð er þjónusta eða afþreying sem ferðaskrifstofa eða ferðasali dagsferða setur saman, býður fram eða selur almenningi í atvinnuskyni, hvort sem það er að eigin frumkvæði eða eftir beiðni viðskiptavinar.
        4.      Leyfisskyld starfsemi er öll starfsemi og þjónusta ferðasala dagsferða og ferðaskrifstofa sem fellur undir skilgreiningu laga þessara, hvort sem starfsemin er innt af hendi af einstaklingi, fyrirtæki eða félagi.
        5      Öryggisáætlun er skrifleg áætlun sem samanstendur af áhættumati, verklagsreglum, atvikaskýrslu og viðbragðsáætlun.
        6.      Upplýsingamiðstöð er aðili sem stundar hlutlausa upplýsingagjöf til almennings.
     3.      Við 7. gr.
                  a.      Í stað orðanna „Hver sá sem hyggst starfa sem seljandi“ í 1. mgr. komi: Hver sá sem hyggst starfa sem ferðaskrifstofa.
                  b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                       Ferðamálastofa ákveður hvaða íslensk ferðafélög eru undanþegin ákvæðum laga þessara að því er lýtur að ferðum innan lands.
     4.      Við 8. gr.
                  a.      Á eftir orðinu „reksturs“ í 1. mgr. komi: leyfisskyldrar starfsemi.
                  b.      D-liður 2. mgr. falli brott.
                  c.      7. mgr. orðist svo:
                       Erlend ferðaskrifstofa eða erlendur ferðasali dagsferða sem hyggst opna starfsstöð á Íslandi skal sækja um leyfi.
                  d.      Í stað orðsins „tryggingu“ í 8. mgr. komi: ábyrgðartryggingu.
     5.      Á eftir 8. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
             Hver sá sem hyggst starfrækja upplýsingamiðstöð skal senda skriflega tilkynningu þess efnis til Ferðamálastofu. Ferðamálastofa skal halda skrá yfir skráðar upplýsingamiðstöðvar og birta hana á aðgengilegan hátt, svo sem á vef sínum.
             Skráðar upplýsingamiðstöðvar hafa heimild til að nota myndrænt auðkenni Ferðamálastofu.
             Upplýsingamiðstöðvar sem njóta opinbers fjárstuðnings skulu halda þeim þætti starfseminnar fjárhagslega aðskildum frá öðrum þáttum starfseminnar, svo sem bókunarþjónustu. Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur um bókhald og fjárhagslegan aðskilnað þjónustu sem nýtur opinbers fjárstuðnings og annars reksturs.
             Í tilkynningu til Ferðamálastofu um skráningarskylda starfsemi skal koma fram eftirfarandi eftir því sem við á:
        a.     Nafn starfseminnar, kennitala, heimili, símanúmer og netfang.
        b.     Nafn og kennitala forráðamanns.
        c.     Rekstrarfyrirkomulag.
        d.     Ítarleg lýsing á starfsemi.
        e.     Hvort og þá hvaða opinberra styrkja starfsemin nýtur.
        f.     Opnunartími starfsstöðvar.
             Ferðamálastofu er heimilt að fella skráðan aðila af skrá ef hinni skráðu starfsemi hefur verið hætt eða starfsemi er útvíkkuð þannig að hún falli undir skilgreiningu á ferðaskipuleggjanda eða ferðaskrifstofu. Ferðamálastofa úrskurðar ef ágreiningur rís um til hvaða flokks starfsemi heyrir.
     6.      Við 10. gr.
                  a.      Í stað orðanna „bjóða upp á eða selja“ í 1. málsl. 1. mgr. komi: framkvæma.
                  b.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Öryggisáætlun felur í sér áhættumat, verklagsreglur, viðbragðsáætlun og atvikaskýrslu.
                  c.      Á undan orðinu „tækjakosti“ í síðari málsl. 2. mgr. komi: val á.
     7.      Í stað orðanna „vegna ógjaldfærni“ í 1. málsl. 1. mgr. 13. gr. komi: komi til rekstrarstöðvunar eða gjaldþrots.
     8.      3. mgr. 14. gr. falli brott.
     9.      Í stað orðanna „1. júlí 2018“ í fyrri málslið 20. gr. komi: 1. janúar 2019.
     10.      Ákvæði til bráðabirgða I orðist svo:
             Ferðaskipuleggjandaleyfi og skráningar bókunarþjónustu samkvæmt lögum nr. 73/2005 sem í gildi eru við gildistöku laga þessara skulu halda gildi sínu til 1. mars 2019. Fyrir þann tíma skulu þeir aðilar sem hyggjast starfa áfram sækja um nýtt leyfi hjá Ferðamálastofu sem metur hvort starfsemi þeirra telst, eftir setningu laganna, falla undir hugtakið ferðaskrifstofa eða ferðasali dagsferða. Ekki skal taka gjald fyrir nýtt leyfi til þessara aðila.
     11.      Ákvæði til bráðabirgða II falli brott.