Ferill 624. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1219  —  624. mál.
Svar


forseta Alþingis við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um óskráðar reglur og hefðir.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvaða óskráðar reglur og hefðir gilda um störf þingmanna?

    Samkvæmt 3. mgr. 8. gr. laga um þingsköp Alþingis má beina til forseta Alþingis fyrirspurnum á þingskjali og óska skriflegs svars um „stjórnsýslu á vegum þingsins“. Í fyrirspurninni er óskað upplýsinga frá forseta Alþingis um hvaða óskráðu reglur og hefðir gilda um störf þingmanna. Það efni, sem fyrirspurnin tekur til, varðar ekki stjórnsýslu á vegum Alþingis eða stjórnsýslu sem þinginu hefur verið sérstaklega falin samkvæmt lögum. Svör forseta við fyrirspurninni taka óhjákvæmilega mið af þessu.
    Engar sjálfstæðar hefðir eða venjur gilda um stjórnsýslu Alþingis, t.d. um fjármálaumsýslu þingsins, fyrir utan almennar reglur í samskiptum manna. Þær reglur sem lúta að stjórnsýslunni eru bundnar í lögum eða reglum sem forsætisnefnd hefur sett. Þar má nefna lög nr. 88/1995, um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, reglur forsætisnefndar um þingfararkostnað og vinnureglur skrifstofunnar um þingfararkostnað sem staðfestar eru af forsætisnefnd.
    Ýmsar hefðir og óskráðar reglur gilda þó um fjölmargt annað í starfsemi Alþingis og er vikið að mörgum þeirra í ritinu Háttvirtur þingmaður. Sem dæmi má nefna að föst hefð er að forseti minnist látins alþingismanns eða fyrrverandi alþingismanns á þingfundi. Þá er venja að alþingismenn klæðist formlegum og snyrtilegum klæðnaði á þingfundum, að stjórnarmál hafi forgang fram yfir þingmannamál, að þingflokksformenn tilnefni fulltrúa til þátttöku í sérstökum umræðum og að alþingismenn séu ávarpaðir á þingfundum „háttvirtur þingmaður“ og ráðherrar ávarpaðir „hæstvirtur ráðherra“. Margt annað mætti nefna en hér verða áðurgreind dæmi látin nægja. Frekari upptalning gæti eðli málsins samkvæmt aldrei orðið tæmandi auk þess sem það væri afar óhefðbundið að gera óskráðar hefðir og venjur skráðar með svari við fyrirspurn á þingskjali.
    Þá er að lokum rétt að benda á að hefðir og venjur breytast í tímans rás. Sumt leggst af en annað kemur í staðinn. Má sem dæmi taka að á degi Norðurlanda 23. mars sl. var fánum allra Norðurlandaþjóðanna flaggað framan við Alþingishúsið. Ekki er ólíklegt að slíkt verði gert eftirleiðis og þar með skapist venja, hefð, sem verði í heiðri höfð.