Ferill 553. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1298  —  553. mál.
Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Vilhjálmi Árnasyni um aðgengi fatlaðs fólks.


     1.      Hvernig tryggir ráðherra fullnægjandi aðgengi fyrir fatlað fólk að manngerðu umhverfi í ráðuneytinu og stofnunum á málefnasviði ráðherra, sem og að upplýsingum og gögnum?
Almennt.
    Íslensk stjórnvöld fullgiltu samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks 20. september 2016. Í 9. grein samningsins er fjallað um aðgengi en þar er m.a. kveðið á um það að aðildarríkin skuli gera viðeigandi ráðstafanir í því skyni að gera fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt í mannlífinu á öllum sviðum, þ.e. ráðstafanir sem miða að því að tryggja fötluðu fólki aðgang, til jafns við aðra, að hinu efnislega umhverfi, að samgöngum, að upplýsingum og samskiptum, þ.m.t. upplýsinga- og samskiptatækni og kerfi þar að lútandi, og að annarri aðstöðu og þjónustu sem almenningi er opin eða látin í té, bæði í þéttbýli og dreifbýli. Í greininni eru síðan talin upp fjölmörg atriði sem snerta aðgengi í víðasta skilningi. Fyrrnefndar ráðstafanir sem felast m.a. í því að staðreyna og ryðja úr vegi hindrunum og tálmum sem hefta aðgengi.
    Í nýsamþykktum lögum nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, sem samþykkt voru í apríl sl., er sterk skírskotun til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í markmiðsgrein laganna er kveðið á um það að fatlað fólk skuli eiga kost á bestu þjónustu sem unnt er að veita á hverjum tíma til að koma til móts við sértækar stuðningsþarfir þess. Jafnframt er kveðið á um að það geti notið fullra mannréttinda til jafns við aðra og skapa skuli fötluðu fólki skilyrði til að lifa sjálfstæðu lífi á eigin forsendum. Ein meginforsenda þess að þetta markmið náist er að fötluðu fólki sé tryggt aðgengi að og í manngerðu umhverfi og að það geti nýtt sér aðgang að upplýsingasamfélaginu.
    Í maí 2017 samþykkti Alþingi þingsályktun um stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2017–2021. Þar er einnig byggt á þeirri leiðsögn sem samningur Sameinuðu þjóðanna veitir og þeirra laga sem áður er getið. Í stefnunni og framkvæmdaáætluninni eru skilgreind sjö undirmarkmið þar sem áhersla er lögð á ákveðin grunngildi, svo sem eitt samfélag fyrir alla, jöfn tækifæri og lífskjör, algilda hönnun sem gagnast öllum og að fatlað fólk skuli vera við stjórnvölinn í eigin lífi. Skilyrði verði sköpuð til að fatlað fólk geti lifað sjálfstæðu lífi með aðgengi til jafns við aðra, hvort sem um er að ræða aðgengi að manngerðu umhverfi, samgöngum, þjónustu, upplýsingum eða möguleikum til tjáskipta.

Aðgengi að mannvirkjum.
    Þegar ákvörðun lögaðila liggur fyrir um nýbyggingar sem kostaðar eru úr ríkissjóði er óskað eftir samstarfi við Framkvæmdasýslu ríkisins. Ef um er að ræða ákvörðun um byggingu fasteignar sem heyrir undir málefnasvið ráðuneytis er haft samband við Framkvæmdasýslu ríkisins en Framkvæmdasýslan fer með stjórn ákveðins hluta verklegra framkvæmda af hálfu ríkisins og veitir ráðuneytum og ríkisstofnunum ráðgjöf um byggingatæknileg málefni og undirbúning og eftirlit framkvæmda.
    Ef um breytingar á húsnæði sem heyrir undir velferðarráðuneytið er að ræða og húsnæðið er í eigu ríkissjóðs þá hafa Ríkiseignir að jafnaði séð um undirbúning, framkvæmd og eftirlit með slíkum breytingum. Þó er vert að taka fram að Landspítalinn og Sjúkrahúsið á Akureyri sjá um breytingar og viðhald sinna bygginga.
    Ráðherra áréttar mikilvægi þess að þær stofnanir sem heyra til hans málefnasviðs starfi í samræmi við lög um mannvirki, nr. 160/2010, en skv. 1. gr. er markmið laganna m.a. að tryggja aðgengi fyrir alla. Ráðherra vekur einnig athygli á ákvæðum gildandi byggingarreglugerðar þar sem er kveðið á um aðgengi með skýrum hætti.

Aðgangur að opinberum vefjum.
    Stjórnarráðið er með einn sameiginlegan vef, þ.e. stjornarradid.is. Á þeim vef er fylgt aðgengisstefnu fyrir opinbera vefi sem ríkisstjórn Íslands samþykkti í maí árið 2012. Markmiðið með stefnunni er að tryggja sem bestan aðgang að efni, m.a. fyrir blinda, sjónskerta og aðra sem þurfa að nota hjálpartæki við lestur og notkun vefja almennt.
    Í stefnunni er fylgt staðli alþjóðlegu samtakanna W3C (WCAG 2.0 AA).
    Auk þess má nefna að:
     *      Vefur Stjórnarráðsins er búinn vefþulu, þ.e. að hver sem opnar vefsíðu á þeim vef getur smellt á hnappinn „hlusta“ og hlustað á vefþuluna lesa textann á síðunni.
     *      Velferðarráðuneytið hefur látið þýða nokkrar vefsíður á táknmál og birt á Stjórnarráðsvefnum. Í byrjun árs 2018 var leitað til Félags heyrnarlausra um samstarf um frekari þýðingar á efni Stjórnarráðsvefsins á táknmál.
     *      Í könnun á opinberum vefjum haustið 2017, þar sem m.a. aðgangur var metinn út frá atriðum sem fram koma í fyrrnefndri stefnu, var vefur Stjórnarráðsins stjornarradid.is með fullt hús stiga; 100% í lagi og var um leið valinn besti opinberi vefurinn 2018.

     2.      Er í gildi stefna eða aðgerðaáætlun í ráðuneytinu og stofnunum á málefnasviði ráðherra um aðgengi fatlaðs fólks?
    Í fyrrgreindri þingsályktun um stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2017–2021 er sérstaklega fjallað um aðgengi. Í kafla A er skilgreint markmið um að fatlað fólk hafi aðgengi að samfélaginu til jafns við aðra. Skilgreind eru sjö verkefni sem ætlað er að stuðla að því að markmiðið náist. Verkefnin hafa breiða skírskotun þar sem gert er ráð fyrir fjölda samstarfsaðila um framkvæmd. Vinna við þessi verkefni er þegar komin af stað og fjármögnun á þeim verkefnum sem velferðarráðuneytið ber ábyrgð á tryggð. Jafnframt skal vakin athygli á því að í fyrri framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks sem hófst árið 2012 var árangur áætlunarinnar metinn og má sjá frekari upplýsingar um það á vefsíðu ráðuneytisins. Sama verklag verður viðhaft við vinnu við gildandi áætlun. Þau verkefni sem nú er unnið að samkvæmt áætluninni og snúa beint að aðgengi eru eftirfarandi:

A.1.     Algild hönnun verði leiðarljós við alla skipulagningu manngerðs umhverfis.
Markmið: Að auka þekkingu á samfélagslegu gildi algildrar hönnunar.
Lýsing: Unnið verði fræðsluefni um samfélagslegt gildi algildrar hönnunar. M.a. verði byggt á lögum og stefnu stjórnvalda um fjölbreytta íbúðabyggð þar sem fólki er gert kleift að búa á eigin heimili. Fræðsluefni, fræðslan sjálf og framkvæmd hennar verði samstarfsverkefni faghópa á vegum velferðar- og skipulagsyfirvalda. Fræðslan nái til ábyrgðaraðila á sviði skipulags- og byggingarmála hjá ríki og sveitarfélögum, stjórnmálamanna á sveitarstjórnarstigi, alþingismanna sem og ráðuneyta og stofnana ríkis og sveitarfélaga.
Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
Dæmi um samstarfsaðila: Umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga og samtök fatlaðs fólks.
Tímabil: 2017–2018.
Kostnaður: 2 millj. kr. vegna fræðsluefnis.
Mælanlegt markmið: Fjöldi kynninga og umfang fræðsluefnis.

A.2.     Algild hönnun verði innleidd við breytingar á þegar byggðu húsnæði.
Markmið: Að bæta aðgengi að húsnæði, einkum í þegar byggðum hverfum.
Lýsing: Gefnar verði út leiðbeiningar um heimild til þess að víkja frá ákvæðum byggingarreglugerðar um algilda hönnun í þegar byggðu húsnæði. Jafnframt fari fram miðlæg skráning á þessum undanþágum, bæði varðandi breytingar á húsnæði sem og breytta notkun þess.
Ábyrgð: Umhverfis- og auðlindaráðuneytið.
Dæmi um samstarfsaðila: Velferðarráðuneytið, Mannvirkjastofnun, byggingarfulltrúar sveitarfélaga og Samband íslenskra sveitarfélaga.
Tímabil: Frá og með 2017 (viðvarandi).
Kostnaður: Kostnaðarmat hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.
Mælanlegt markmið: Tímamörk þegar leiðbeiningar hafa verið gefnar út og miðlæg skráning hafin, eigi síðar en 1. janúar 2018.

A.3.     Áætlanir um úrbætur á aðgengi og aðgengisfulltrúar.
Markmið: Að aðgengi í víðum skilningi hindri ekki samfélagsþátttöku fatlaðs fólks.
Lýsing: Hvatt verði til þess að opinberir aðilar skipi aðgengisfulltrúa. Hlutverk þeirra verði að sjá til þess að gerðar séu úttektir á aðgengi, þ.e. á þjónustu og starfsemi viðkomandi aðila í víðum skilningi. Leiði úttekt í ljós að úrbóta sé þörf hlutist aðgengisfulltrúi til um að gerðar séu tímasettar áætlanir um úrbætur.
Ábyrgð: Velferðarráðuneytið, en færist yfir til miðstöðvar innan stjórnsýslunnar skv. 1. mgr.
33. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Dæmi um samstarfsaðila: Umhverfis- og auðlindaráðuneytið, sveitarfélög og Samband íslenskra sveitarfélaga.
Tímabil: 2017–2021.
Kostnaður: Kostnaður metinn hjá innanríkisráðuneytinu.
Mælanlegt markmið: Hlutfallslegur fjöldi aðgengisfulltrúa hjá sveitarfélögum og ríkisstofnunum ásamt fjölda aðgerðaáætlana.

A.4.     Aðgengilegar upplýsingar um réttindi, þjónustu og annað efni.
Markmið: Að fatlað fólk geti nálgast upplýsingar um rétt sinn og þjónustu.
Lýsing: Vefsíður, fræðsluefni og upplýsingar, svo sem um réttindi og þjónustu, séu aðgengilegar fötluðu fólki á auðskildu máli og byggist á aðferðafræði algildrar hönnunar. Táknmálstúlkun verði aðgengileg sem og punktaletur, textun og upplýsingar, bæði ritaðar og rafrænar, á auðskildu máli. Á vefjum sveitarfélaga verði upplýsingar um umferli og hjólastólaaðgengi. Opinberir aðilar geri tímasettar áætlanir um úrbætur á aðgengi á framangreindum sviðum sem séu endurmetnar annað hvert ár.
Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
Dæmi um samstarfsaðila: Innanríkisráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðuneytið, skipulagsyfirvöld, Embætti landlæknis, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, Samband íslenskra sveitarfélaga, sveitarfélög og samtök fatlaðs fólks.
Tímabil: Viðvarandi.
Kostnaður: 3 millj. kr. á ári.
Mælanlegt markmið: Hlutfall fatlaðs fólks sem telur sig geta nálgast upplýsingar um réttindi og þjónustu.

A.5.     Starfsstöð fyrir auðlesinn texta.
Markmið: Að auka framboð auðlesins texta, m.a. fyrir fólk með þroskahömlun og aðra sem geta nýtt sér hann.
Lýsing: Í því skyni að greiða fyrir aðgengi fólks með þroskahömlun að upplýsingum og þar með tækifærum til virkrar þátttöku í samfélaginu til jafns við aðra verði komið á laggirnar starfsstöð þar sem veitt verði ráðgjöf, upplýsingar og kennsla varðandi auðlesinn texta. Þar verði m.a. orðabanki sem verði aðgengilegur á netinu til notkunar fyrir alla. Starfsstöðin gegni sambærilegu hlutverki gagnvart fólki sem þarf auðlesinn texta til að afla sér upplýsinga og Samskiptamiðstöð heyrnarlausa og heyrnarskertra hefur gagnvart döff-fólki og Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga hefur gagnvart fólki með sjónskerðingar.
Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
Dæmi um samstarfsaðila: Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Háskóli Íslands, menntavísindasvið, Átak, félag fólks með þroskahömlun, Landssamtökin Þroskahjálp og Öryrkjabandalag Íslands.
Tímabil: 2018 og svo viðvarandi.
Kostnaður: 3 millj. kr.
Mælanlegt markmið: Starfsstöð fyrir auðlesinn texta hefji starfsemi.

A.6.     Auknir möguleikar fatlaðs fólks til að nýta almenningssamgöngur.
Markmið: Að leið fatlaðs fólks verði greiðari á milli staða dagsdaglega.
Lýsing: Aðgengi að biðskýlum og almenningsvögnum verði bætt. Á biðstöðvum sjáist skýrt hvenær næsta vagns er von. Í vögnum verði afmörkuð svæði fyrir hjólastóla. Fatlað fólk sem metið er í þörf fyrir akstursþjónustu fái kort sem gildir í almenningsvagna samhliða akstursþjónustunni. Ungir notendur akstursþjónustu njóti sömu afsláttarkjara og jafnaldrar þeirra. Áætlunarleiðir milli landshluta verði aðgengilegar fötluðu fólki með sama hætti og almenningssamgöngur innan sveitarfélaga.
Ábyrgð: Sveitarfélög og landshlutasamtök þeirra.
Dæmi um samstarfsaðila: Velferðarráðuneytið og Strætó bs.
Tímabil: 2017–2021.
Kostnaður: Kostnaðarmat hjá sveitarfélögum.
Mælanlegt markmið: Hlutfall almenningsvagna með hjólastólaaðgengi.

A.7.     Tölulegar upplýsingar um aðgengiskröfur.
Markmið: Að alltaf sé hugað að aðgengi fyrir alla við skipulagningu nýs húsnæðis og íbúðabyggða.
Lýsing: Unnin verði skýrsla með upplýsingum um áhrif aðgengiskrafna við skipulagningu íbúðahverfa þar sem áhersla er lögð á þéttingu byggðar. Teknar verði út aðgengiskröfur bæði í skipulagsskilmálum og lágmarkskröfum samkvæmt byggingarreglugerð. Skýrslan verði liður í framkvæmd landsskipulagsstefnu og sérstaklega tengd starfi aðgerðahóps sem gera á tillögur um samræmdar aðgerðir á sviði húsnæðismála til að greiða fyrir byggingu lítilla og hagkvæmra íbúða.
Ábyrgð: Umhverfis- og auðlindaráðuneytið.
Dæmi um samstarfsaðila: Mannvirkjastofnun, Skipulagsstofnun, Þjóðskrá Íslands, Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Samband íslenskra sveitarfélaga.
Tímabil: 2017.
Kostnaður: Innan ramma.
Mælanlegt markmið: Tímamörk þegar skýrsla hefur verið lögð fram, eigi síðar en 1. janúar 2018.

    Vilji ráðherra stendur til þess að aðgengi að ráðuneytinu, stofnunum þess og þeim stöðum sem almenningur sækir sé í samræmi við almenn viðmið í byggingarreglugerð.

Staða mála á málefnasviði ráðherra.
    Kallað var eftir upplýsingum um stöðu aðgengismála hjá þeim stofnunum sem heyra til málefnasviðs ráðherra. Niðurstaða þeirrar upplýsingaöflunar má sjá í meðfylgjandi svörum stofnana á málefnasviði ráðherra:

Geislavarnir ríkisins.
    Geislavarnir hafa ekki gert aðgerðaáætlun um aðgengi fatlaðs fólks að stofnuninni.

Sjúkratryggingar Íslands.
    Hjá Sjúkratryggingum Íslands er ekki til staðar sérstök stefna eða aðgerðaáætlun um aðgengi fatlaðs fólks.

Heilbrigðisstofnun Vesturlands.
    Það er ekki til skráð stefna eða aðgerðaáætlun á Heilbrigðisstofnun Vesturlands í málefnum fatlaðs fólks. Stofnunin ítrekar mikilvægi góðs aðgengis fyrir alla sem leita eftir þjónustu. Gera þarf lítils háttar lagfæringar á nokkrum stöðum til að bæta aðgengi fyrir þá sem eru í hjólastól.

Heyrnar- og talmeinastöð Íslands.
    Heyrnar- og talmeinastöð Íslands er með aðgengisstefnu í málefnum fatlaðra í samþykktarferli innan stofnunar.
    HTÍ hefur einnig verið með aðgengisstefnu í vefmálum frá því í ágúst 2017.

Lyfjastofnun Íslands.
Húsnæði.
    Starfsemi Lyfjastofnunar fer fram í leigðu húsnæði að Vínlandsleið 14 í Reykjavík. Dyr við aðalinngang eru með hreyfiskynjara og opnast þær sjálfkrafa. Hægt er að komast með lyftu á þriðju hæð hússins þar sem móttaka Lyfjastofnunar er. Tvennar dyr eru án rafstýringar í sameign hússins, aðrar dyrnar eru á fyrstu hæð og þarf að fara um þær á leið að lyftunni. Hinar eru á þriðju hæð og þarf að fara um þær af stigagangi að móttöku Lyfjastofnunar. Þær síðarnefndu eru alltaf hafðar opnar á opnunartíma og torvelda því ekki aðgengi. Lyfjastofnun hefur óskað eftir því við húseiganda að fyrrnefndu dyrnar verði gerðar rafstýrðar til að hægt verði að opna þær með því að ýta á takka.

Upplýsingamiðlun á vef:
    Í fagstefnu Lyfjastofnunar sem snýr að upplýsingum og fræðslu stendur m.a.: „Við tryggjum að hagsmunaaðilar okkar fái þær upplýsingar sem þeir þurfa tímanlega og á þann hátt sem þeir skilja.“ Þar stendur einnig: „Efnið frá okkur tekur mið af markhópnum hverju sinni, þannig að við ábyrgjumst í hvert sinn að það sé eins aðgengilegt og eins auðskilið og kostur er.“
    Lyfjastofnun stendur nokkuð vel hvað varðar aðgengismál á vef. Í úttekt á opinberum vefjum ráðuneyta, stofnana og sveitarfélaga sem nefnist „Hvað er spunnið í opinbera vefi?“ hlaut Lyfjastofnun einkunnina 91 af 100 fyrir aðgengi. Þrátt fyrir þetta vill Lyfjastofnun gera enn betur þegar kemur að aðgengismálum á vef og er eitt af lykilmarkmiðum fagstefnunnar sem snýr að upplýsingum og fræðslu að bæta aðgengi vefsins með hagsmuni fatlaðra að sjónarmiði.
    Vinna við að ná þessu lykilmarkmiði er hafin og tekur mið af leiðbeiningum um bætt vefaðgengi WCAG 2.1. Sem dæmi um leiðir Lyfjastofnunar til bætts aðgengis á vef má nefna einföldun á tungumáli sem notað er á vefnum með það að markmiði að það sé einfalt og auðskiljanlegt en ekki síst skannanlegt.

Vísindasiðanefnd.
    Aðgangur að Vísindasiðanefnd er greiður. Stæði er fyrir fatlaða, lyfta og þröskuldalaus gólf í húsnæði nefndarinnar. Ekki hefur verið óskað eftir aðgerðum til þess að auðvelda fötluðum aðgang að upplýsingum og gögnum nefndarinnar.
    Hvorki stefna eða aðgerðaáætlun hefur verið sett fyrir aðgang fatlaðra að starfsemi Vísindasiðanefndar.

Embætti landlæknis.
Aðgengi að húsnæði embættis landlæknis að Barónsstíg 47:
    Í áhættumati sem öryggisnefnd embættisins gerði árið 2017 kemur fram að aðgengi fatlaðs fólks að byggingunni er óviðunandi og hefur svo verið frá því embætti landlæknis flutti í húsið. Aðgengi væri þó hægt að útbúa í einhverjum tilvikum bakdyramegin um starfsmannainngang þar sem er aðgengi að lyftu.

Vefstefna embættis landlæknis:
    Í vefstefnu embættis landlæknis sem gefin var út árið 2015 segir: „Embætti landlæknis starfrækir vefsetrið www.landlaeknir.is til þess að miðla upplýsingum, leiðbeiningum og ráðleggingum til almennings og fagfólks á skýran og vandaðan hátt. Vefurinn er einn helsti farvegur fyrir upplýsingar frá embættinu.“
    Vefstefna embættisins var uppfærð í september 2017 þar sem settar voru inn nánari upplýsingar varðandi aðgengismál.

Aðgengisstefna:
    Viðmót og leiðakerfi skal vera aðgengilegt og augljóst og vísa notandanum auðveldlega og hratt áfram. Íslenska skal vera aðaltungumál í öllum rafrænum miðlum og rafrænni þjónustu embættisins. Taka skal tillit til þeirra sem ekki hafa íslensku að móðurmáli og birta lykilupplýsingar um embættið og áríðandi fréttir einnig á ensku. Auk þess skal sumt útgefið efni þýtt á fleiri tungumál þegar sérstök ástæða þykir til.
    Vefur Embættis landlæknis skal fara eftir aðgengisstöðlum fyrir sjónskerta.
    Árið 2017 voru gerðar ýmsar breytingar á vef stofnunarinnar til að auðvelda notendum með fötlun að ferðast um vefinn og nálgast það efni sem þar er birt. Sá staðall sem tekið er mið af eru alþjóðlegu viðmiðunarreglurnar um stafrænt aðgengi, eða Web Content Accessibility Guidelines (WCAG 2.0 – AA).
    Þetta þýðir að vefurinn er meðal annars aðgengilegur blindum sem nýta sér heimasíður með hjálp skjálesara, sjónskertum sem þurfa sérstaklega stórt letur, lesblindum sem hentar annar bakgrunnur en venja er að nota og hreyfihömluðum sem eiga erfitt með að nota mús við að ferðast um vefsíður. Þessi atriði auðvelda einnig öldruðum að nýta sér vef stofnunarinnar.
    Nýtt efni skal vera í samræmi við yfirlýsta stefnu sem birt er á vefnum. Eldra efni sem talið er mikilvægt eða er mikið sótt er uppfært til að það standist sömu viðmið.
    Vefurinn skal vera aðgengilegur í öllum helstu tækjum, snjallsímum og spjaldtölvum og fylgja tækniþróun á hverjum tíma.
    Vefurinn uppfyllir allar kröfur sem gerðar eru til opinberra vefja um aðgengismál.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins.
    Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur leitast við að tryggja fötluðum fullnægjandi aðgengi að öllum heilsugæslustöðvum og öðrum einingum sem undir hana heyra.
    Aðgengi fatlaðra að upplýsingum og gögnum, t.d. sjúkraskrá, er í samræmi við lög um sjúkraskrár, nr. 55/2009, og reglugerð 550/2015.
    Ekki liggur fyrir stefna eða aðgerðaáætlun hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um aðgengi fatlaðs fólks.

Úrskurðarnefnd velferðarmála.
    Það er engin skrifleg stefna eða aðgerðaáætlun í gildi hjá úrskurðarnefnd velferðarmála um aðgengi fatlaðra, en að sjálfsögðu er það stefna úrskurðarnefndarinnar að hugsað sé fyrir því að aðgengi fatlaðs fólks svo og ófatlaðs fólks sé eins og best verður á kosið.
    Úrskurðarnefnd velferðarmála er staðsett á 11. hæð í Katrínartúni 2. Fatlaðir einstaklingar hafa mjög gott aðgengi að afgreiðslu. Bílastæðakjallari er undir húsinu með stæðum sérmerktum fyrir fatlaða. Rafræn opnun er á hurðum til þess að komast að lyftunni.
    Bjalla er fyrir utan dyr að afgreiðslu á 11. hæð. Salernisaðstaða fyrir fatlaða er fyrir hendi á hæðinni.

Sjúkrahúsið á Akureyri.
    Sjúkrahúsið á Akureyri sér um breytingar og viðhald sinna bygginga.
    Við allar framkvæmdir er lögð rík áhersla á að gildandi lögum og reglugerðum sé fylgt. Einnig að fylgt sé leiðbeiningarritum sem Mannvirkjastofnun gefur út og upplýsingum og leiðbeiningum sem fram koma í ritinu Aðgengi fyrir alla.
    Því er til að svara að Sjúkrahúsið á Akureyri fylgir þeim lögum og reglugerðum sem um þessi mál gilda við þær breytingar og endurbætur sem gerðar eru á húsnæði sjúkrahússins. Jafnframt er tryggt að fatlað fólk geti komist um sjúkrahúsið án vandkvæða. Ekki er um að ræða sérstaka stefnu eða aðgerðaáætlun sem sérstaklega tekur á þessum málum, þ.m.t. aðgengi að upplýsingum og gögnum.

Fjölmenningarsetur.
    Fjölmenningarsetur tryggir aðgengi allra að manngerðu umhverfi stofnunarinnar með því að leigja skrifstofuhúsnæði í byggingu með góðu aðgengi fyrir fatlaða. Í húsinu er lyfta, hurðir með rafmagnsopnun og klósett fyrir fatlaða. Engir þröskuldar eru í húsinu og á því hafa verið gerðar lagfæringar undanfarið sérstaklega með aðgengi fatlaðra í huga.
    Ekki er í gildi sérstök áætlun hjá Fjölmenningarsetri um aðgengi fatlaðra þar sem aðgengi að manngerðu umhverfi er gott. Hins vegar er í gildi stefna stofnunarinnar um að veita notendum sem best aðgengi að upplýsingum hvort sem er í gegnum vef, síma eða í eigin persónu þar sem stofnunin starfar á sviði upplýsingamiðlunar.

Landspítalinn.
    Landspítalinn sér um breytingar og viðhald sinna bygginga. Við allar framkvæmdir er lögð rík áhersla á að gildandi lögum og reglugerðum sé fylgt. Einnig að fylgt sé leiðbeiningarritum sem Mannvirkjastofnun gefur út og upplýsingum og leiðbeiningum sem fram koma í ritinu Aðgengi fyrir alla.
    Það er hlutverk mismunandi aðila innan Landspítala að gæta að aðgengi fatlaðra, svo sem fasteignadeildar að huga að aðgengi í manngerðu umhverfi, hlutverk samskiptadeildar að huga að aðgengi að upplýsingum á vef spítalans og hlutverk klínískra stjórnenda að huga að aðgengi fatlaðra að upplýsingum og þjónustu Landspítala, hvers á sínu sviði.
    Sjúkraþjálfarar Landspítala gerðu úttekt á aðgengi að manngerðu umhverfi á spítalanum fyrir nokkrum árum. Eins hefur Öryrkjabandalagið gert úttekt á aðgengi að kvennadeild spítalans og Blindrafélagið kannað aðgengi að manngerðu umhverfi á hluta spítalans. Ekki er til heildstæð úttekt á aðgengi að manngerðu umhverfi á Landspítala. Haustið 2017 var gerð úttekt á aðgengi að opinberum vefjum og þar á meðal að vef Landspítala.
    Ýmsar ábendingar hafa komið fram um aðgengi að manngerðu umhverfi á Landspítala. Hins vegar er Landspítali í gömlum byggingum og víða er erfitt um vik og kostnaðarsamt að uppfylla kröfur sem gerðar eru nú til dags svo sem varðandi halla á römpum og aðgengi að snyrtingum fatlaðra. Landspítali leitast við að mæta sem best þörfum fólks og kröfum um gott aðgengi að vef sínum og hefur verið að bæta það.
    Ávallt þegar húsnæði er gert upp er hugað að úrbótum varðandi aðgengi fatlaðra þannig að það standist kröfur eins og kostur er. Þá hefur bílastæðum fatlaðra verið fjölgað og við Grensásdeild hefur verið byggt yfir þau. Ljóst er hins vegar að þörf er á verulegu átaki í að lagfæra hús Landspítala og lóðir þannig að aðgengið verði ásættanlegt. Núverandi vefur spítalans er kominn til ára sinna og unnið er að uppfærslu á honum.