Ferill 485. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1290  —  485. mál.

3. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um Ferðamálastofu.

Frá atvinnuveganefnd.


    Nefndin fjallaði um frumvarpið að nýju eftir 2. umræðu og leggur til nokkrar breytingar til lagfæringar á því. Lögð er til breyting á 6. gr. og 4. mgr. 8. gr. til að orðalag samræmist betur ákvæðum frumvarps til laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun. Einnig er lögð til lagfæring á orðalagi 9. gr. um upplýsingamiðstöðvar annars vegar til að samræma orðalag og hins vegar til að fella brott tilvísun í hugtök sem ekki eiga lengur við, þ.e. bókunarþjónustu og ferðaskipuleggjanda. Lagfæring á orðalagi 9. gr. lýtur að því að kveða á um að upplýsingamiðstöðvar tilkynni starfsemi sína en ekki að notað verði hugtakið skráning eða skráningarskylda. Þá er lögð til orðalagsbreyting á lokamálsgrein 8. gr. þar sem í upphaflegu frumvarpi hefði aðeins átt að vísa til trygginga samkvæmt frumvarpi til laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 6. gr.
                  a.      Í stað orðanna „eða selur pakkaferðir“ í 1. málsl. 2. tölul. komi: selur pakkaferðir eða hefur milligöngu um sölu samtengdrar ferðatilhögunar.
                  b.      Í stað orðanna „milligöngu um samtengda ferðatilhögun“ í 2. mgr. 2. tölul. komi: milligöngu um sölu samtengdrar ferðatilhögunar.
     2.      Við 8. gr.
                  a.      Í stað orðanna „milligöngu um samtengda ferðatilhögun“ í 4. mgr. komi: milligöngu um sölu samtengdrar ferðatilhögunar.
                  b.      2. málsl. 8. mgr. orðist svo: Óheimilt er þó að segja upp tryggingu samkvæmt lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun fyrr en að fenginni staðfestingu Ferðamálastofu á niðurfellingu.
     3.      Við 9. gr.
                  a.      Orðið „skráðar“ í 2. málsl. 1. mgr. falli brott.
                  b.      Í stað orðanna „Skráðar upplýsingamiðstöðvar“ í 2. mgr. komi: Upplýsingamiðstöðvar.
                  c.      Orðin „svo sem bókunarþjónustu“ í 1. málsl. 3. mgr. falli brott.
                  d.      Í stað orðanna „skráningarskylda starfsemi“ í 4. mgr. komi: starfrækslu upplýsingamiðstöðvar.
                  e.      1. málsl. 5. mgr. orðist svo: Ferðamálastofu er heimilt að fella upplýsingamiðstöð af skrá ef starfsemi hefur verið hætt eða starfsemi er útvíkkuð þannig að hún falli undir skilgreiningu á ferðasala dagsferða eða ferðaskrifstofu.

Alþingi, 12. júní 2018.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form.
Njáll Trausti Friðbertsson,
frsm.
Inga Sæland.
Halla Signý Kristjánsdóttir. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir. Óli Björn Kárason.
Kolbeinn Óttarsson Proppé. Sigurður Páll Jónsson. Smári McCarthy.