Ferill 133. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1233  —  133. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um íslenskan ríkisborgararétt og barnalögum (ríkisfangsleysi).

(Eftir 2. umræðu, 11. júní.)


I. KAFLI

Breyting á lögum um íslenskan ríkisborgararétt, nr. 100/1952, með síðari breytingum.

1. gr.

    1. gr. laganna orðast svo:
    Barn öðlast íslenskt ríkisfang við fæðingu:
     1.      ef foreldri þess er íslenskur ríkisborgari,
     2.      ef foreldri þess er látið og var þá íslenskur ríkisborgari.
    Barn sem fundist hefur hér á landi telst vera íslenskur ríkisborgari, þar til annað reynist sannara. Ef sannast eftir að barn hefur náð fimm ára aldri að það sé með erlent ríkisfang heldur það þó sínu íslenska ríkisfangi.

2. gr.

    Á eftir 1. gr. laganna kemur ný grein, 1. gr. a, svohljóðandi:
    Sá sem er fæddur hér á landi og hefur verið ríkisfangslaus frá fæðingu öðlast íslenskt ríkisfang með skriflegri tilkynningu til Útlendingastofnunar áður en hann nær 21 árs aldri. Tilkynning skal lögð fram af forsjármönnum hans hafi hann ekki náð 18 ára aldri.
    Sá sem óskar að öðlast íslenskt ríkisfang skv. 1. mgr. skal hafa dvalist samfellt hér á landi frá fæðingu og í að minnsta kosti þrjú ár þegar tilkynning er lögð fram.
    Ákvæði 1. og 2. mgr. eiga enn fremur við um þann sem fæðist um borð í skipi eða loftfari ef skipið siglir undir íslenskum fána eða loftfarið er skráð hér á landi.

3. gr.

    2. gr. laganna fellur brott.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. a laganna:
     a.      Í stað „12“ í 1. mgr. kemur: 18.
     b.      Í stað 2. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                      Ættleiði íslenskur ríkisborgari þegar hann er búsettur erlendis barn undir 18 ára aldri, með erlendri ákvörðun sem íslensk stjórnvöld viðurkenna, getur hann óskað eftir staðfestingu sýslumanns á ættleiðingunni þannig að hún hafi gildi hér á landi og réttaráhrif samkvæmt lögum um ættleiðingar. Við staðfestingu sýslumanns öðlast barnið íslenskt ríkisfang.
                      Hafi barn náð 12 ára aldri og sé með erlent ríkisfang skal það veita samþykki sitt til að fá íslenskan ríkisborgararétt á grundvelli 2. mgr. Ef barn er yngra en 12 ára skal sýna fram á að haft hafi verið samráð við það ef slíkt þykir gerlegt miðað við aldur þess og þroska. Ekki skal krefjast samþykkis barns ef það er ófært um að veita það sökum andlegs vanþroska eða annars sambærilegs ástands.

5. gr.

    3. gr. laganna orðast svo:
    Útlendingur sem hefur haft fasta búsetu og dvalist hér á landi samfellt frá 13 ára aldri öðlast íslenskan ríkisborgararétt með því að tilkynna Útlendingastofnun skriflega þá ósk sína eftir að 18 ára aldri er náð en áður en hann verður 21 árs.
    Sá sem er ríkisfangslaus eða hefur hlotið alþjóðlega vernd, og hefur haft fasta búsetu og dvalist hér á landi samfellt í að minnsta kosti þrjú ár, öðlast íslenskan ríkisborgararétt með því að tilkynna Útlendingastofnun skriflega þá ósk sína áður en hann verður 21 árs. Forsjármenn hans skulu leggja fram tilkynninguna sé hann yngri en 18 ára.

6. gr.

    Við 1. mgr. 8. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Umsækjandi, sem telst vera ríkisfangslaus samkvæmt ákvæðum laga um útlendinga, hafi verið hér búsettur í fimm ár.

7. gr.

    1. mgr. 10. gr. laganna fellur brott.

8. gr.

    2. mgr. 15. gr. laganna orðast svo:
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð eða nánari reglur um framkvæmd laga þessara.

9. gr.

    Á eftir 15. gr. laganna kemur ný grein, 15. gr. a, svohljóðandi:
    Þjóðskrá Íslands, sem tekur ákvörðun um skráningu barns skv. 1. gr. í þjóðskrá, er heimilt, í því skyni að staðfesta að skilyrði þeirrar greinar séu uppfyllt, að óska eftir því að þeir sem í hlut eiga gangist undir rannsókn á erfðaefni og töku lífsýnis til rannsóknar, ef fyrirliggjandi gögn í því efni eru ekki talin fullnægjandi. Neiti sá sem óskar skráningar barns, án fullnægjandi ástæðu, að gangast undir slíkar rannsóknir skal honum gert ljóst að það kunni að hafa áhrif á meðferð máls.
    Sá sem óskar skráningar barns skv. 1. gr. greiðir allan kostnað af þeim gögnum sem leggja þarf fram, þar á meðal fyrir þýðingu þeirra ef þurfa þykir, áður en Þjóðskrá Íslands tekur ákvörðun um skráningu barns í þjóðskrá. Þjóðskrá Íslands er jafnframt heimilt að innheimta áfallinn kostnað við rannsókn á lífsýni sem tekið hefur verið og erfðaefni.
    Ráðherra skal í reglugerð setja nánari ákvæði um þau gögn sem ber að leggja fram til staðfestingar á fæðingu barns skv. 1. gr. og um foreldri þess.

10. gr.

    17. gr. laganna orðast svo:
    Ákvarðanir sýslumanns, Útlendingastofnunar og Þjóðskrár Íslands samkvæmt lögum þessum er hægt að kæra til ráðuneytisins. Um kærufrest og málsmeðferð að öðru leyti fer eftir ákvæðum VII. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

11. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða í lögunum fellur brott.

II. KAFLI

Breyting á barnalögum, nr. 76/2003, með síðari breytingum.

12. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      Á eftir 3. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, 4. og 5. mgr., svohljóðandi:
                      Heimilt er að beita ákvæðum 2. og 3. mgr. um þau tilvik þegar barn hefur verið getið við tæknifrjóvgun erlendis. Þjóðskrá Íslands metur þá gildi framlagðra gagna foreldris, m.a. hvort tæknifrjóvgun hafi verið gerð samkvæmt heimild þar til bærra stjórnvalda eða dómstóla. Skilyrði er að hjúskaparstaða foreldra uppfylli skilyrði 2. og 3. mgr. eftir því sem við á.
                      Sá sem óskar skráningar barns skv. 4. mgr. greiðir allan kostnað af þeim gögnum sem leggja þarf fram áður en Þjóðskrá Íslands tekur ákvörðun um skráningu barns í þjóðskrá, þar á meðal fyrir þýðingu gagna ef þurfa þykir.
     b.      Í stað „4. mgr.“ í 5. mgr. kemur: 6. mgr.
     c.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Ráðherra skal með reglugerð setja nánari ákvæði um þau gögn skv. 4. mgr. sem foreldri ber að leggja fram til staðfestingar á fæðingu barns, tæknifrjóvgun og um foreldri þess.

13. gr.

    Á eftir 1. málsl. 1. mgr. 78. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Sama gildir um ákvörðun Þjóðskrár Íslands.

14. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2018.