Ferill 581. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1291  —  581. mál.

3. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum (upprunatengdir ostar, móðurmjólk).

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin fjallaði um frumvarpið að nýju eftir 2. umræðu þar sem breytingartillaga meiri hluta nefndarinnar við 1. gr. frumvarpsins á þskj. 1209 var kölluð aftur.
    Í athugasemdum við frumvarpið er m.a. vísað til frumvarps til laga um breytingu á ýmsum lögum þegar búvörusamningar voru lögfestir (680. mál á 145. löggjafarþingi). Í nefndaráliti meiri hluta atvinnuveganefndar við 3. umræðu um það mál var vísað til þess að hraða ætti því að innleiða aukna kvóta fyrir innflutning á sérostum þannig að aukningin kæmi öll til framkvæmda á fyrsta ári samningsins. Einnig var í álitinu vísað til gagnkvæmni og var því beint til ráðherra að hraða eins og mögulegt væri aðgangsheimildum fyrir mjólkurafurðir á innri markað Evrópusambandsins.
    Við umfjöllun um frumvarp þetta hefur komið fram að ekki hefur verið farið fram á neinar formlegar viðræður við Evrópusambandið um aðgangsheimildir fyrir mjólkurafurðir að innri markaði þess. Ljóst er að fyrrgreint nefndarálit meiri hluta atvinnuveganefndar átti að eiga við um vörur sem ekki væru framleiddar hér á landi og væru því ekki í beinni samkeppni við innlenda framleiðslu. Meiri hlutinn telur þó hafa komið í ljós við umfjöllun um frumvarp þetta að ef það nær fram að ganga mun það hafa mikil áhrif á framleiðslu hér á landi.
    Í samningi Íslands við ESB um viðskipti með landbúnaðarvörur sem undirritaður var haustið 2015 var gengið út frá því að viðbótarmagn á innflutningi á ostum dreifðist á fjögur ár. Í frumvarpi þessu er lagt til að viðbótarmagn verði unnt að flytja inn á einu ári. Í breytingartillögu meiri hluta nefndarinnar við frumvarpið á þskj. 1209 var lagt til að tímabilið yrði tvö ár.
    Meiri hlutinn telur ljóst að innlend framleiðsla þarf aukinn aðlögunartíma fyrir viðlíka breytingu á innflutningi mjólkurvara og að einnig þarf samhliða að leita eftir auknum heimildum til aðgangs að innri markaði Evrópusambandsins. Samningur milli Íslands og Evrópusambandsins er tvíhliða þannig að á móti innflutningi áttu að koma aðgangsheimildir að markaði Evrópusambandsins.
    Meiri hlutinn leggur til að 1. gr. frumvarpsins falli brott og því verði ekki um hraðari innleiðingu á tollkvótum fyrir osta að ræða heldur verði farið eftir því sem kveðið er á um í samningi Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur, en þar er gert er ráð fyrir að viðbótarmagn dreifist á fjögur ár frá gildistöku samningsins.
    Meiri hlutinn beinir því til ráðherra að fyrir 1. nóvember 2018 verði unnin úttekt um áhrif innflutningskvóta á ostum, sem eru verndaðir með upprunatáknum eða með vernduðum landfræðilegum merkingum, á íslenskan markað og kynna atvinnuveganefnd. Við gerð úttektarinnar skal leita eftir sjónarmiðum þeirra sem eiga hagsmuna að gæta.
    Meiri hlutinn ítrekar að ríkisstjórnin skuli hraða eins og kostur er samningum við Evrópusambandið um aðgangsheimildir fyrir mjólkurafurðir að innri markaði þess.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      1. gr. falli brott.
     2.      Fyrirsögn frumvarpsins verði: Frumvarp til laga um breytingu á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum (móðurmjólk).

Alþingi, 12. júní 2018.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form.
Njáll Trausti Friðbertsson,
frsm.
Halla Signý Kristjánsdóttir.
Óli Björn Kárason. Kolbeinn Óttarsson Proppé.