Ferill 527. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1302  —  527. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Helga Hrafni Gunnarssyni um undanþágur frá gjaldeyrishöftum.


    Við vinnslu svars við fyrirspurn þessari var upplýsinga aflað frá Seðlabanka Íslands.

     1.      Hvaða fjárhæðum nema annars vegar undanþágur frá gjaldeyrishöftum og hins vegar undanþágur til gjaldeyrisviðskipta, þar sem íslenska krónan er annar eða einn gjaldmiðlanna, sem veittar hafa verið eftirtöldum aðilum:
                  a.      fjármálafyrirtækjum í slitameðferð,
                  b.      fjármálafyrirtækjum sem lokið hafa slitameðferð,
                  c.      lífeyrissjóðum,
                  d.      öðrum innlendum aðilum,
                  e.      forgangskröfuhöfum fallinna fjármálafyrirtækja,
                  f.      almennum kröfuhöfum fallinna fjármálafyrirtækja,
                  g.      erlendum eigendum og kröfuhöfum fyrirtækja sem lokið hafa nauðasamningi,
                  h.      öðrum erlendum aðilum?

    Ráðherra barst þessi sama fyrirspurn í mars 2016 og var fyrirspurninni svarað í júlí sama ár. Á þeim tíma sem liðinn er hafa upphæðirnar sem um ræðir breyst lítillega, enda voru lífeyrissjóðum veittar undanþágur frá lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, fram að losun fjármagnshafta í mars 2017 og nú er aðeins eitt fyrirtæki í slitameðferð samkvæmt upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu í stað tveggja þegar fyrirspurninni var svarað fyrir tæpum tveimur árum síðan.
    a.     Seðlabankinn hefur ríkar trúnaðarskyldur gagnvart aðilum sem óska eftir undanþágum frá lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, sbr. 15. gr. sömu laga og 35. gr. laga nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands. Í ljósi þessa viðhefur Seðlabankinn almennt það verklag við birtingu upplýsinga sem bankinn býr yfir að birta ekki upplýsingar ef þær varða færri en þrjá aðila. Þar sem aðeins eitt fjármálafyrirtæki er í slitameðferð, miðað við upplýsingar á vef Fjármálaeftirlitsins 11. júní 2018, getur Seðlabankinn ekki orðið við beiðni um upplýsingar um fjárhæðir undanþága sem því kunna að hafa verið veittar.
    b.     Seðlabankinn hefur veitt fjármálafyrirtækjum sem lokið hafa slitameðferð undanþágur frá lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, vegna innflutnings á innlendum gjaldeyri að fjárhæð 1.525.649.868 kr., gjaldeyrisviðskipta og/eða fjármagnsflutnings á milli landa í erlendum gjaldeyri að fjárhæð 1.030.276 sterlingspunda, 36.699.125 sænskra króna, 12.534.332 bandaríkjadala, 5.728.830 norskra króna, 57.821.812 evra, 39.876.055 danskra króna, 12.125.000 kanadískra dala og jafnframt að jafnvirði 116.280.861.870 kr., í tilvikum er veitt var heimild fyrir kaupum á ótilgreindum gjaldeyri.
    Rétt er að taka fram að framangreind samantekt er unnin upp úr beiðnum um undanþágur frá lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, sem voru afgreiddar fyrir 11. júní 2018, þar sem fjármálafyrirtæki sem lokið hafa slitameðferð eru skráð sem umsækjendur í skjalakerfi Seðlabankans. Seðlabankinn hefur jafnframt veitt fjármálafyrirtækjum sem lokið hafa slitameðferð undanþágur frá ákvæðum laga nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, þar sem nákvæmar fjárhæðir vegna fjármagnshreyfinga á milli landa eða gjaldeyrisviðskipta liggja ekki fyrir. Slíkar undanþágur varða m.a. flutning og/eða sölu á verðbréfum útgefnum í erlendum gjaldeyri, undanþágur vegna stuðnings við erlendar eignir í tengslum við sölu þeirra, undanþágur vegna skuldajöfnunar krafna, lánveitinga o.fl.
    Framangreindu til viðbótar má benda á undanþágur sem veittar voru vegna uppgjörs fallinna viðskiptabanka og sparisjóða á grundvelli stöðugleikaskilyrða, sbr. fréttatilkynningu á vef Seðlabankans, dags. 18. febrúar 2016. 1 Í því sambandi má jafnframt benda á mat Seðlabankans á drögum að nauðasamningum, dags. 27. október 2015, sbr. fréttatilkynningu á vef Seðlabankans, dags. 28. október 2015. 2
    c.     Seðlabankinn hefur veitt lífeyrissjóðum undanþágur frá lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, vegna innflutnings á innlendum gjaldeyri að fjárhæð samtals 96.201.531 kr., gjaldeyrisviðskipta og/eða fjármagnsflutninga á milli landa í erlendum gjaldeyri að fjárhæð 18.199.210 evra, og jafnframt að jafnvirði 42.064.315.000 kr., í tilvikum er veitt var heimild fyrir kaupum á ótilgreindum erlendum gjaldeyri.
    Á árunum 2015–2017 veitti Seðlabanki Íslands lífeyrissjóðum sem starfsleyfi höfðu skv. V. eða XI. kafla laga nr. 129/1997, ásamt öðrum innlendum vörsluaðilum séreignarlífeyrissparnaðar, sem hlotið höfðu staðfestingu fjármála- og efnahagsráðuneytisins á grundvelli 10. gr. laga nr. 129/1997, undanþágu frá lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, til fjárfestinga í fjármálagerningum útgefnum í erlendum gjaldeyri. Framangreindar undanþágur voru veittar með vísan til fréttatilkynninga sem birtar voru á vef Seðlabankans 15. júlí 2015, 8. janúar 2016, 19. maí 2016, 1. júlí 2016, 19. október 2016 og 28. desember 2016. Samanlögð fjárhæð sem veitt var lífeyrissjóðunum á fyrrgreindum grundvelli nam 188.104.398.000 kr.
    Rétt er að taka fram að samantekt þessi er unnin upp úr beiðnum um undanþágur frá lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, sem voru afgreiddar fyrir 11. júní 2018, þar sem lífeyrissjóðir eru skráðir sem umsækjendur í skjalakerfi Seðlabankans, að undanskilinni samantekt vegna fjárfestinga í fjármálagerningum útgefnum í erlendum gjaldeyri sem inniheldur jafnframt upplýsingar um fjárhæð veittra undanþága til annarra innlendra vörsluaðila séreignarlífeyrissparnaðar.
    d.     Ekki liggur fyrir úrvinnsla umbeðinna upplýsinga. Slík úrvinnsla er mjög umfangsmikil og tímafrek.
    e.     Seðlabankinn hefur veitt forgangskröfuhöfum fallinna fjármálafyrirtækja undanþágur frá lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, vegna fjármagnsflutnings á milli landa í erlendum gjaldeyri að fjárhæð 31.755.450 evra, 5.122.942 sterlingspunda, 70.353.241 norskra króna, 12.805.844 bandaríkjadala og jafnframt að jafnvirði 5.088.633.525 kr., í tilvikum er veitt var heimild fyrir kaupum á ótilgreindum erlendum gjaldeyri.
    Rétt er að geta þess að ekki liggja fyrir tæmandi upplýsingar um undanþágur sem veittar hafa verið til handa forgangskröfuhöfum fallinna fjármálafyrirtækja. Samantektin er unnin upp úr beiðnum um undanþágur frá lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, sem voru afgreiddar fyrir 11. október sl., þar sem forgangskröfuhafar fallinna fjármálafyrirtækja eru skráðir sem umsækjendur í skjalakerfi Seðlabankans. Þá einskorðast svarið við undanþágur vegna útgreiðslu fallinna fjármálafyrirtækja til forgangskröfuhafa.
    Framangreindu til viðbótar má benda á undanþágur sem veittar voru vegna Icesave og til handa LBI hf., sbr. fréttatilkynningar á vef Seðlabankans, 18. september 2015, 3 og 1. október 2014. 4
    f.          Hér er vísað til undanþágna sem veittar voru vegna uppgjörs fallinna viðskiptabanka og sparisjóða á grundvelli stöðugleikaskilyrða, sbr. fréttatilkynningu á vef Seðlabankans, dags. 18. febrúar 2016, 5 og má jafnframt benda á mat Seðlabankans á drögum að nauðasamningum 27. október 2015, sbr. fréttatilkynningu á vef Seðlabankans, dags. 28. október 2015. 6
    g.     Seðlabankinn hefur veitt erlendum eigendum og kröfuhöfum fyrirtækja sem lokið hafa nauðasamningi undanþágur frá lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, sem afgreiddar voru fyrir 11. október sl., vegna fjármagnsflutnings á milli landa í innlendum gjaldeyri að fjárhæð 557.283.252 kr. og í erlendum gjaldeyri að fjárhæð 130.868.003 evra, 39.876.055 danskra króna, 12.500.000 bandaríkjadala, 12.125.000 kanadískra dala og 3.168.142 sterlingspunda, og gjaldeyrisviðskipta og fjármagnsflutninga á milli landa í erlendum gjaldeyri að fjárhæð 40.000.000 evra, 23.100.000 bandaríkjadala og jafnframt að jafnvirði allt að fjárhæð 5.937.885.556 kr., í tilvikum er veitt var heimild fyrir kaupum á ótilgreindum erlendum gjaldeyri.
    Samantektin er unnin upp úr beiðnum um undanþágur frá lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, sem voru afgreiddar fyrir 11. júní 2018, þar sem erlendir eigendur og kröfuhafar fyrirtækja sem lokið hafa nauðasamningi eru skráðir sem umsækjendur í skjalakerfi Seðlabankans.
    h.     Ekki liggur fyrir úrvinnsla umbeðinna upplýsinga. Slík úrvinnsla er mjög umfangsmikil og tímafrek.

     2.      Hversu háar greiðslur hafa verið greiddar til kröfuhafa af innlendum eignum fyrirtækjanna, þ.e. kröfum á innlenda aðila óháð gjaldmiðli, sem áður voru ALMC, Glitnir, Kaupþing banki og Landsbanki Íslands?
    Ekki liggur fyrir að hvaða marki innlendar eignir hafa verið greiddar til kröfuhafa enda var slík upplýsingagjöf ekki hluti af skilyrðum sem sett voru fyrir undanþágum sem veittar voru félögunum í lok árs 2015 og byrjun árs 2016.
    Markmið stöðugleikaskilyrðanna var að uppgjör slitabúa fallinna viðskiptabanka og sparisjóða við kröfuhafa sína myndi ekki ógna stöðugleika í gengis- og peningamálum og að fjármálalegum stöðugleika yrði ekki raskað með slitum þeirra. Forsenda þess að uppgjör þeirra ylli ekki óstöðugleika var að gripið yrði til ráðstafana fyrir fram til mótvægis við þau áhrif sem myndu stafa af útgreiðslum innlendra eigna til erlendra kröfuhafa.
    Framangreindu til viðbótar má benda á að í Fjármálastöðugleika 2016/1 7 sem Seðlabankinn birti eftir að slitabú fallinna fjármálafyrirtækja, þ.e. gömlu viðskiptabankanna, höfðu gengið til nauðasamninga og bankinn veitti þeim undanþágu frá lögum um gjaldeyrismál, birtist umfjöllun um uppgjör slitabúanna í viðauka. Þar er m.a. fjallað um greiðslur til almennra kröfuhafa og forgangskröfuhafa. Hafa ber þó í huga að stofnuð voru eignarhaldsfélög við slit búanna sem héldu áfram vinnu við sölu þeirra eigna sem eftir voru og útgreiðslu til kröfuhafa eftir að þær upplýsingar sem hér er vísað til voru birtar.

     3.      Hversu háar greiðslur á eftir að greiða frá fyrirtækjunum sem áður voru ALMC, Glitnir, Kaupþing banki og Landsbanki Íslands af innlendum eignum þessara fyrirtækja, þ.e. kröfum á innlenda aðila óháð gjaldmiðli?
    Ekki liggja fyrir upplýsingar um hversu háar greiðslur eigi eftir að greiða af innlendum eignum framangreindra félaga, enda var slík upplýsingagjöf ekki hluti af skilyrðum sem sett voru fyrir veitingu undanþága til þeirra í lok árs 2015 og byrjun árs 2016 eins og fram hefur komið.

     4.      Hversu mikið hefur nú þegar verið greitt af skuldabréfum í eigu bankanna sem áður voru ALMC, Glitnir, Kaupþing banki og Landsbanki Íslands sem áttu að ná til meira en sjö ára, sbr. kynningu stjórnvalda á áætlun um afnám hafta?
    Stöðugleikaskilyrðin fólu m.a. í sér að slitabúin veittu viðskiptabönkum langtímafjármögnun í erlendum gjaldeyri, samtals um 155 milljarða kr. 8 Þeir viðskiptabankar sem nutu fjármögnunar slitabúanna hafa nú allir endurfjármagnað sig á erlendum mörkuðum og endurgreitt fjármögnun þeirra en einnig hefur önnur fjármögnun þessara félaga til innlendra viðskiptabanka verið greidd upp. 9
1     sedlabanki.is/utgefid-efni/frettir-og-tilkynningar/frettasafn/frett/2016/02/18/Sidasta-undanthagan-vegna-uppgjors-bua-fallinna-vidskiptabanka-og-sparisjoda-hefur-verid-veitt/
2     sedlabanki.is/utgefid-efni/frettir-og-tilkynningar/frettasafn/frett/2015/10/28/Sedlabanki-Islands-hefur-lokid-mati-sinu-a-fyrirliggjandi-drogum-ad-naudasamningum/
3     sedlabanki.is/utgefid-efni/frettir-og-tilkynningar/frettasafn/frett/2015/09/18/Undanthagur-og-gjaldeyrisvidskipti-vegna-Icesave/
4     sedlabanki.is/utgefid-efni/frettir-og-tilkynningar/frettasafn/frett/2014/10/01/Svarbref-til-LBI-vegna-beidni-um-undanthagur/
5     sedlabanki.is/utgefid-efni/frettir-og-tilkynningar/frettasafn/frett/2016/02/18/Sidasta-undanthagan-vegna-uppgjors-bua-fallinna-vidskiptabanka-og-sparisjoda-hefur-verid-veitt/
6     sedlabanki.is/utgefid-efni/frettir-og-tilkynningar/frettasafn/frett/2015/10/28/Sedlabanki-Islands-hefur-lokid-mati-sinu-a-fyrirliggjandi-drogum-ad-naudasamningum/
7     sedlabanki.is/library/Skraarsafn/Fjarmalastodugleiki/2016-1/FJMST_1_2016.pdf
8     Hér er um að ræða langtímafjármögnun Arion banka hf. og Íslandsbanka hf.
9     glitnir.info/press-room/653-agreement-reached-with-islandsbanki.html
landsbankinn.is/fjarfestar/frettir/2017/06/22/Landsbankinn-greidir-upp-eftirstodvar-skuldabrefa-LBI-ehf/?p=3
wwwv2.arionbanki.is/bankinn/fjolmidlar/frettir/frett/2017/06/30/Arion-banki-greidir-upp-eftirstodvar-skuldabrefs-Kaupthings/
islandsbanki.is/um-islandsbanka/frettir/frett/2016/08/31/Islandsbanki-hf.-Islandsbanki-gefur-ut-skuldabref-fyrir-500-milljonir-evra-a-1-75-fostum-voxtum-eda-200-punkta-alagi-yfir-millibankavexti/