Ferill 659. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1228  —  659. mál.
Beiðni um skýrslu


frá Ríkisendurskoðun um stjórnsýslu dómstólanna.

Frá Jóni Þór Ólafssyni, Birni Leví Gunnarssyni, Guðmundi Inga Kristinssyni, Halldóru Mogensen, Söru Elísu Þórðardóttur, Smára McCarthy, Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, Helgu Völu Helgadóttur, Þorsteini Sæmundssyni, Ólafi Ísleifssyni og Jóni Steindóri Valdimarssyni.


    Með vísan til 17. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, nr. 46/2016, er þess óskað að ríkisendurskoðandi taki saman skýrslu um stjórnsýslu dómstólanna.
    Í skýrslunni verði dregið fram hvernig stjórnsýslu dómstólanna hafi verið sinnt samkvæmt lögum um dómstóla og óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttarins af dómstólasýslunni og þáverandi dómstólaráði sem og innan héraðsdómstóla, Landsréttar og Hæstaréttar.
    Ríkisendurskoðandi skili Alþingi skýrslu eigi síðar en 1. apríl 2019.

Greinargerð.

    Með skýrslubeiðninni er leitast við að varpa ljósi á það hvernig stjórnsýslu dómstóla landsins hefur verið háttað undanfarin ár og hvaða tækifæri eru þar til umbóta.
    Dómstólar gegna því lykilhlutverki í lýðræðissamfélagi að standa vörð um réttarríkið og að tryggja þau réttindi sem almennir borgarar hafa samkvæmt lögum. Afar mikilvægt er því að stjórnsýslu dómstólanna sé þannig háttað að góðir starfshættir séu tryggðir innan þeirra og að eftirlit með þeim sé fullnægjandi.
    Kveðið er á um verkefni sem falla undir stjórnsýslu dómstólanna í 5.–10. gr. laga um dómstóla, nr. 50/2016, sem tóku gildi 1. janúar 2018, en þau tóku við af eldri lögum um dómstóla. Um framkvæmd verkefnanna gilda almennar reglur, svo sem óskráðar reglur stjórnsýsluréttarins.
    Skýrslubeiðni þessi tekur til allrar stjórnsýslu dómstólanna eins og hún hefur verið skilgreind í lögum á hverjum tíma. Frekari afmörkun á efni skýrslunnar mun falla Ríkisendurskoðun í skaut að lokinni forkönnun og með tilliti til verksviðs stofnunarinnar samkvæmt lögum um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, nr. 46/2016.
    Með skýrslubeiðninni er óskað eftir því með vísan í 17. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga að ríkisendurskoðandi geri stjórnsýsluendurskoðun á stjórnsýslu dómstólanna skv. 6. gr. sömu laga. Samkvæmt þeirri grein felur stjórnsýsluendurskoðun í sér mat á frammistöðu þeirra aðila sem ríkisendurskoðandi hefur eftirlit með. Markmið stjórnsýsluendurskoðunar er að stuðla að úrbótum þar sem einkum er horft til eftirfarandi atriða:
     a.      meðferðar og nýtingar ríkisfjár,
     b.      hvort hagkvæmni og skilvirkni sé gætt í rekstri stofnana og fyrirtækja í eigu ríkisins,
     c.      hvort framlög ríkisins skili þeim árangri sem að er stefnt.
    Við mat á frammistöðu skal m.a. líta til þess hvort starfsemi sé í samræmi við fjárheimildir, löggjöf sem um hana gildir og góða og viðurkennda starfshætti.
    Hlutverk Ríkisendurskoðunar samkvæmt lögum um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, nr. 46/2016, er að hafa eftirlit með fjárreiðum ríkisins, stofnana þess og ríkisfyrirtækja á þann hátt sem nánar greinir í lögunum. Hann skal í störfum sínum hafa eftirlit með tekjum ríkisins og með því að fjárheimildir og hvers konar verðmæti séu nýtt og þeim ráðstafað á hagkvæman og réttmætan hátt og í samræmi við forsendur og ákvarðanir Alþingis. Hlutverk dómstóla og stjórnsýslu dómstólanna er skilgreint í lögum nr. 50/2016 og því eðlilegt að ríkisendurskoðandi geri stjórnsýsluendurskoðun á stjórnsýslu dómstólanna til að leggja mat á hvort fjárheimildir og verðmæti séu nýtt á hagkvæman og réttmætan hátt í samræmi við forsendur og framangreind lög frá Alþingi.
    Flutningsmenn leggja til að skýrslunni verði skilað eigi síðar en 1. apríl 2019.